Málfríður Lorange er fædd árið 1951. Hún lauk kandídatsprófi í sálfræði frá Árósaháskóla 1981 og var síðan í framhaldsnámi í fjölskyldumeðferð 1981-83. Þá lagði hún stund á framhaldsnám í taugasálfræði barna og unglinga í Hollandi 1995-96. Málfríður starfaði sem forstöðumaður sálfræði- og sérkennsludeildar Leikskóla Reykjavíkur 1987-95. Hún hefur verið yfirsálfræðingur á Barna- og unglingageðdeild LSH frá 1996. Þá rekur hún ásamt öðrum læknastofu.
Málfríður Lorange er fædd árið 1951. Hún lauk kandídatsprófi í sálfræði frá Árósaháskóla 1981 og var síðan í framhaldsnámi í fjölskyldumeðferð 1981-83. Þá lagði hún stund á framhaldsnám í taugasálfræði barna og unglinga í Hollandi 1995-96.

Málfríður starfaði sem forstöðumaður sálfræði- og sérkennsludeildar Leikskóla Reykjavíkur 1987-95. Hún hefur verið yfirsálfræðingur á Barna- og unglingageðdeild LSH frá 1996. Þá rekur hún ásamt öðrum læknastofu.

Greining og meðferð flókinna og illmeðfærilegra barna," er yfirskrift námstefnu sem Samtök um tengslaröskun standa fyrir á morgun kl. 8.30 til 16 í húsi Íslenskrar erfðagreiningar. Tengslaröskun er talin stafa af skorti á frumtengslum barns við umönnunaraðila á fyrstu vikum og mánuðum lífs síns. Börn sem þannig er ástatt fyrir eiga oft erfitt með að mynda náin tilfinningatengsl við aðrar manneskjur, félagsleg aðlögun þeirra gengur oft ekki vel og hegðunarerfiðleikar eru ekki óalgengir hjá þeim. Auk þess eiga þau oft við önnur geðræn vandkvæði að stríða og glíma gjarnan við sértæka námserfiðleika.

Námsstefnuna, sem haldin er fyrir tilstuðlan Velferðarsjóðs barna, heimsækja þrír erlendir sérfræðingar, dr. Ronald S. Federici, taugasálfræðingur og einn helsti sérfræðingur Bandaríkjanna í tengslaröskun, dr. Dana Johnson, ungbarnalæknir og dr. Karyn Purvis, klínískur sálfræðingur. Munu þau flytja fyrirlestra um ýmsar hliðar tengslaröskunar og möguleg úrræði.

Málfríður Lorange taugasálfræðingur á LSH, situr í undirbúningsnefnd námsstefnunnar. Hún segir afar alvarlegt þegar frumtengsl milli barns og foreldra rofna. "Frumtengsl vísa til þeirra umhyggju og nærveru og djúpu tilfinningatengsla sem foreldrar mynda við börn sem strax á fyrstu dögum, vikum og mánuðum í lífi barnsins og er barninu lífsnauðsynlegt til að geta þroskast eðlilega, bæði líkamlega og andlega," segir Málfríður. "Undanfarin ár hafa rannsóknir staðið yfir erlendis í kjölfar ættleiðinga barna frá öðrum börnum sem sum hver hafa búið við mjög erfiðar uppeldisaðstæður, t.d. á barnaheimilum þar sem líkamlegum eða andlegum þörfum þeirra er lítið sinnt. Þessar rannsóknir hafa enn frekar bent á mikilvægi þess að börn búi við gott atlæti, og fái tækifæri til að mynda sterk og stöðug tilfinningatengsl við foreldri eða annan umönnunaraðila."

Hvaða áhrif getur þetta haft á fullorðinsárum?

"Einstaklingar sem ekki hafa náð að þroska með sér getu til góðrar tengslamyndunar geta lent í erfiðleikum seinna á lífsleiðinni, t.d. þegar kemur til náinna sambanda eins og við maka og jafnvel við eigin börn. Góð tengslamyndun er talin eitt af frumskilyrðum andlegs heilbrigðis í lífinu."

Hvað er til ráða?

"Rannsóknir benda á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar t.d. er fræðsla alltaf mikilvæg bæði fyrir fagfólk og foreldra. Á námsstefnunni nk.föstudag verður mikið fjallað um mismunandi meðferðarleiðir í meðhöndlun barna með röskun á frumtengslum. Sú vitneskja er mikilvæg öllum þeim sem annast börn, sérstaklega þeirra sem vitað er að hafi átt erfið uppeldisskilyrði fyrstu ár sín. Þetta á t.d. við um fósturforeldra, starfsfólk fóstur- og meðferðarheimila og þá sem ættleitt hafa börn erlendis frá."