OLÍUFÉLAGIÐ Esso lækkaði verð á bensíni og olíu á þriðjudag um sömu krónutölu og það hafði hækkað verðið um sólarhring áður.

OLÍUFÉLAGIÐ Esso lækkaði verð á bensíni og olíu á þriðjudag um sömu krónutölu og það hafði hækkað verðið um sólarhring áður.

Verð á eldsneyti hjá félaginu er því nú það sama og það var um síðustu helgi, en verðbreytingin fól í sér tveggja króna hækkun á bensíni og einnar krónu hækkun á olíu og svo aftur lækkun um sömu krónutölu.

"Þær eru bara samkeppnislegar," sagði Hjörleifur Jakobsson forstjóri Essó, aðspurður um ástæðuna fyrir þessum verðbreytingum.

Hann sagði að Olíufélagið reyndi að fylgja mjög ábyrgri verðstefnu og væri verðum breytt vikulega ef ástæða væri til. Farið væri yfir verðþróunina í nýliðinni viku á hverjum mánudagsmorgni og þá teknar ákvarðanir um hvað bæri að gera í ljósi þróunar á heimsmarkaði með eldsneyti og verðið lækkaði eða hækkaði í samræmi við það hvernig verð á heimsmarkaði hefði breyst.

Flestir hækkuðu ekki

"Við hækkuðum verð á mánudaginn og síðan fylgdumst við með hvað gerðist og hvort aðrir hækkuðu eða hækkuðu ekki í þessu tilviki. Um miðjan dag á þriðjudag hafði einn samkeppnisaðili hækkað verð og aðrir ekki og við töldum því eðlilegt að lækka verðin aftur," sagði Hjörleifur Jakobsson.