— Morgunblaðið/Arnaldur
STYRKTARSJÓÐUR Halldórs Hansen verður formlega stofnaður í dag kl. 16 í Salnum, Kópavogi, og verður boðið til hátíðarsamkomu af því tilefni.
STYRKTARSJÓÐUR Halldórs Hansen verður formlega stofnaður í dag kl. 16 í Salnum, Kópavogi, og verður boðið til hátíðarsamkomu af því tilefni. Bergþór Pálsson söngvari mun minnast Halldórs og starfa hans í þágu tónlistar, tilkynnt verður um verðlaunahafa sjóðsins á árinu 2004 og koma þeir fram á samkomunni. Einnig verður tilkynnt um afhendingu fyrsta framlags sjóðsins til uppbyggingar tónlistarbókasafns LHÍ.

Halldór Hansen barnalæknir ánafnaði Listaháskóla Íslands veglegu tónlistarsafni sínu fyrir þremur árum, auk þess sem hann arfleiddi skólann að öllum eigum sínum, með þeim formerkjum að þeim yrði ráðstafað í sérstakan styrktarsjóð í hans nafni.

Meginmarkmið sjóðsins er að styrkja uppbyggingu og styðja við tónlistarsafn Listaháskóla Íslands. Auk þess veitir sjóðurinn árlega tónlistarnemum, sem náð hafa framúrskarandi árangri að mati sjóðsstjórnar, styrki til frekara náms.