Bandaríkin: Bush reynir að bera blak af Dan Quayle Ummæli varaforsetans um vinsælan sjónvarpsþátt valda hneykslan Los Angeles. Reuter.

Bandaríkin: Bush reynir að bera blak af Dan Quayle Ummæli varaforsetans um vinsælan sjónvarpsþátt valda hneykslan Los Angeles. Reuter.

GEORGE Bush Bandaríkjaforseti reyndi í gær að bera í bætifláka fyrir varaforsetann, Dan Quayle, sem valdið hefur hneykslan með því að setja út á vinsælan sjónvarpsþátt og setja ofan í við kvikmyndaiðnaðinn í Hollywood.

Quayle sagði að kvikmyndaiðnaðurinn væri ekki í takt við tímann og gæfi ekki rétta mynd af bandarísku þjóðlífi. Sagðist hann ekki gefa mikið fyrir siðferðisboðskap Murphy Brown-sjónvarpsþáttanna þar sem aðalpersónan eignast lausaleiksbarn.

"Þeim í Hollywood finnst það sætt að sveipa hið ólögmæta töfraljóma. Þeir eru ekki í takt við raunveruleikann, dvelja í öðrum heimi. Þeir ættu að vera með mér hér úti á götunum að ræða við börnin um framtíðina, um nauðsyn menntunar, tala við foreldrana. Þá kæmust þeir í kynni við raunveruleikann," sagði Quayle. Hann heimsótti í gær barnaskóla í hverfum sem urðu hvað verst úti í óeirðunum í Los Angeles um síðustu mánaðamót og ræddi þar við nemendur og foreldra þeirra.

Ummæli varaforsetans ollu hneykslan og þau komu Bush forseta í opna skjöldu. Ekki tók betra við þegar hann sagðist ósammála Marlin Fitzwater, talsmanni Bush, sem sendi út fréttatilkynningu til þess að bjarga andliti forsetans. Þar sagði að aðalpersóna Murphy Brown-þáttanna sýndi gott fordæmi með því að ákveða að eiga barnið. Þættirnir endurspegluðu því andúð á fóstureyðingum sem væri fagnaðarefni.

Varaforsetinn hafði því komið sér og forsetanum í klípu og kom Bush honum að nokkru leyti til varnar. Hann sagðist taka undir það með Quayle að hrun kjarnafjölskyldunnar hefði alvarlegar og slæmar afleiðingar fyrir bandarískt þjóðfélag. Fjölskyldan væri máttarstólpi samfélagsins og því væru þverrandi fjölskyldubönd alvarlegt áhyggjuefni. Með minnkandi stöðugleika, dvínandi ástúð foreldra og skertri ábyrgðartilfinningu feðra dvínuðu vonir barna um örugga framtíð. Bush vildi þó augsýnilega ekki gera lítið úr Murphy Brown-þáttunum er hann sagðist viðurkenna að það væri ekki alltaf sjálfgefið að foreldrar stofnuðu heimili saman.