Lag fyrir lag var skafið ofan af klausturrústunum á Skriðuklaustri í Fljótsdal í fyrrasumar. Fremst á myndinni má sjá menjar kapellu.
Lag fyrir lag var skafið ofan af klausturrústunum á Skriðuklaustri í Fljótsdal í fyrrasumar. Fremst á myndinni má sjá menjar kapellu. — Ljósmynd/ Steinunn Kristjánsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bein tveggja inúítakvenna eru meðal líkamsleifa sem fundist hafa í fornleifauppgreftri við Skriðuklaustur í Fljótsdal.

Bein tveggja inúítakvenna eru meðal líkamsleifa sem fundist hafa í fornleifauppgreftri við Skriðuklaustur í Fljótsdal. Sterkar vísbendingar eru um að klaustrið hafi sinnt aðhlynningu fátækra og sjúkra, en fram til þessa hafa íslensk klaustur fyrst og fremst verið talin hafa gegnt mennta- og menningarhlutverki, auk þess að hafa séríslenskt byggingarlag. Á Skriðuklaustri hefur komið í ljós að gerð klausturbyggingar, kirkju og klausturgarðs háttar mjög til sambærilegra bygginga í Evrópu frá sama tímaskeiði.

Dr. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur, sem stjórnað hefur rannsóknum og uppgreftri á Skriðuklaustri undanfarin þrjú ár, segir ljóst að klaustrið hafi gegnt hlutverki sjúkrahúss, því fundist hafi leifar lækningajurta, m.a. jurta erlendis frá og beinagrindur sem fundist hafa í kirkjugarðinum beri merki um ýmsa sjúkdóma.

"Við vitum ekki hversu lengi þessi sjúkrastofnun var rekin," sagði Steinunn í samtali við Morgunblaðið. "Það gæti hafa verið framyfir klausturtímann. Eins gætu inúítakonurnar hafa komið þarna eftir klausturtíma. Klaustrið er stofnað 1493 og við erum með mjög skýra aldursgreiningu á klaustrinu sjálfu skv. rituðum heimildum. Við erum einnig með mjög þykkt öskulag frá gosi í Veiðivötnum árið 1477 og þetta lag liggur undir rústunum, þær eru nánast byggðar ofan á það. Hvað efri mörkin varðar er talið að klaustrið hafi verið lagt af um siðaskipti eins og önnur klaustur á Íslandi, en spurning er hversu lengi var jarðað í klausturgarðinum."

Líknuðu sjúkum og fátækum

Steinunn segir nokkuð víst að klaustrið hafi sinnt fátækra- og sjúkrahjálp á klausturtímanum. Þannig hafi öll önnur klaustur í Evrópu verið rekin. "Við erum búin að sjá á byggingunum á Skriðuklaustri að þær voru ekkert séríslenskt fyrirbæri. Yfirleitt er talið að íslensk klaustur hafi verið miðstöðvar mennta og menningar og það gleymist að tala um það hlutverk klaustranna sem var mikilvægast og kannski umsvifamest, að líkna sjúkum og fátækum. Ég er sannfærð um, þrátt fyrir að aldursgreiningar liggi ekki fyrir, að þetta var sjúkrastofnun og einhver hluti af þessum beinagrindum er frá þeim tíma. Það sem er merkilegt er að allar beinagrindurnar sem við höfum skoðað eru með einkenni ýmissa sjúkdóma. Ein beinagrindanna var til dæmis mjög illa farin af einhverskonar ígerð sem hefur étið sig inn í beinin, sem gæti bent til holdsveiki eða jafnvel herpes. Þegar klaustrin voru lögð af héldu sum þeirra líknarhlutverki sínu áfram, en spurning er hvernig þessu veigamikla hlutverki var sinnt eftir að klaustrin voru lögð af. Aldursgreiningar sem við eigum von á í janúar nk. geta vonandi hjálpað okkur til að ákvarða þetta.

Við höfum nú fengið niðurstöður úr frjókornagreiningu nokkurra plöntusýna. Þær gefa til kynna að á Skriðuklaustri hafi á klausturtímanum verið ræktuð lyf og matjurtir. Þetta eru m.a. exemslyf og fleiri lækningajurtir sem margar eru algengar í íslenskri flóru og svo aftur aðrar tegundir sem hverfa eftir klausturtímann."

20 af 60 gröfum verið opnaðar

Í klausturgarðinum má nú sjá 60 grafir á yfirborðinu, en þær eru líklega mikið fleiri því grasrótinni hefur aðeins verið flett ofan af hluta kirkjugarðsins. Í fyrrasumar var ákveðið að veita garðinum sérstaka athygli og segir Steinunn að 20 grafir hafi þegar verið opnaðar. Þær liggja inni í klausturgarðinum og í herbergjum sem liggja næst kirkjunni. Í haust hefur verið unnið að greiningu beinagrindanna sem fundust í gröfunum.

"Þær beinagrindur sem við höfum nú grafið upp eru nánast allar af konum og börnum af því að við erum að grafa á ákveðnum stað í kirkjugarðinum. Við höfum fundið bein af einum karlmanni í þeim 20 gröfum sem við höfum opnað, en næsta sumar ætlum við að halda þessum rannsóknum áfram og þá förum við til dæmis inn í kirkjuna og verður spennandi að sjá hvort karlmennirnir eru þar, sem myndi sýna félagslega stöðu karla umfram konur.

Það er sóknarkirkja á Valþjófsstað, rétt hjá klaustrinu. Á miðöldum, eins og nú, eru fjölskyldur grafnar saman. Á Skriðuklaustri sjáum við skýra kyn- og aldursskiptingu innan garðsins. Konurnar eru allar saman á einum stað og börn á öðrum, sem sýnir enn frekar að þetta er ekki fjölskyldutengt heldur þeir sem kannski voru sjúklingar í klaustrinu og ekki jarðaðir með sínum fjölskyldum. Það er hugsanlega skýringin á því að þarna finnast tvær inúítakonur, sem jafnvel komu í gegnum verslunarstaðinn í Gautavík í Berufirði, frá Grænlandi. Við sjáum einnig greinilega á öðrum gögnum, s.s. leirkerabrotum og öðrum verslunarvarningi, að tengslin voru mikil við Gautavík, enda var hún helsti verslunarstaður Austfirðinga á miðöldum. Grafið var í Gautavík fyrir um 20 árum.

Einkennin sem ég sá á beinagrindum inúítakvennanna gefa vísbendingar um að þær hafi ekki hafst við á Íslandi. Konurnar voru innan við tvítugt þegar þær dóu og það sem tengir þær við Grænland er að báðar eru þær með uppeyddar framtennur, en aðrar tennur heilar. Þetta er þekkt einkenni á Grænlandi, vegna þess að ungar konur unnu við að elta leðurólar með framtönnunum. Þetta er menningarbundið einkenni, sem þýðir að þær hafa líklega unnið við þetta í sínu heimalandi. Því held ég að giska megi á að þær hafi komið í gegnum Gautavík, e.t.v. með Þjóðverjum sem gjarnan fluttu með sér þræla, þær hafi veikst og farið á sjúkrastofnunina á Skriðuklaustri og dáið þar. Svo er líka mögulegt að þær hafi verið fengnar í Skriðuklaustur til að vinna þessa leðurvinnu á staðnum. Nú verður gerð ísótópagreining sem getur hjálpað til við að skilja hvar þær ólust upp. Það er hægt að sjá á hvaða mataræði þær lifðu og stór munur er á því á hverju fólk lifði á Grænlandi og hér á Íslandi.

Athyglisvert er að önnur grænlenska konan var jörðuð undir innganginum inn í kirkjugarðinn. Á þessum tíma var lögð áhersla á að fólk væri grafið næst sem heilögum stað en lítið lagt upp úr grafarumbúnaði. Það er eins og hún hafi ekki verið kristin og því verið jörðuð við innganginn."

Íslensku klaustrin hluti af alþjóðlegum stofnunum

Nú er búið að grafa upp þriðjung af klaustrinu. Steinunn segir að nú líði að því að fáist heilleg mynd af rústunum, en opna þurfi fleiri grafir og komast yfir stærri flöt á klausturbyggingunum.Unnið hefur verið að fornleifauppgreftrinum í þrjú ár og heildarkostnaður við rannsóknir orðinn rétt rúmlega 20 milljónir króna. Tæplega tuttugu manns unnu að jafnaði við uppgröftinn í fyrrasumar. Steinunn segir fjárskort hamla rannsóknum verulega, þrátt fyrir að fjárveitingar milli ára hafi hækkað nokkuð. "Það er svo mikið að koma í ljós þarna og þessar síðustu uppgötvanir marka þáttaskil, þar sem alltaf hefur verið litið á íslensk klaustur sem miðstöðvar mennta og menningar og að munkar hafi setið þar við skriftir. Jafnframt hefur verið talið að klaustur hér á landi hafi haft séríslenskt útlit. Klaustur, bæði hér á landi og erlendis, voru hins vegar alþjóðlegar stofnanir sem þjónuðu ákveðnu hlutverki, sem var fyrst og fremst að sinna fátækrahjálp og sjúkum."