Farið er að snjóa uppi við Kárahnjúkastíflu. Heimamenn binda vonir við að hún muni gefa nýju sveitarfélagi á Héraði hundruð milljóna í tekjur.
Farið er að snjóa uppi við Kárahnjúkastíflu. Heimamenn binda vonir við að hún muni gefa nýju sveitarfélagi á Héraði hundruð milljóna í tekjur. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
LÍKUR eru á að nefnd sem vinnur að heildarendurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga leggi til að fasteignaskattar verði greiddir af stíflumannvirkjum en slíkir skattar hafa ekki verið greiddir fram að þessu.

LÍKUR eru á að nefnd sem vinnur að heildarendurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga leggi til að fasteignaskattar verði greiddir af stíflumannvirkjum en slíkir skattar hafa ekki verið greiddir fram að þessu. Þessi breyting getur hækkað tekjur einstakra sveitarfélaga um tugi eða hundruð milljóna króna á ári.

Nefndinni var sérstaklega falið að fjalla um skattlagningu sveitarfélaga á orkufyrirtæki. Byggt var á niðurstöðum starfshóps fjögurra ráðuneyta sem skipaður var í kjölfar þess að Norður-Hérað benti á að til sveitarfélagsins kæmu engin fasteignagjöld af stíflumannvirkjum Kárahnjúkavirkjunar en Fljótsdalshreppur fengi verulegar fjárhæðir af stöðvarhúsi í Fljótsdal.

Guðgeir Ragnarsson, oddviti Norður-Héraðs, sagði á sameiginlegum framboðsfundi á Egilsstöðum að útlit væri fyrir að miklir fjármunir vegna fasteignaskatts á stíflumannvirki Kárahnjúkavirkjunar myndu renna til nýs sameinaðs sveitarfélags Norður-Héraðs, Austur-Héraðs og Fellahrepps. Sveitarstjórnarkosningar verða á Héraði á laugardag.

"Ég er viss um að gjöld vegna stíflumannvirkja nást í gegn," sagði Guðgeir í ræðu sinni. "Við funduðum í vikunni með nefnd um tekjustofna sveitarfélaga og mér sýnist að við munum ná fram breytingu um stíflumannvirki og þá erum við að tala um verulegar upphæðir sem kæmu inn í hið nýja sveitarfélag."

Kárahnjúkastíflur stærri en allar stíflur landsins samanlagðar

"Í dag er þetta þannig að stíflumannvirki, hvort sem er hjá Landsvirkjun, Rarik eða öðrum aðilum, eru undanþegin fasteignaskatti," sagði Guðgeir í samtali við Morgunblaðið. "Samt á að meta þau til fasteignagjalda en undanskilja fasteignaskatti. Nú er mikil vinna að þessu máli að ég tel að fara að skila árangri og komin svo langt að þetta er komið inn í nefnd um tekjustofna sveitarfélaga. Það þýðir það trúlega að stíflumannvirki landsins verði tekin til fasteignamats. Allar stíflur landsins eru 12,2 milljónir rúmmetra samtals, Kárahnjúkastíflurnar samtals verða um það bil 12,5-12,6 milljónir rúmmetra og síðan koma stíflumannvirki í Fljótsdal upp á hálfa milljón rúmmetra. Bara Kárahnjúkastíflurnar einar og sér eru því stærri en allar stíflur landsins samanlagt. Undirnefnd um tekjustofna á að skila tillögum í haust og Samband íslenskra sveitarfélaga stendur með okkur í þessu, félagsmálaráðuneytið er jákvætt í þessu og flest virðist benda til að þetta muni ganga."

Guðgeir sagði að um verulegar upphæðir gæti verið að ræða en vildi ekki tiltaka mögulega krónutölu. Skv. upplýsingum Morgunblaðsins gætu tekjur af stíflumannvirkjunum við Kárahnjúka hugsanlega numið á bilinu 150 til 250 milljónum króna árlega en þó eru þær upphæðir alls óljósar, m.a. vegna þess að hugmyndir munu vera uppi um að hluti fjármunanna gæti runnið til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna.