Skáldverk Indriða G. Þorsteinssonar Sigurjón Björnsson Indriði G. Þorsteinsson: Heildarútgáfa skáldverka. 9 bindi Reykholt 1987­1992. Indriði G. Þorsteinsson hefur verið mikilvirkur höfundur.

Skáldverk Indriða G. Þorsteinssonar Sigurjón Björnsson Indriði G. Þorsteinsson: Heildarútgáfa skáldverka. 9 bindi Reykholt 1987­1992. Indriði G. Þorsteinsson hefur verið mikilvirkur höfundur. Enda þótt skáldverk hans frá fjörutíu ára höfundarferli rúmist í níu bókum í þessari útgáfu (tólf í frumútgáfu) er það ekki nema hluti ritverka hans. Bæta má við öðrum tólf bókum a.m.k. (ævisögur o.fl.). Þá er jafnframt þess að geta að Indriði hefur lengstum gegnt öðrum umfangsmiklum störfum.

Í þessari útgáfu er smásagnasöfnum hans fjórum (Sæluvika 1951, Þeir sem guðirnir elska 1957, Mannþing 1965 og Átján sögur úr Álfheimum 1986) raðað saman í tvær bækur, Fyrstu sögur, skráðar á árunum 1950­1957, og ná þær yfir fyrri söfnin tvö í frumútgáfunni og Seinni sögur, skráðar 1958­1986, og geymir sú bók því tvö seinni söfnin. Sextán sögur eru í hvorri bók og hafa því einhverjar verið felldar niður. Hin fræga skáldsaga Indriða, 79 af stöðinni (1955) sem komið hefur út í mörgum útgáfum og verið kvikmynduð er hér á einni bók. Þess má geta að myndbandsspóla af kvikmyndinni fylgir þessari útgáfu. Er það raunar fyrsta íslenska kvikmyndin sem myndband var gert af. Framan við söguna er 34 bls. ritgerð eftir Hallberg Hallmundsson. Ber ritgerðin heitið Skafl beygjattu skalli. Er þar sagt nokkuð frá uppruna og æskuslóðum Indriða, en meginefni ritgerðarinnar er umfjöllun um skáldskap hans. Ritgerðin er skrifuð af miklum kunnugleika og færni. Næsta bók í þessari útgáfu (Bækurnar eru ekki merktar sem slíkar, en ég fylgi hér tímaröð frumútgáfu) er hin merka skáldsaga Land og synir (1963), sem einnig hefur oftar en einu sinni komið á prent og sömuleiðis kvikmynduð. Þá kemur sú mikið umtalaða skáldsaga Þjófur í Paradís (1967). Hún er hér í þriðju útgáfu að ég held. Í sömu bók er kvæðakver Indriða, Dagbók um veginn (1973). Næst er svo Norðan við stríð (1971), sömuleiðis í þriðju útgáfu, þá Unglingsvetur (1979), Keimur af sumri (1987) og loks leikritið Húðir Svignaskarðs (1988). Skáldverk Indriða eru því samkvæmt þessari útgáfu tvö smásagnasöfn, ein kvæðabók, eitt leikrit og sex skáldsögur.

Það er mikil og sérkennileg upplifun að lesa öll skáldverk sama höfundar frá upphafi til enda í réttri tímaröð. (Ég er þó ekki með því að segja að ég búist við að Indriði hafi lokið skáldferli sínum. Hann er enn á góðum aldri og maður getur vænst þess að meira komi úr penna hans.) Einstök verk skynjar maður á nýjan hátt, sem hluta af heild, áfangastaði á langri leið. Allt þjónar þar einhverjum tilgangi, líkt og steinar í velhlöðnum vegg. Smásögur Indriða verða við slíkan lestur, margar hverjar, eins og einstakir steinar sem liggja við veginn 1950­1986 og eiga eftir að raðast með ýmsum hætti inn í skáldsögurnar. Þar sem sumum þeirra er svo fyrir komið að flötur fellur að fleti í haganlegri smíð. Að þessu víkur Hallberg Hallmundsson nánar í einstökum atriðum í áðurnefndri ritgerð sinni. Þegar ritverk Indriða G. Þorsteinssonar eru skoðuð þannig af háum sjónarhóli skilur maður einstök verk öðrum skilningi en þegar þau komu fyrst út og maður vissi ekki hvert framhaldið yrði. Og þegar á þetta er litið finnst mér auðskildara að dómar skyldu stundum hafa verið býsna sundurleitir og ekki alltaf lofsamlegir eins og vel kemur fram í ritgerð Hallbergs.

Fyrsta skáldsaga Indriða, 79 af stöðinni, þótti talsverður bókmenntaviðburður á sinni tíð. Með þeirri sögu staðfesti Indriði það fyrirheit sem hann hafði gefið með smásögunni Blástörum nokkrum árum áður. Sagan þótti sterk, hlaðin dramatískri spennu og margt mátti þar lesa á milli lína. Hún fékk vissulega lofsamlega dóma, en margt skrítið var einnig sagt. T.a.m. var því haldið fram að stíllinn væri stæling á Hemingway. Það finnst mér fáránlegt nú og eitt af þessum uppátækjum bókmenntafræðinga sem eiga það til að reyna að gera sig breiða með ýmsum hætti. Í ljósi seinni bóka vil ég helst líta á þennan stíl sem merki um vissa tilgerð hjá ungum höfundi sem enn hafði ekki fyllilega fundið þann stíl sem honum var eiginlegastur. Menn taki eftir að þessi einkenni hverfa að mestu síðar. Nema þar sem þau eru beinlínis sérkenni Indriða sem hann hefur ekki fengið að láni frá öðrum. Hann hefur nokkuð sérstakan en ekki óalgengan hátt á tjáningu tilfinninga, sem mér finnst ég raunar kannast við frá heimaslóðum okkar beggja. Þegar Indriði kemur að viðkvæmum efnum hættir honum stundum til að verða nokkuð snubbóttur í tilsvörum og frásögn, afundinn og á jafnvel til að snúa útúr. Í næstu skáldsögu sinni, Landi og sonum, kemur þetta stundum fram hjá piltinum Einari Ólafssyni þegar honum er þyngst fyrir brjósti, en á markvissari hátt en í fyrri sögunni. Sú saga sýnir raunar vel hversu höfundarþroski Indriða hefur aukist mið á undanförnum árum. Indriði nær þar tökum á mun breiðari og dýpri umfjöllun. Stíllinn slípast og hinar unaðslegu náttúrulýsingar sem verða eitt sterkasta höfundareinkenni hans skipa þar veglegt rúm. Persónulýsingar verða skarpari og hnitmiðaðri. Þessar tvær sögur eru raunar að mínu viti mikið skyldar. Alltaf finnst mér Ragnar í 79 af stöðinni vera Einar Ólafsson í Landi og sonum. Einhver ár hafa liðið og hann er á leiðinni heim aftur, þegar ferð hans endar á Vatnsskarðinu um það bil sem hann sér yfir fjörðinn sinn. Þetta kann að vera huglægur skilningur og annar en sá sem höfundur hefur. En raunar hefur Hallberg uppi svipaðar hugleiðingar í ritgerð sinni og styður þær tilvitnunum.

Og nú kemur Þjófur í Paradís. Það var vissulega djarft uppátæki hjá Indriða að setja þá sögu saman. Indriði fjallar þar um atburði, sakamál, frá hans heimaslóðum sem gerðust aðeins tæpum þrjátíu árum fyrr, komu miklu róti á hugi manna og flestir sem við sögu komu voru enn í fullu fjöri og sumir enn. Þar sem Indriði fylgdi heimildum (t.a.m. málsskjölum) mjög náið og lýsti persónum svo að vel þekktust (kækjum, tilvörum, útliti og öðru) var ekki að undra þótt bókinni væri þunglega tekið að ýmsum svo að ekki sé meira sagt. Margir áttu erfitt með að líta á hana sem skáldverk. Sjálfur var ég einn þeirra sem þekkti vel til þessara atburða og var ekki fjarri þeim. Skal ég fúslega viðurkenna að ég átti lengi vel erfitt með að meta söguna sem sjálfstætt skáldverk. Nú, eftir að mikið vatn hefur runnið til sjávar, á ég auðveldara með að sjá að Þjófur í Paradís er mikið listaverk, snilldarlega vel samin og gerð af djúpu innsæi og skilningi. Hún er óefað með bestu skáldsögum Indriða og mun lengi lifa. Ég skil einnig nú hvers vegna þetta sérstaka söguefni lét Indriða ekki í friði.

Akureyrarsögur Indriða tvær, eins og þær eru stundum nefndar, Norðan við stríð og Unglingsvetur, hafa hlotið mikið lof, einkum sú fyrrnefnda. Vissulega eiga þær sögur lof skilið, því að þær eru ágætlega vel gerðar. En einhvern veginn hefur mér aldrei fundist eins mikið til um þær og hinar sem á undan fóru. Það er eins og sál Indriða sé þar ekki öll. Þær eru endurómur minninga, þar sem hann var aldrei allur. Fremur sem glöggskyggn og frábærlega næmur athugandi.

En í síðustu skáldsögu sinni, Keimur af sumri, er Indriði aftur kominn heim. Sú bók hefur að mínu viti alls ekki fengið þá athygli sem hún á skilda. Þar fellur allt í einn farveg: yndisljúfar náttúrulýsingar, vel gerðar persónur og umfram allt mikið jafnvægi í frásögn. Sérstök ástæða er til að minnast á stíl og málfar Indriða í þessari bók. Þar fer hann á miklum kostum og hefur hvergi náð betri tökum. Öll tilgerð er horfin (var það reyndar fyrir löngu). Í staðinn er komið gulltært norðlenskt sveitamannamál eins og það gat best orðið. Enginn þarf að velkjast í vafa um að þar ligggur áralöng ögun að baki.

Hér á árum áður var því stundum haldið fram að Indriði G. Þorsteinsson væri býsna djarfur og bersögull í kynlífslýsingum sínum og þær lýsingar væru margar. Á því herrans ári 1992 koma slíkar staðhæfingar undarlega fyrir sjónir. Víst er mikið um ástalíf í sögum Indriða, samdrætti og bólfarir og náttúrað og ekki alltaf sléttheflað tal stráka. En þannig er þetta í mannlífinu og Indriði væri ekki raunsær höfundur ef hann léti slíkt fram hjá fara. En Indriði er jafnframt einstaklega hæverskur og hlédrægur höfundur í þessu tilliti. Yfirleitt lætur hann sér nægja að gefa í skyn, án þess að segja. Hitt er látið lesandanum eftir og ekki við höfund að saka þótt hugur lesandans hlaupi lengra. Ég minnist ekki einnar einustu samfaralýsingar í sögum Indriða. Slíkt væri held ég fjarri skapi hans og smekkvísi. Kynlíf fellur í sögum hans að lögmáli listarinnar eins og svo margt annað í meðförum hans.

Þeir þankar sem hér hafa nú verið settir á blað eru vitaskuld enginn ritdómur, eins og allir sjá og því síður úttekt á skáldverkum Indriða G. Þorsteinssonar. Ég hef einungis leyft mér að hugsa upphátt litla stund, ef það kynni að mega skoðast sem svolítil kvittun fyrir endurlestur þessara verka nú í heild. Það hafa verið miklar ánægjustundir að eiga þessa samveru við sveitunga sinn og jafnaldra. Liðnum tíma og horfnum stöðvum er lyft á hærra svið. Ilmur íslenskrar tungu og íslenskrar náttúru fyllir vit manns og geymist þar lengi.

Fjörutíu ára rithöfunarferill er nokkuð löng leið. Þar skiptast á skin og skúrir og áfangastaðir verða margir. Þrír þeirra verða nú að lokinni þessari ferð eftirminnilegastir þeim sem þetta ritar: Land og synir, Þjófur í Paradís og loks hinn glæsilegi hlaðsprettur Keimur af sumri. Hvaða rithöfundur sem er gæti verið stoltur af þessum þremur bókum þó að ekki kæmi meira til.

Morgunblaðið/Kristinn

Indriði G. Þorsteinsson

Myndskreyting eftir Eduardo Paolozzi.