29. febrúar 1992 | Myndlist | 406 orð

Ásta Ólafsdóttir Myndlist Eiríkur Þorláksson Í efri sölum Nýlistasafnsins við

Ásta Ólafsdóttir Myndlist Eiríkur Þorláksson Í efri sölum Nýlistasafnsins við Vatnsstíg hefur listakonan Ástríður Ólafsdóttir komið fyrir tíu verkum, þar sem birtan og ferskleikinn ræður ríkjum.

Ásta Ólafsdóttir Myndlist Eiríkur Þorláksson Í efri sölum Nýlistasafnsins við Vatnsstíg hefur listakonan Ástríður Ólafsdóttir komið fyrir tíu verkum, þar sem birtan og ferskleikinn ræður ríkjum. Ásta nam við nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands, og síðan við Jan Van EyckAkademíuna í Maastricht, Hollandi, eins og fleiri yngri myndlistarmenn landsins. Hún hefur tekið þátt í sýningum bæði hér á landi og erlendis frá 1979. Jafnframt hefur Ásta skrifað þrjár bækur, og hin seinasta þeirra, "Vatnsdropasafnið", liggur frammi á sýningunni.

Á síðasta ári dvaldi Ásta um fjögurra mánaða skeið í norrænni gestavinnustofu í Sveaborg við Helsinki í Finnlandi, og þar kviknuðu hugmyndirnar að nokkrum verkanna á sýningunni.

Listakonan kemur sér beint að efninu í ávarpi til gesta í sýningarskrá: "Mig langaði til þess að búa til einföld og tær verk. Til þess nota ég fersk efni sem ég dulbý ekki. Viðurinn er ómálaður, leirinn er án glerungs, lopinn er óspunninn. Um verkin leikur loft sem er kjarni þeirra.

Eftir þessari ætlan gengur sýningin. Í sal á miðhæð eru þrjú olíumálverk, þar sem getur að líta eins konar grindur á hvítum grunni. Aðrir litir læðast í gegnum grunninn, og yfir línunum hvílir eins konar hula, sem gefur teikningunni eilítið dulúðlegan blæ; þessar myndir verka í huga gestsins sem eins konar aðdragandi að því sem síðan getur að líta í salnum á hæðinni fyrir ofan.

Í efsta sal safnsins hefur verið komið fyrir sjö verkum, þar sem furan og leirinn eru mest áberandi efnin. Flest byggjast verkin upp á trégrindum, þar sem þægileg hlutföll ráða ríkjum. Upphengdur prjónadregill gefur salnum ögn heimilislegan blæ, og verk nr. 8, þar sem heilu íbúðarhúsin rísa upp úr súpudiskum, auka enn frekar á þann skemmtilega svip.

Þessi verk eru öll opin og björt, og því leikur rýmið stórt hlutverk í þeim, eins og fyrr getur. Fjórskipting verks nr. 5 þar sem vatnskanna, glös og eldspýtnahrúga ríkja í hverjum hluta, er skemmtileg og einföld samsetning þar sem frumefnin eru í lykilhlutverki. Orkan gegnir síðan mikilvægu hlutverki, auk frumefnanna, í verki nr. 10, þar sem sífellt sterkari ljós eru kjarni hinna fimm eininga verksins.

Í verkunum á sýningunni tekst listakonunni vel til við ætlun sína um að skapa einföld og tær verk. Slíkur tærleiki er mikilvægur þáttur í myndsýn listamanna, og nýtur sín u1011vel í þessu umhverfi. Hlutföll og formskyn er einnig gott í þessum verkum, og sýningin í heild gengur því ágætlega upp.

Sýningu Ástu Ólafsdóttur í Nýlistasafninu lýkur sunnudaginn 1. mars.

Ásta Ólafsdóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.