— Morgunblaðið/Þorkell
NÝ og endurbætt 10-11-verslun hefur verið opnuð í Lágmúla.

NÝ og endurbætt 10-11-verslun hefur verið opnuð í Lágmúla. Meðal helstu nýjunga er fullbúið þjónustuborð, sem býður upp á bæði heita og kalda tilbúna rétti frá morgni til kvölds og er með breytingunum leitast við að koma enn frekar til móts við þarfir nútímafólks. En réttanna má bæði neyta á staðnum og eins taka þá með sér í handhægum bökkum. Sérstök áhersla er lögð á morgunverð með úrvali af hollum og góðum réttum, auk þess sem í hádeginu og á kvöldin er boðið upp á fjölda heitra og kaldra rétta. Sjálfsafgreiðslubarir, t.d. salatbar, samlokubar og ávaxtabar, eru þá einnig á staðnum.

Við hönnun verslunarinnar var sérstaklega hugað að því að viðskiptavinirnir geti verið snöggir að versla og er versluninni því skipt í tvö svæði, á fremra svæðinu er áherslan á matvöru sem neyta á strax en hefðbundin matvöruverslun er á innra svæðinu.

Unnið er að því að breyta öllum verslunum 10-11 í hið nýja form, en fyrst um sinn verður þó mest úrval tilbúinna rétta í Lágmúlanum.