Ágúst Einarsson
Ágúst Einarsson
HAGRÆN áhrif tónlistar nefnist ný bók eftir dr. Ágúst Einarsson prófessor sem viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands hefur gefið út.

HAGRÆN áhrif tónlistar nefnist ný bók eftir dr. Ágúst Einarsson prófessor sem viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands hefur gefið út. Í bókinni er umgjörð tónlistargeirans hérlendis lýst, fjallað um hagræn umsvif tónlistariðnaðarins og rætt um áhrif tónlistar á útflutning. Einnig er fjallað um einstaka þætti í tónlistariðnaði, eins og framlög opinberra aðila, útgáfumál og tónlistarskóla, svo eitthvað sé nefnt. Í bókinni eru síðan dregnar ályktanir af þessari rannsókn um næstu skref til að efla tónlist í samfélaginu. Jafnframt eru í bókinni stutt æviágrip fimmtíu einstaklinga sem sett hafa svip á íslenskt tónlistarlíf síðastliðin 100 ár. Er það að sögn höfundar gert til að lífga upp á efnið enda er mikið talnaefni í ritinu sem ekki er alltaf auðvelt yfirlestrar.

Meðal þess sem fram kemur í ritinu er að tónlist sem hluti menningar og skapandi atvinnugreina er umfangsmikil í íslenska hagkerfinu. Þannig er framlag menningar til landsframleiðslunnar 4%, sem er meira en veitustarfsemi og nær þrefalt meira en landbúnaður annars vegar og ál- og kísiljárnframleiðsla hins vegar. Um 5.000 manns starfa við menningu hérlendis, sem er álíka fjöldi og starfar í útgerð eða í hótel- og veitingarekstri.

Líkt og Ágúst bendir á í bók sinni eru skapandi atvinnugreinar mjög umfangsmiklar hérlendis og er menningarstarfsemi hluti þeirra. Skapandi atvinnugreinar eru nú með um 23% af vinnumarkaði. Um 1.200 manns vinna við tónlistariðnað, sem er tæplega 1% af íslenskum vinnumarkaði. Fyrirtæki í tónlistargeiranum velta um 6,5 milljörðum kr. á ári og framlag tónlistar til landsframleiðslunnar er um 1%. Um 43 milljörðum kr. var varið af einkaneyslu árið 2003 í menningu og er hlutur tónlistar þar af um 8,5 milljarðar króna.

Mikil fjölgun tónleika

Í bókinni kemur einnig fram að tónleikum hefur fjölgað verulega undanfarin ár, sérstaklega á landsbyggðinni, og er klassísk tónlist langalgengust. Fjöldi tónlistarskóla hefur nær sexfaldast síðustu fjóra áratugi og eru þeir nú 80 talsins. Nemendafjöldi í tónlistarskólum hefur ellefufaldast síðustu fjóra áratugi og nemendur eru nú tólf þúsund talsins.