2. nóvember 2004 | Daglegt líf | 500 orð | 1 mynd

*MAGNÚS JÓHANNSSON LÆKNIR SVARAR SPURNINGUM LESENDA

Hvað er til ráða við svitakófum?

— Morgunblaðið/Sverrir
Tvær spurningar hafa borist um svitakóf: Spurning: Ég er 46 ára kona og hef um alllangt skeið þjáðst af svitaköstum á nóttunni. Þessi köst eru að mestu bundin við blæðingar, sem sagt meðan þær standa yfir vakna ég rennblaut af svita ca 3-4 sinnum á...
Tvær spurningar hafa borist um svitakóf:

Spurning: Ég er 46 ára kona og hef um alllangt skeið þjáðst af svitaköstum á nóttunni. Þessi köst eru að mestu bundin við blæðingar, sem sagt meðan þær standa yfir vakna ég rennblaut af svita ca 3-4 sinnum á nóttu. Ég hef reynt hormónatöflur en þær duga ekki til, og blæðingar eru enn mjög reglulegar hjá mér. Þessi svitaköst hafa staðið yfir meira og minna sl. 4-6 ár. Af hverju stafar þetta og hvað er til ráða?

Spurning: Ég er að fá svitaköst eða svitakóf allan sólarhringinn af og til. Þau standa í nokkrar mínútur og þau byrja þannig að manni hitnar í andlitinu. Ég er rúmlega fertug. Getur þetta verið eitthvað annað en breytingaskeiðið? Eru til náttúrulyf sem virka vel á svitakóf?

Svar: Breytingaskeiðið byrjar oft með óljósum óþægindum sem versna smám saman og svipað má segja um endi þessa tímabils í lífi kvenna þegar óþægindin dvína smám saman og hverfa að lokum. Það er þess vegna oftast erfitt að tímasetja nákvæmlega hvenær breytingaskeiðið hefst og hvenær því lýkur. Einn tímapunktur er þó oft nokkuð ljós en það eru tíðahvörf, þegar tíðablæðingar hætta. Þetta er þó ekki alltaf auðvelt að tímasetja heldur vegna þess að sumar konur fá smáblæðingar af og til í langan tíma. Ef reynt er að tímasetja tíðahvörf hjá stórum hópum kvenna kemur í ljós að meðalaldur þeirra er við 50-51 árs aldur. Breytileikinn er talsverður en þó virðist sem tíðahvörf fyrir 40 ára aldur séu mjög sjaldgæf en upp úr fertugu fer að bera á þessu. Í rannsókn á stórum hópi kvenna á aldrinum 40-60 ára kom í ljós að 56% þjáðust af hitakófum að einhverju marki. Þetta er því mjög algengt vandamál í þessum aldursflokki. Einnig hefur komið í ljós að hitakóf og svitaköst gera oft vart við sig mörgum árum áður en breytingar fara að verða á tíðum, og getur þar verið um að ræða allt að 5-10 ár. Hjá sumum konum fylgja hitakófin tíðahringnum og geta tengst blæðingum eins og annar bréfritarinn lýsir. Einnig ber að geta þess að nætursviti getur átt sér ýmsar aðrar orsakir svo sem sýkingar af ýmsum toga, ofstarfsemi skjaldkirtils, lágan blóðsykur vegna ofskömmtunar sykursýkilyfja og sitthvað fleira. Árum saman voru konur með tíðahvarfaóþægindi settar á langtímameðferð með svokölluðum tíðahvarfahormónum. Síðar kom í ljós að þessi meðferð var ekki eins heilsubætandi og hættulaus og áður var talið og nú er notkun þessara lyfja takmörkuð við þær konur sem hafa mjög mikil óþægindi eða eru í sérstakri hættu að fá beinþynningu. Hætturnar sem fylgja þessum hormónalyfjum eru taldar tengjast kvenhormónum af flokki östrógena sem eru aðalinnihaldsefni þeirra. Til er talsvert af náttúruvörum sem innihalda jurtaöstrógen og eru markaðssett fyrir konur á breytingaskeiði. Þessar vörur hjálpa eflaust mörgum en gallinn er að þær hafa östrógenverkun og ekki er vitað hvort sömu hættur fylgja þeim og áðurnefndum hormónalyfjum. Til eru aðrar náttúruvörur við tíðahvarfaóþægindum, sem ekki innihalda jurtaöstrógen, og fyrir þær konur sem vilja prófa eitthvað í þessum dúr er ágætt að byrja á þeim.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.