27. júní 1992 | Innlendar fréttir | 449 orð

Íþróttakennaraskóli Íslands 50 ára Laugarvatni.

Íþróttakennaraskóli Íslands 50 ára Laugarvatni. FIMMTÍU ár eru síðan fyrstu lög um Íþróttakennaraskóla Íslands voru staðfest, 29. apríl 1942. Þá hafði Björn Jakobsson starfrækt sinn einkaíþróttaskóla síðan 1932 og útskrifað 48 nemendur.

Íþróttakennaraskóli Íslands 50 ára Laugarvatni.

FIMMTÍU ár eru síðan fyrstu lög um Íþróttakennaraskóla Íslands voru staðfest, 29. apríl 1942. Þá hafði Björn Jakobsson starfrækt sinn einkaíþróttaskóla síðan 1932 og útskrifað 48 nemendur. Þessi lög tóku síðan gildi 1. janúar '43.

Þessara tímamóta var minnst við útskrift við ÍKÍ í lok maí sl. 1932 hóf Björn Jakobssn starfrækslu íþróttaskóla á Laugarvatni og naut þá húsakosts Héraðsskólans enda fyrstu nemendur skólans aðeins tveir. Skólinn var síðan rekin með ríkisstyrk í tíu ár þar til að lög um Íþróttakennaraskóla Íslands voru samþykkt. Björn Jakobsson var skólastjóri skólans áfram allt til ársins 1957. Síðan hefur Árni Guðmundsson verið skólastjóri skólans.

Nám við skólann var í fyrstu eins vetrar nám en lengdist í tveggja vetra nám með lögum frá 1972. Eftir þeim lögum hefur skólinn starfað síðan. Drög að lögum um Íþróttaháskóla Íslands hafa verið til athugunar frá 1986 og stendur til að þau verði tilbúin nú fyrir haustið.

Nám við Íþróttakennaraskólann hefur verið endurskipulagt og lagað að einingamatskerfi skóla á háskólastigi. Munu fyrstu nemendurnir útskrifast þannig næsta vor, eða 1993. Í tengslum við þróun skólans á háskólastigi hefur verið samþykkt áætlun um lengingu hans í þrjú ár með deildaskiptu námi. Er stefnt að því að taka fyrstu nemendurna inn í skólann til þriggja ára náms haustið '94.

Jafnt og þétt hefur verið unnið að uppbyggingu skólans á Laugarvatni. Fyrsta íþróttahúsið sem reist var á Laugarvatni var sýningarskáli þjóðhátíðarinnar 1930 sem var fluttur frá Reykjavík og reistur á bakka Laugarvatns 1932. Skálinn var 10x20 m að flatarmáli og þjónar í dag sem smíðakennsluhús. 1946 var byggt íþróttahús, þá stærsta hús sinnar tegundar á Íslandi, 12x24 m. Malarvöllur var tekinn í notkun '58 en hefur síðan verið endurbyggður. Malbikaður harðvöllur var tekinn í notkun '72. Nýtt íþróttahús, 27x45 m að stærð, var tekið í notkun '87 og er í dag eitt best búna íþróttahús landsins til almennrar íþróttakennslu. Ný útisundlaug við skólann var vígð 30. maí sl. og bætir úr brýnni þörf þar sem gamla innisundlaug Héraðsskólans má heita ónothæf.

Heimavistarhúsnæði fyrir 30 nemendur og tveimur kennaraíbúðum var tekið í notkun fyrir skólann 1968, en það var byggt með tæplega 39% eignarhluta ÍSÍ. Í þessu húsi er nú starfandi Íþróttamiðstöð Íslands en Íþróttakennaraskólinn hefur til afnota fyrrum húsnæði hússtjórnarskóla Suðurlands ásamt tveimur kennaraíbúðum.

Íþróttakennaraskólinn er nú í hraðri þróun. Allt nám skólans er nú metið til eininga eftir því sem gert er í öðrum skólum á háskólastigi. Lög skólans hafa um nokkurn tíma verið til endurskoðunar og verða væntalega lögð fyrir Alþingi í haust. Nám við skólann er nú 60 einingar en verður 90 einingar með nýju lögunum. Stefnt er að því að taka inn nemendur til þriggja ára náms haustið '94.

­ Kári.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.