Gunnar Karlsson segir frá útgáfu á Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins EF MAÐUR BÍTUR MANN Grágás, lagasafn Íslendinga á þjóðveldisöld, er einn af þjóðardýrgripum okkar.

Gunnar Karlsson segir frá útgáfu á Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins EF MAÐUR BÍTUR MANN Grágás, lagasafn Íslendinga á þjóðveldisöld, er einn af þjóðardýrgripum okkar. Hún er mesta lagasafn norrænna manna frá miðöldum, réttargrundvöllur og baksvið fornsagna okkar, og ómetanleg heimild um réttarvitund, siðferðiskennd, atvinnuvegi, þjóðhætti og daglegt líf á Íslandi á fyrstu öldum byggðar.

ókaútgáfa Máls og menningar hefur nú höndlað það stórvirki að gefa Grágás út í einni samstæðri útgáfu með nútímastafsetningu og ritstjórar verksins eru þeir Gunnar Karlsson sagnfræðingur, Kristján Sveinsson sagnfræðinemi og Mörður Árnason málfræðingur. Gunnar Karlsson segir í formála að Grágás hafi ekki komið út með samræmdri stafsetningu fornri, hvað þá nútímastafsetningu fyrr en nú. Eina útgáfan sem var á markaði fram að þessari var ljósprentun á stafréttri útgáfu Vilhjálms Finsens frá 1852-83, þar sem Grágás er prentuð í tveimur gerðum auk fjölda brota úr öðrum.

Grágás skiptist í 14 lagakafla, þar sem eru Kristinna laga þáttur, erfðaþáttur, ómagabálkur, festaþáttur, um fjárleigur, Vígslóði, landabrigðisþáttur, þingskapaþáttur, baugatal, lögsögumannsþáttur, lögréttuþáttur, rannsóknaþáttur, stakir kaflar úr Konungsbók. Þá er viðauki er nefnist Elsti varðveitti Grágásartexti. Ítarlegur inngangur um útgáfuna og efni Grágásar er ritaður af ritstjórunum þremur, einnig efnisskrá þátta og fjöldi skýringarmynda ásamt atriðisorðaskrá.

Grágás er í mínum huga einkum mannlífslýsingar frá Þjóðveldistímanum, sem að sumu leyti er ólíkt því lífi sem við lifum á Íslandi í dag, en einnig er þar margt sem er ótrúlega líkt," segir Gunnar Karlsson sem undanfarið ár hefur sökkt sér niður í texta Grágásar og er rétt að koma upp á yfirborðið aftur. Ég hef stundum sagt að Grágás sé lengsta ljóð á íslensku, hlaðið hugmyndum um hvað getur gerst í mannlífinu. Grágás er fyrst og fremst mikið safn af hugmyndum manna um hvað getur gerst og hvernig bregðast skuli við því. Þannig eru Grágásarlög frábrugðin nútímalögum, að þau eru á miklu lægra alhæfingarstigi, í þeim eru fundin sem flest möguleg tilfelli og því eru Grágásarlögin auðugri að dæmum um alls konar möguleika á mannlegri hegðun og hugsanlega atburði."

Ef maður bítur mann eða rífur eða klýpir svo að blátt eða rautt verður eftir, og varðar það fjörbaugsgarð. Sár er ef blæðir.

Ef maður hellir á mann mat eða hlandi eða sauri þeim er á sér eftir, og varðar það skóggang. En ef maður hellir á mann vatni, og varðar það fjörbaugsgarð. Ef maður mígur á mann, og varðar það fjörbaugsgarð, en skóggang varðar ef maður skítur á mann.

Það er ekki svo oft sem Grágásarlög eru ranglát en refsingar eru í sumum tilfellum fáránlega harðar. Fyrir minnstu misgjörðir gegn persónu annars manns hefur verið harðlega refsað," segir Gunnar. Sómi manna og mannorð eru þungamiðja þessara laga og skóggangsrefsing við alls konar minni háttar misgjörðum sem í dag er aðeins spurning um smávægilegar skaðabætur eða sektir."

Fjörbaugsgarður þýddi þriggja ára útlegð og skóggangur var útlegð ævilangt. Ef menn hlýddu ekki dómnum og fóru af landi brott voru þeir réttdræpir, samanber Gunnar á Hlíðarenda sem dæmdur var í fjörbaugsgarð og Gretti Ásmundarson sem dæmdur var til skóggangs. Refsingar voru tvenns konar, annars vegar fésektir og hins vegar útlegðardómar. Á þjóðveldisöld fyrirfannst ekkert opinbert refsivald og oftast var það svo að sá sem sótti sök varð að sjá um að dómnum væri fullnægt."

Gunnar segist ekki vita hvenær síðast var dæmt eftir Grágásarlögum en þau voru í gildi frá stofnun Alþingis, allt til þess að Noregskonungur færði Íslendingum lögbókina Járnsíðu, rétt eftir lok þjóðveldisaldar um 1270. Þau tvö handrit að Grágásarlögum sem enn eru til voru ekki rituð fyrr en um eða eftir miðja 13. öld, en í Íslendingabók segir að á fyrsta lögsögumannsári Bergþórs Hrafnssonar, sem gegndi því embætti 1117- 1122, hafi það nýmæli verið gert að skrifa skyldi lög á bók. Gunnar segir þessa lagaskrá vera það fyrsta sem full vissa er um að ritað hafi verið á íslensku.

Þannig eru Grágásarlög ekki rituð fyrr en í lok þess rúmlega 300 ára tímabils sem þau eru í gildi og Gunnar bendir á að í lögunum komi fram viss áhugi á að vernda ýmsan fróðleik og ákvæði sem vitað er að ekki höfðu verið í gildi um langan aldur þar á undan. Þetta á t.d. við um ákvæði um þrælahald sem engar heimildir eru til um að hafi viðgengist hér á Íslandi eftir 11. öld. Þá er líka ósennilegt að allt sem stendur í Grágás hafi verið samþykkt sem lög á Alþingi. Kannski hafa Grágásarlög verið rituð fyrir höfunda íslendingasagnanna, a.m.k. er forvitnilegt að skoða hvort sömu réttarreglur gilda í þeim og Grágás. Það kemur reyndar í ljós að sums staðar ber á milli og réttarreglur eru ólíkar."

Grágásarlög eru fyrst og fremst lög fyrir bændur. Þar er að finna mjög mikið af ákvæðum um nýtingu lands og hvernig leysa skuli úr ýmiss konar ágreiningi við nábúa og granna. Þá er einnig stór bálkur helgaður ómagaframfærslu og meðferð fjármuna."

Samkvæmt fornum sögnum segir að þjóðveldistíminn hefjist með því að Íslendingar tóku upp lög á Alþingi um 930. Elsti hluti laganna er því frá heiðnum sið og því vaknar sú spurning hvort ekki megi ætla að lögin hafi verið rækilega endurskoðuð við kristnitökuna árið 1000. Hér verða getgáturnar einar að standa því Grágásarhandritin eru ekki rituð upp fyrr en eftir miðja 13. öld og Kristinna laga bálkur þar traustur í sessi. Bönn við heiðnum siðum eru mjög lítið áberandi í Grágás annað en að bannað er að blóta heiðnar vættir. Það er annars eins og Grágás komi mjög vel heim við þá skoðun að á Íslandi hafi verið lítið vandamál að útrýma heiðnum síð. Það er ekkert í Grágásarlögum sem hægt er að sanna að sé frá heiðnum sið, þó það hljóti reyndar að vera því mörgu hefur verið ástæðulaust að breyta," segir Gunnar.

Það eru til lög frá svipuðum tíma og jafnvel eldri, frá hinum Norðurlöndunum en þar er ekkert sem er mjög líkt Grágásarlögum. Ari fróði segir í Íslendingabók að lög Úlfljóts hafi verið samin eftir Gulaþingslögum í Noregi. Gulaþingslög eru til í handriti frá miðöldum og þau eru að mörgu leyti mjög ólík. Ef við trúum því að landnámsmenn hafi komið frá Gulaþingslagasvæðinu í Vestur-Noregi þá er þetta merki um að löggjöfin hafi breyst, annað hvort sú íslenska eða norska, eða kannski báðar," segir Gunnar.

Það má einnig benda á áhrif frá lærðum suður-evrópskum rétti í Grágás. Ákvæði í Grágás eru því að einhverju leyti komin frá útlendum lögbókum sem Íslendingar hafa lesið og farið eftir. Sumir hafa a.m.k. þóst finna merki um þetta. En fyrst og fremst er Grágás stórmerk heimild um mannlíf á Íslandi á þjóðveldistímanum og sem slík eru Grágásarlög einstök," segir Gunnar Karlsson sagnfræðingur.

HS

Morgunblaðið/Kristinn

Sómi manns og mannorð er það dýrmætasta sem hann á," segir Gunnar Karlsson sagnfræðingur um Grágásarlög.