30. júní 1992 | Innlendar fréttir | 381 orð

Steindórsprent kaupir allt hlutafé í Gutenberg

Steindórsprent kaupir allt hlutafé í Gutenberg STEINDÓRSPRENT keypti í gær allt hlutafé í Prentsmiðjunni Gutenberg hf.

Steindórsprent kaupir allt hlutafé í Gutenberg

STEINDÓRSPRENT keypti í gær allt hlutafé í Prentsmiðjunni Gutenberg hf. Jón Sigurðsson, viðskipta- og iðnaðarráðherra, undirritaði samninginn fyrir hönd ríkissjóðs og Hálfdán Steingrímsson, forstjóri Steindórsprents, fyrir hönd fyrirtækis síns. Tilboð Steindórsprents var metið á 84.900.000 kr. og hljóðaði það upp á greiðslu á öllu kaupverðinu fyrir júlílok. Hálfdán Steingrímsson segist afar ánægður með kaupin, en fyrir Steindórsprenti vaki fyrst og fremst að styrkja samkeppnisstöðu sína á markaðnum og ná fram hagræðingu með því að stækka rekstrareininguna.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu bárust þrjú tilboð í allt hlutafé Gutenbergs, auk viljayfirlýsinga starfsmanna um þátttöku í kaupunum. Eftir að tilboð voru opnuð hafi starfsmenn hins vegar hætt við þátttöku sína. Landsbréfum hf. hafi verið falið að meta tilboðin til núvirðis og var niðurstaðan eftirfarandi. Tilboð Ísafoldarprentsmiðju var upp á 80.900 þúsund kr., tilboð Prentsmiðjunnar Odda 84.950 þúsund kr. og tilboð Steindórsprents upp á 84.900 þúsund kr.

Í fréttatilkynningunni segir að tilboð Steindórsprents hafi hljóðað upp á greiðslu á öllu kaupverðinu fyrir lok júlímánaðar næstkomandi og hafi því verið ákveðið að taka því tilboði, en það feli í sér minnsta áhættu fyrir seljanda. Heimild til sölu hlutabréfanna sé veitt í fjárlögum yfirstandandi árs og hafi fjármálaráðherra þegar fallist á söluna fyrir sitt leyti.

Þá segir í tilkynningunni að það veki athygli að litlu hafi munað á kauptilboðunum, en fyrirtækið sé selt á genginu 1,07 eða á 85,6 milljónir króna. Söluverðið sé hins vegar lægra en bókfært verð fyrirtækisins, sem nemi 148 milljónum króna. Skýringarnar virðist vera þrjár, í fyrsta lagi lægra markaðsverð fasteigna fyrirtækisins en sem nemur bókfærðu verði (um 25 milljónir kr.), í öðru lagi lægra markaðsverð véla (23,7 m.kr.) og í þriðja lagi óbókfærðar skuldbindingar, sem lækki verðið um 10 milljónir króna.

Steindórsprent hf. var stofnað 1934 af Steindóri Gunnarssyni og fleirum og hefur tengdasonur hans, Hálfdán Steingrímsson, verið prentsmiðjustjóri frá 1951. Fyrirtækið er í dag alfarið í eigu Hálfdáns og fjölskyldu hans. Hann segir að þessi kaup breyti mjög miklu fyrir fyrirtækið. Hann hafi rekið það þannig í 40 ár að hann hafi ekki þurft að skulda neinum neitt en á því verði auðvitað breyting nú. Hins vegar telji hann að kaupin geti styrkt fyrirtækið í samkeppni á markaðnum og gera megi ráð fyrir að hagræðing náist fram með því að stækka rekstrareininguna.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.