Hvanndalsbræður eru þeir Rögnvaldur Gáfaði Hvanndal (gítar, söngur), Sumarliði Hvanndal (bassi, söngur) og Valur Hvanndal (trommur, söngur). Þeir semja öll lög og texta. Upptökustjórn og hljóðblöndun var í höndum Kristjáns Edelstein. Blind kind gefur út.

HINIR norðlensku Hvanndalsbræður virðast ætla að taka afkastahraða sjöunda áratugarins sér til fyrirmyndar í útgáfumálum. Þessi plata kom út í sumar en þá var ekki nema liðlega hálft ár liðið frá þeirri fyrstu, Út úr kú. Og sú þriðja er víst á teikniborðinu (Þrátt fyrir nafnið eru meðlimir ekki bræður, líkt og var með Ramones, sveit sem Hvanndalspiltar eru undir lúmskum áhrifum frá).

Hrútleiðinlegir er meira af því sama og við fengum að heyra á stórskemmtilegum frumburðinum sem var kraftmikil og gáskafull og hin besta skemmtan. Bæði er umslag áþekkt því síðasta og lögin gætu verið úr sömu upptökusyrpu þrátt fyrir að nú séu öll lögin eftir meðlimi en á þeirri síðustu léku þeir sér dálítið með þjóðlög.

Hrútleiðinlegir sker sig þó frá Út úr kú á fremur afdrifaríkan hátt. Reiknilíkanið er nefnilega orðið dálítið þreytt, það er lítið hér sem kemur á óvart og lögin fremur fyrirsjáanleg. Sum lögin bera sig einfaldlega ekki og kímnigáfa Hvanndælinga, sem rokkar á barmi þess að vera súrrealísk og óþolandi, ratar stundum í hið síðarnefnda. Vil ég þar helst nefna "Kisuklessa" og "Þá sá hann ljósið".

Fyrrnefnt reiknilíkan er samt eitthvað svo skrýtið og skemmtilegt að Hvanndalsbræðrum er ómögulegt að skila inn leiðinlegu verki. Yfirhöfuð má hafa hið ágætasta gaman af galgopalátunum hérna og manni er haldið við efnið með stórgóðum smíðum eins og "James Bartley", "Mjallhvít og dvergarnir", "Ballerína" og "Gengið daga" svo eitthvað sé nefnt.

Vonandi verður samt farið í einhverja uppstokkun á næsta verki því síst vil ég að glettinn titill þessarar plötu verði að réttri lýsingu á sveitinni. Það væri synd og sóun.

Arnar Eggert Thoroddsen