9. desember 2004 | Innlendar fréttir | 748 orð | 1 mynd

Bandaríkin birtu "lista hinna staðföstu" eftir að stuðn-ingsyfirlýsingar bárust

Ráðherrarnir Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson á þingfundi.
Ráðherrarnir Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson á þingfundi. — Morgunblaðið/Þorkell
Stjórnarandstaðan gagnrýndi harðlega stuðning Íslands við aðgerðir bandamanna í Írak og sakaði stjórnina m.a. um að hafa virt Alþingi að vettugi. Arnór Gísli Ólafsson fer hér yfir aðdraganda þess að Ísland studdi aðgerðirnar í Írak.
AÐFARANÓTT fimmtudagsins 20. mars 2003 skýrði George W. Bush Bandaríkjaforseti frá því að aðgerðir bandamanna gegn Írak væru hafnar en þremur dögum áður lá fyrir að beitt yrði neitunarvaldi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Miðvikudaginn 18. mars hafði verið greint frá því að Ísland væri í hópi þeirra 30 ríkja sem styddu tafarlausa afvopnun Íraka. Komu þessar upplýsingar frá Bandaríkjastjórn en síðar meir var farið að tala um þennan hóp sem hóp hinna "staðföstu" og "viljugu" þjóða sem styddu aðgerðir ríkja undir forystu Bandaríkjamanna og Breta í Írak.

Dapurlegt og niðurlægjandi

Forystumenn stjórnarandstöðunnar brugðust ókvæða við þessum upplýsingum og sökuðu stjórnvöld um að hafa ekki samráð við utanríkismálanefnd Alþingis sem skylt væri þótt þinghlé væri. "Það var óendanlega dapurlegt, og niðurlægjandi, að Íslendingar skyldu frétta af stuðningi ríkisstjórnarinnar við árásarstríði gegn Írak frá talsmanni bandaríska utanríkisráðuneytisins. [-] Mér fannst líka auðmýkjandi að fregna, að eini maðurinn sem vitað er til að ríkisstjórnin hafi haft samráð við hér á landi skuli vera sendiherra Bandaríkjanna," sagði Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, af þessu tilefni.

Ekki skráð á lista

Ekki er rétt að Ísland hafi með einhverjum hætti skráð sig á "lista hinna staðföstu þjóða", hið rétta er að þriðjudaginn 18. mars var tekin ákvörðun um að Ísland myndi styðja nauðsynlegar aðgerðir undir forystu Bandaríkjanna og Bretlands til þess að afvopna Saddam Hussein. Strax í kjölfarið var sendiherra Bandaríkjanna tilkynnt sú ákvörðun og daginn eftir greindi utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna frá hvaða 30 ríki styddu tafarlausa afvopnun Íraka og var Ísland í þeim hópi.

Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, skýrði út að í þessu fælist heimild til yfirflugs yfir íslenska flugstjórnarsvæðið, afnot af Keflavíkurflugvelli ef þurfa þætti, að Íslendingar tækju þátt í uppbyggingu í Írak að ófriði loknum og að Ísland tæki pólitíska afstöðu með því að ályktun Öryggisráðsins númer 1441 yrði fylgt eftir en í henni var m.a. kveðið á um að Írökum væri skylt að afhenda vopn en ekki eftirlitsmanna að leita þeirra.

Stuðningur við Azoreyja-yfirlýsingu

Afstaða Íslands lá raunar að mestu fyrir í upphafi innrásarvikunnar því að þá höfðu bæði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, lýst yfir stuðningi við yfirlýsingu George Bush Bandaríkjaforseta, Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands og Jose Maria Aznar, forsætisráðherra Spánar, að loknum fundi þeirra á Azoreyjum en þar gaf Bandaríkjaforseti Sameinuðu þjóðunum sólarhringsfrest til að ákveða hvort þær styddu stríð á hendur Saddam Hussein Íraksforseta undir stjórn Bandaríkjanna. "Við teljum að Azoreyjayfirlýsingarnar, bæði um stöðuna eins og hún er í dag, og nauðsyn þess að þjóðir heims standi saman um þessar aðgerðir, og um uppbyggingu í Írak eftir þessar aðgerðir, séu þýðingarmiklar," sagði Davíð Oddsson. Þótt Halldór tæki einnig undir yfirlýsingarnar mátti á honum heyra að hann hefði kosið að menn hefðu gefið sér meiri tíma: "Síðan þessi fundur átti sér stað hafa menn hætt að leita þeirrar lausnar að ný ályktun verði samþykkt hjá SÞ. Ég harma það og leyni ekki þeirri skoðun minni að mikilvægt hefði verið að gefa sér lengri tíma," sagði Halldór.

Auk stuðnings við Azor-yfirlýsinguna má nefna að þingsályktunartillaga sem VG lagði fram snemma í mars, þess efnis að ríkisstjórnin beitti sér gegn áformum um innrás í Írak fékkst ekki afgreidd úr utanríkismálanefnd þar sem þingmenn stjórnarmeirihlutans höfnuðu því að hún yrði afgreidd úr nefndinni.

Sögusagnir um ágreining

Ekki kemur fram að hve miklu leyti þeir Halldór og Davíð ræddu þetta mál innan ríkisstjórnarinnar. Þá voru og uppi sögusagnir um að ágreiningur hefði verið milli forsætis- og utanríkisráðherra um málið. Davíð neitaði því alfarið og í aðsendri grein í Morgunblaðinu nokkrum dögum eftir að stríðið var hafið skrifaði Halldór að "forystumenn ríkisstjórnarinnar" hefðu komist að þeirri "sameiginlegu niðurstöðu" að rétt væri að taka undir Azoreyjayfirlýsinguna.

Stjórnarandstöðuflokkarnir lögðust allir gegn aðild Íslands að átökunum í Írak. Eftir Azoreyjayfirlýsinguna og þegar stuðningur Íslands við fyrirhugaðar aðgerðir Bandaríkjamanna og Breta í Írak lá fyrir fóru Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, fram á að sérstakur fundur yrði haldinn án tafar í utanríkismálanefnd vegna málsins. Sögðu þeir þingsköp brotin þar sem nefndin hefði ekki verið kölluð saman, slíkt ætti að gera þegar um meiri háttar utanríkismál væri að ræða. Sagði Steingrímur raunar að niðurlæging nefndarinnar og Alþingis fullkomnuðust í því að fréttir af stuðningi Íslands yrðu opinberar þegar Bandaríkjastjórn birti lista yfir lönd sem fylgdu þeim að málum.

Sigríður Anna Þórðardóttir, sem var formaður nefndarinnar á þessum tíma, sagði að engin stefnubreyting hefði orðið í utanríkismálastefnu ríkisstjórnarinnar og því væri af og frá að þingsköp hefðu verið brotin.

arnorg@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.