Howell tók þessa mynd árið 1898 af fjölskyldunni í Brattholti. Ekki óraði hann þá fyrir því, að Sigríður Tómasdóttir, sem situr hér til hægri við móður sína og systur (ber í dyragættina), myndi seinna verða landsþekkt fyrir að bjarga Gullfossi frá því að l
Howell tók þessa mynd árið 1898 af fjölskyldunni í Brattholti. Ekki óraði hann þá fyrir því, að Sigríður Tómasdóttir, sem situr hér til hægri við móður sína og systur (ber í dyragættina), myndi seinna verða landsþekkt fyrir að bjarga Gullfossi frá því að l — Ljósmynd/Howell
"ÞESSI bók er merkileg.

"ÞESSI bók er merkileg. Howell gaf okkur það sem hann varðveitti af síðasta áratug nítjándu aldarinnar," segir Frank Ponzi listsagnfræðingur um nýja bók sína, Ísland Howells - Howell's Iceland (1890-1901), en í henni er að finna í máli og myndum nýjar heimildir og mikinn fróðleik um íslenska menningarsögu og þjóðlíf á horfinni tíð. Ljósmyndir, sem Howell tók á glerplötur á ferðum sínum um landið, bæði á eigin vegum og sem leiðsögumaður erlendra manna í pílagrímsför á söguslóðir, eru einstakur myndarfur frá síðasta tug 19. aldar. Frank Ponzi segir það hafa tekið sig nokkur ár að skrifa textann, og rannsókna- og heimildavinnu að baki útgáfunni mikla.

Auk þess að vera fyrstur til að komast á Hvannadalshnúk 1891 og ganga Langjökul þveran 1899 lét Howell eftir sig gögn um upphaf þeirra menningarbreytinga sem áttu sér stað á Íslandi áratuginn 1890-1901. Myndir hans sýna okkur meðal annars gömlu Reykjavík, landsbyggðina, náttúrufyrirbæri og horfna sögustaði. Sumar myndanna hafa ekki sést áður; - myndir af prestum, skáldum, bændum og búaliði og af hetjum eins og ungri Sigríði Tómasdóttur í Brattholti, sem bjargaði Gullfossi fyrir þjóðina, úr höndum manna sem vildu virkja fossinn.

"Howell tók þessar myndir á þeim tíma sem nútímamenning var vart farin að ryðja sér til rúms á Íslandi, og því hafa þær mikið heimildagildi. Flestar myndanna eru úr mínu eigin safni. Ég þekki og hef hitt marga afkomenda Howells, en myndirnar voru dreifðar víða; um Bandaríkin, England og örfáar á Íslandi. Það var mikil vinna að safna þessu saman."

Frank Ponzi segir að árum saman hafi myndir Howells verið birtar og ranglega eignaðar íslenskum ljósmyndurum. "Howell naut engrar virðingar sem höfundur þessara mynda. Þessu vildi ég breyta, og rétta hans hlut. Ljósmyndin hefur aldrei haft sama sess á Íslandi og ritmálið, og Íslendingar eru að mörgu leyti myndblindir."

Í bókinni er drjúgur hluti þeirra mynda sem Howell tók á Íslandi. "Það eru til dæmis myndir af Geysi, sem hann náði aldrei almennilega, vegna þess hve erfitt var að fanga svo nákvæman tíma á glerplötur. Ég sleppti nokkrum slíkum myndum. En flestar mynda hans eru þarna."

Frank Ponzi segir að í bókinni sé til dæmis að finna myndir af um sextíu sveitabæjum. Aftast í bókinni er listi yfir öll bæjanöfnin, og upplýsingar um ábúendur. "Ég fór í kirkjubækur til að finna nöfn allra þeirra sem bjuggu á þessum bæjum á þeim tíma sem myndirnar voru teknar."

Ponzi segir að þetta sé sá tími íslenskrar sögu sem ekki hafi verið ritað mikið um á íslensku. "Á Viktoríutímanum komu nokkrir merkir ferðamenn hingað og skrifuðu eftirminnilegar ferðabækur á ensku. Þeir komu hingað til að skoða sögustaði - vildu sjá Gunnarshólma og Hlíðarenda, og þá staði sem þeir þekktu af Íslendingasögunum, - vildu sjá hvar hetjur riðu um héruð. Þeir lögðu á sig mjög erfið ferðalög um landið til að sjá þá staði þar sem þeir ímynduðu sér að Gunnar á Hlíðarenda hefði búið á. Bókin mín er bæði á íslensku og ensku. Ég segi sögu Howells, eins og hún blasir við af myndum hans, og styðst meðal annars við hans eigin óútgefnu dagbók."

Árið 1901 drukknaði Howell í Héraðsvötnum í Skagafirði 44 ára gamall, og var grafinn á Miklabæ.

Bók Franks Ponzis er í stóru broti, 214 bls. með 376 myndum, teikningum og kortum.