Helga Stefánsdóttir fæddist í Litla-Hvammi í Mýrdal 19. september 1917. Hún lést á sjúkrahúsi Suðurlands miðvikudaginn 22. desember síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Skeiðflatarkirkju í Mýrdal 8. janúar.

Gamli bærinn stendur enn á sínum stað, þótt að ábúendurnir séu nú allir horfnir á fund feðranna. Veggirnir orðnir veðraðir og málningin víða flögnuð af, eftir áratuga baráttu við veður og vinda. Húsið snýr mót suðri og úr gluggum þess má sjá Dyrhólaey blasa við í fjarska. Staðurinn ber heitið Hvammból og er staðsettur í Mýrdalnum í Vestur Skaftafellssýslu. Þegar ég horfi yfir þennan stað, er sem birtist mér önnur veröld á öðru tímaskeiði, tímaskeiði æskunnar þegar lífið var eitt stórt ævintýri, laust við sorg og trega.

Þá er sem ég sjái og heyri til gömlu systkinanna sem hér bjuggu, þeirra Baldurs, Árnýjar og Helgu, fólksins sem gaf mér og svo mörgum öðrum börnum ótal gleðistundir á þessum æskudögum. Í hjartanu geymi ég minningar um gamlar vinnuaðferðir, með fornum vinnutækjum í bland nýrra. Hvernig tún voru slegin með orfi og ljá, heyi snúið og síðan rakað saman með gamaldags hrífum og það síðan bundið í bagga og flutt heim á hestbaki. Þarna var margt fólk samankomið við störf, sem stórvirkar vinnuvélar nútímans framkvæma.

Vissulega voru þetta bæði erfiðari og ábataminni vinnuaðferðir en nú tíðkast. En gleðin og samheldnin sem hópvinnan skóp gaf af sér annarskonar ríkidæmi, sem ekki er síður dýrmætt og ekki verður metið til fjár, nefnilega vináttuna sjálfa.

Þótt langt sé um liðið finnst mér sem ég geti enn heyrt til Baldurs bónda, þegar hann á sinn milda og hægláta hátt gaf okkur vinnufólkinu fyrirmæli sín. Einnig þykist ég heyra kærleiksríkan málróm Árnýjar minnar berast um fjósið, meðan hún sat þar við mjaltir og lét mig halda í hala beljanna og veitti mér virðingartitilinn "halahaldarinn". Og ekki síst mildan óminn af röddu Helgu innan úr bænum, meðan hún gekk þar til húsverka á sinn hljóðláta hátt og sá um, að allir fengju nóg að borða og hrein, hlý föt til að verma kroppinn. Þarna á þessum stað ríkti hamingja, gleði og friður, sem aldrei mun gleymast okkur sem það upplifðum.

8. janúar 2005 var til grafar borin síðasti ábúandinn á Hvammbóli, hún Helga Stefánsdóttir. Kona sem hélt reisn sinni til síðasta dags. Sveitin okkar mun aldrei verða söm eftir fráfall hennar og þeirra systkina, en minningarnar munu lifa um ókomna tíð í hugum okkar, ástvina þeirra. Ég og fjölskylda mín þökkum þeim að leiðarlokum einlæga vináttu og tryggð, sem yljað hefur hjörtum okkur gegnum tíðina. Guð blessi þau og varðveiti.

Einar Þorgrímsson.

"Að annast aðra, útheimtir virðingu og greind".

Þessa setningu las ég stuttu eftir andlát Helgu á Hvammbóli og mér fannst hún svo lýsandi fyrir mína kæru frænku og nágranna til margra ára sem hafði varið lengst af ævi sinni í að annast annað fólk. Fyrir nokkrum árum er heilsu hennar fór að hraka varð hún að skipta um hlutverk og láta aðra um að annast sig og var það nokkuð sem Helgu féll afar þungt því þar var hún komin hinum megin við borðið, í hlutverk sem hún vildi víst síst af öllu þurfa að læra.

Vegalengdin á milli bæjanna Hvammbóls og Litla-Hvamms er ekki mikil og var maður því frekar lágvaxinn þegar farið var í fyrstu ferðalögin án fylgdar fullorðinna, annaðhvort ein eða með einhverju af systkinum mínum. Aðaltilgangur þessara ferða var að heimsækja hana Helgu sem alltaf var í sama góða skapinu. Og aldrei brást það að á móti manni var tekið með mikilli gestrisni, gleði og virðingu. Ungri að árum fannst mér það svo merkilegt ef ég var stödd á Hvammbóli þegar fullorðna gesti bar að garði, að á móti þeim var tekið með nákvæmlega sama viðmóti og okkur krökkunum. Skynjaði maður því fljótt þá virðingu sem Helga bar fyrir öðru fólki og skipti ekki máli hvort maður var ungur eða gamall, ættingi, vinur eða sveitungi, alltaf var hún eins á að hitta. Það var því ekki laust við að litlum nágrönnum fyndust þeir aðeins hærri í loftinu eftir að hafa skroppið í heimsókn að Hvammbóli og fengið slíkar viðtökur, enda urðu þær margar ferðirnar sem þangað voru farnar í gegnum árin.

Síðastliðinn laugardag kvaddi ég Helgu í Skeiðflatarkirkju í björtu og kyrru veðri og varð svo þakklát fyrir að burtför hennar héðan fengi svo fallega umgjörð sem raun var. Er ég sat við útfararathöfnina, talaði presturinn um í minningarorðum að hún hefði átt við líkamlega fötlun að stríða. Það verður að viðurkennast að var í fyrsta skipti sem ég setti þetta tvennt í samhengi, Helgu og fötlun, því fyrir mér var þetta alltaf bara hún Helga. Hún sinnti öllum sínum verkum á sínum hraða, kát og létt í lund og þurfti aldrei aðstoð við neitt, sei, sei, nei, taldi það alltaf svo óskaplega mikinn óþarfa ef einhver bauðst til að rétta henni hjálparhönd. Vísast hefur hún sjálf aldrei litið á sig sem fatlaða eða hjálpar þurfi, því henni fannst hún alltaf hafa það svo "aldeilis ágætt" miðað við marga aðra.

Nú er minn tími búinn.

Og tími til kominn að kveðja.

Ég er gamall og lúinn.

Ég mun lifa aftur, ég þori að veðja.

Dauðinn er ekki verstur

Þegar þjáningar herja á mann.

Þá er Drottinn bestur.

Við skulum öll trúa á hann.

(Anna Soffía Halldórsdóttir.)

Að síðustu er Helgu af alhug þökkuð áralöng vinátta, frændsemi og gott nábýli við fjölskylduna í Litla-Hvammi 2. Við eigum öll svo margar minningar um þessa látlausu og fallegu frænku okkar sem ég veit að við eigum oft eftir að rifja upp í framtíðinni.

Aðalheiður Sigþórsdóttir

frá Litla-Hvammi.