Halldór Pétursson
Halldór Pétursson
Andrés Björnsson og Kristján Eldjárn völdu texta, Halldór Pétursson myndskreytti. Fjólu útgáfa 2004, endurútgáfa.

HÓFADYNUR var upphaflega gefin út árið 1966 og naut þá mikilla vinsælda en hefur verið ófáanleg um árabil. Hér er á ferðinni afar falleg bók þar sem bæði myndir og textar hreyfa við lesandanum, oft í mögnuðu samspili. Eins og segir í inngangi er ekki um úrval bestu hestaljóða og -texta að ræða heldur er leitast við að sýna ýmsar birtingarmyndir íslenska hestsins á sem fjölbreyttastan máta með það í huga að gefa listamanninum sem mest svigrúm og fjölbreytni fyrir myndir sínar. Textarnir koma víða að, úr Eddukvæðum, Landnámu, Íslendingasögum, ýmsum þjóðsögum og frásögnum og síðan eru mörg ljóð í bókinni eftir m.a. Jón Thoroddsen, Grím Thomsen, Hannes Hafstein, Einar Benediktsson, Davíð Stefánsson og marga fleiri.

Halldór Pétursson (1916-1977) stundaði nám við Kunsthaandværkerskolen í Kaupmannahöfn og fór síðan í framhaldsnám í Bandaríkjunum. Hann var dugmikill málari og grafískur hönnuður og óhætt er að segja að enginn myndskreytir hafi markað spor sín jafn rækilega í huga landsmanna og Halldór og tel ég víst að varla sé það mannsbarn til á landinu sem ekki kannast við myndir hans þó kannski viti ekki allir nafn teiknarans. Hófadynur sýnir vel breidd Halldórs sem listamanns en myndir hans eru allt frá því að vera afskaplega hugljúfar til þess að búa yfir miklu drama og spennu. Íslenskir þjóðhættir birtast oft í þeim og þær sýna jafnt vetrarhörkur og myrkur landsins sem bjarta sumardaga. Hestar Halldórs búa jafnan yfir miklum persónuleika og textarnir og ljóðin í bókinni sýna hversu mjög hestar hafa verið elskaðir af eigendum sínum gegnum tíðina. Svo sterkur er persónuleiki hestanna að manni finnst líkt og hér hafi í raun alltaf búið önnur þjóð, nefnilega hestarnir og spurning hver hafi tamið hvern. Í Hrafnkelssögu segir t.d. af Freyfaxa Hrafnkels en "hann strengdi þess heit að hann skyldi þeim manni að bana verða sem honum riði án hans vilja". Saga íslensku þjóðarinnar birtist á frábæran hátt við lestur og skoðun Hófadyns og erfitt að velja úr það sem upp úr stendur því svo margt snertir strengi í huga lesandans. Kvæðið Ríðum, ríðum sem allir þekkja er listavel myndskreytt og birtir þá hörku sem þurft hefur til erfiðra ferðalaga fyrr á tímum. Brot úr Heimþrá eftir Þorgils Gjallanda segir af Stjörnu og stroki hennar, Stjarna birtist okkur ein í stóru landslagi en textinn segir af ferð hennar "- og fallega folaldið horfna --". Hér birta texti og mynd harmþrungið augnablik sem býr yfir áhrifamikilli fegurð. Ótrúlega skemmtilegar sögur af vitrum hestum og sérstökum vantar ekki og þjóðsögurnar birtast okkur þoku slungnar eins og við á. Hver einasti hestur á myndum Halldórs er sérstakur og hann gæðir hverja mynd svo miklu lífi að gaman er að skoða bókina aftur og aftur. Öllum hestaunnendum er mikill fengur í þessari bók, að ekki sé talað um börn sem hafa áhuga á reiðmennsku. Hún er líka áhugaverð fyrir okkur hin og frábær heimild um hlutverk hestsins í sögu og sjálfsmynd þjóðarinnar. Í nútímanum heldur hesturinn áfram að gleðja okkur en ekki þarf að fara langt út fyrir bæjarmörkin til þess að sjá hesta í móanum. Hófadynur gefur íslenska hestinum aukið gildi í hugum okkar og kann að auki að vekja áhuga einhverra á að kynna sér nánar kveðskap þann og sögur sem birtast í henni.

Ragna Sigurðardóttir