Ragnar Arnalds
Ragnar Arnalds
Ragnar Arnalds fjallar um Evrópumál: "Íslendingar geta áfram tekið mjög mikinn þátt í evrópsku samstarfi án þess að gerast aðilar að ríkjablökk sem hefur m.a. þá ófrávíkjanlegu meginreglu að sölsa auðæfin á fiskimiðum aðildarríkjanna undir sína stjórn."

FLESTIR þeir sem fylgst hafa með umræðunni um hugsanlega aðild Íslands að ESB hafa heyrt eða séð þá fullyrðingu að Íslendingar taki hvort eð er upp 80% af tilskipunum og reglugerðum ESB í gegnum EES-samninginn og því sé alveg eins gott fyrir Ísland að stíga skrefið til fulls og ganga í Evrópusambandið og hafa þá einhver svolítil áhrif á efni þessara tilskipana. Á þessu hafa áróðursmenn fyrir ESB-aðild lengi klifað í ræðum og greinum.

Nýlega var þó upplýst að Norðmenn hefðu innleitt innan við 20% af regluverki Evrópusambandsins og "samkvæmt upplýsingum íslenska utanríkisráðuneytisins má ætla að hlutfallið sé svipað hér á landi og í Noregi eða væntanlega örlitlu lægra" eins og sagði í frétt Morgunblaðsins 13. janúar sl. Klisjur ESB-sinna um áttatíu prósentin reyndust grófar ýkjur.

Þær tilskipanir sem Íslendingar hafa innleitt í tengslum við EES-samninginn eiga misjafnlega við aðstæður hér á landi; sumar henta okkur ágætlega, langflestar hafa ekki skipt okkur neinu máli til né frá, og enn aðrar henta ekki okkar aðstæðum. Nýlegt dæmi mætti nefna um samkeppni í dreifingu raforku. Sú tilskipun hentar hugsanlega vel í Mið-Evrópu en miklu síður á eylandi sem býr við einfalt orkudreifingarkerfi og er ekki í neinum tengslum við raforkukerfi annarra landa. Ekki fékkst þó undanþága frá þessari tilskipun og virðist hún skapa hér fleiri vandamál en hún leysir. Slíkt gerist öðru hvoru á því afmarkaða sviði sem EES-samningurinn nær til. En tjónið sem af þessu hlýst er að sjálfsögðu smámunir einir hjá því sem gæti gerst ef ESB fengi tilskipunarvald í mikilvægum málaflokkum sem EES-samningurinn nær ekki til svo sem í íslenskum sjávarútvegsmálum. Þá gæti stuttorð tilskipun um tilhögun veiða sem miðaðist við hagsmuni meginlandsríkjanna orðið að stórslysi á Íslandi.

Hræðsluáróður

Önnur vafasöm fullyrðing sem oft heyrist er sú að Íslendingar yrðu í miklum háska staddir og á köldum klaka ef Norðmenn gengju í ESB og fylgir þá oftast með eins og óvefengjanleg staðreynd að það muni þeir örugglega gera innan fárra ára. Afleiðingin verði síðan sú að EES-kerfið hrynji og Íslendingar standi uppi samningslausir við ESB.

Út af fyrir sig má vel vera að lífdagar EES-samningsins færu að styttast ef Norðmenn gengju í ESB. En þá kæmu aðrir samningar milli Íslands og ESB í staðinn. Ísland var með ágætan samning við ESB í tuttugu ár áður en EES-samningurinn kom til og engin ástæða er til að ætla að ekki næðust tvíhliða samningar við ESB um markaðsmál, þ.ám. um sameiginlegan vinnumarkað.

Eiríkur Bergmann, hinn "óháði" sérfræðingur þjóðarinnar sem fréttastofa Ríkisútvarpsins leitar oft til þegar samskipti Íslands og ESB ber á góma og um skeið var launaður starfsmaður áróðurskerfis ESB á Íslandi, gaf reyndar í skyn í útvarpsviðtali um þá ábendingu Ragnars Árnasonar prófessors, hvort ekki væri tímabært að velta fyrir sér kostum og göllum EES-samningsins og segja honum upp ef gallarnir sýndust vega þyngra, að útrás íslenskra fyrirtækja á Evrópumarkað myndi stöðvast og kalla yrði heim íslensku bankamennina sem þar starfa í íslenskum útibúum ef EES-samningurinn félli niður. Eiríkur virtist ganga út frá því sem gefnu að forystumenn ESB væru slíkir þjösnar að þeir myndu þá sjá til þess að lokað yrði á viðskipti Íslendinga í ríkjum ESB.

Að sjálfsögðu er hræðsluáróður af þessu tagi út í bláinn. Ef Norðmenn gengju í ESB en Ísland og Liechtenstein væru ein eftir í EES er ég sannfærður um að forystumenn ESB tækju því fegins hendi að gera tvíhliða samning við Íslendinga til að losna við það óhagræði sem fylgir stofnanakerfi EES-samningsins. Staðreyndin er sú að við Íslendingar höfum það nokkurn veginn í hendi okkar hversu lengi við viljum að EES-samningurinn gildi. ESB getur ekki sagt honum upp nema fá til þess samþykki þjóðþinga allra aðildarríkja ESB. Íslensk ríkisstjórn myndi því fá tóm til að tryggja að viðunandi tvíhliða samningar yrðu gerðir áður en EES-samninginn félli úr gildi og þyrfti einungis að fá eitt ríki, t.d. Dani, Svía eða Finna, til að bíða með að staðfesta niðurfellingu EES-samningsins þar til nýir samningar milli Íslands og ESB væru í höfn ef svo ólíklega vildi til að forystumenn ESB reyndust þeir tillitslausu þverhausar sem ekki væru til viðræðu um eitt né neitt eins og Eiríkur Bergmann gefur í skyn.

Svo er það annað mál að ekkert bendir til þess að Norðmenn séu á leið inn í ESB á næstu árum. Stuðningsmenn ESB-aðildar í Noregi munu ekki taka þá áhættu að innsigla ósigur sinn endanlega með þriðju þjóðaratkvæðagreiðslunni þegar skoðanakannanir sýna að meirihluti Norðmanna er ýmist með eða á móti aðild og þjóðin þverklofin í afstöðu sinni.

ESB og Evrópa er sitt hvað

Að lokum vil ég nefna enn eina áróðursklisju sem oft heyrist og Andrés Pétursson, form. Evrópusamtakanna, hefur klifað á að undanförnu. Hún er sú að styrkir úr Evrópska kvikmyndasjóðnum og öðrum menningarsjóðum séu aðeins tilkomnir vegna EES-samningsins og myndu hverfa með honum. Það eru líka grófar ýkjur. Samningurinn um Evrópska kvikmyndasjóðinn varð til áður en EES-samningurinn kom til sögu og ESB hafði þar enga forystu. Samið var um stofnun sjóðsins á vegum Evrópuráðsins sem er samstarfsvettvangur allra Evrópuríkja, óháður Evrópusambandinu. Íslendingar hafa gert 170 slíka Evrópusamninga að frumkvæði Evrópuráðsins um margvísleg málefni, ekki síst á þeim sviðum sem heyra undir menntamálaráðuneytið. Sama gildir um Mannréttindadómstól Evrópu svo annað dæmi sé nefnt.

Að vísu er það svo að forystumenn Evrópusambandsins og samkór stuðningsmanna þess víða um lönd reyna ákaft að telja okkur trú um að ESB sé Evrópa og þeir sem vilji ekki vera í ESB-klúbbnum séu að afneita Evrópu og teljist varla til Evrópumanna. Á sínum tíma tók Evrópusambandið upp fána Evrópuráðsins og gerði að sínum og það hefur auðvitað stuðlað mjög að því að rugla fólk í ríminu. Í fjölmiðlum, m.a. í fréttum Ríkisútvarpsins, heyrist iðulega rætt um "Evrópuráðið" þegar átt er við Ráðherraráð ESB en rétt hugtak er óhjákvæmilegt að nota til aðgreiningar frá Evrópuráðinu í Strassborg sem miklu fleiri ríki eiga aðild að og ber það nafn samkvæmt íslenskum lögum. Samningarnir 170 sem Evrópuríki hafa undirritað - ekki ESB - og hver og einn getur kynnt sér á vef utanríkisráðuneytisins ættu að minna okkur á að Íslendingar geta áfram tekið mjög mikinn þátt í evrópsku samstarfi án þess að gerast aðilar að ríkjablökk sem hefur m.a. þá ófrávíkjanlegu meginreglu að sölsa auðæfin á fiskimiðum aðildarríkjanna undir sína stjórn.

Ragnar Arnalds fjallar um Evrópumál

Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.