Jón Páll Sigmarsson - viðbót Hann fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði hinn 28. apríl árið

1960. Hann varð bráðkvaddur laugardaginn 16. janúar 1993 í íþróttasal sínum að Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.

Foreldrar Jóns Páls eru Sigmar Jónsson stórkaupmaður í Reykjavík og Dóra Jónsdóttir úr Hafnarfirði. Við móðursystkini ásamt afa hans, Jóni Pálssyni, viljum votta ykkur, móður hans, föður hans og Sigmari Frey syni hans okkar dýpstu samúð. Hann var oft hjá okkur og þegar hann var nýfæddur eða nokkurra daga var hann hjá mömmu og pabba á heimili okkar í Mjósundi 16, Hafnarfirði.

Já, það er margs að minnast. Meðal annars eru ljúfu minningarnar um elsku mömmu, þegar hún var að baða litla krúttið hennar Dóru systur okkar. Jón Páll var alltaf mjög elskur að afa sínum í Hafnarfirði og mikið með honum, þegar pabbi gat komið því við. Hann var líka hans augasteinn. Mamma og pabbi höfðu hann líka með sér í sveitina á sumrin, þegar við vorum að hjálpa bræðrum okkar við búskapinn í Þjóðólfshaga í Holtum og líka var hann með okkur, þegar við fórum í heimsókn að Staðarbakka, þar sem Guðrún Helga sáluga systir okkar bjó með manni sínum, Magnúsi Guðmundssyni. Þar var nú yndislegur frændsystkinahópur og gott að koma.

Í miðvikudagsblaði DV hinn 4. október 1989 bls. 27 segir, að afi Dóru, Páll Jónsson, hafi verið verkamaður í Reykjavík. Já, vissulega er það satt. Hann var verkamaður og það mjög góður verkamaður og trúr í hverju starfi, sem hann vann. En sannleikurinn er sá, að hann lærði járnsmíði hjá Þorsteini Tómassyni járnsmið í Lækjargötu 10 í Reykjavík. Síðan sigldi hann til Kaupmannahafnar til vinnu og frekara náms í sinni iðn. Hann var í kvöldskóla í Köbenhavns Maskinteknikum og útskrifaðist með frábærum vitnisburði sinna góðu kennara. Einnig öðlaðist hann samkvæmt lögum þar meistarabréf í sinni iðn.

Það er annars af Jóni Páli frænda okkar systkinanna að segja, að það er aðallega frá frumbernsku hans og auðvitað frá bernsku hans sem við eigum hvað flestar minningarnar um hann. Mamma og pabbi og við systurnar fórum á kristilegar samkomur að Austurgötu 6 í Hafnarfirði. Þar var orð guðs flutt í heilögum anda og einnig beðið fyrir sjúkum til lækningar og Jón Páll kom líka með mömmu og pabba. Og Guðs orð og máttarverk Drottins Jesú er gjöf og heilagur arfur, sem enginn fær af okkur tekið og endist okkur til eilífs lífs. Við heyrðum hann aldrei hafa ljótt orðbragð eða tala illa um nokkurn mann. Hann var mjög vinsæll hjá börnum og ungu kynslóðinni, enda ljúfur og geðugur piltur. Ekki minnumst við systkinin þess, að mamma eða Jóhanna amma í Nýjabæ hafi nokkurn tíma talað um það hvað Stefán heitinn í Lambhaga í Hraunum hafi verið sterkur; en Magnús Guðjónsson bifreiðastjóri, en hann var sonur Guðjóns Gíslasonar á Langeyri við Hafnarfjörð og Kristbjargar konu hans, sagði að Stefán hefði verið firnasterkur, enda kallaður "sterki". Stefán afi í Lambhaga í Hraunum var fæddur hinn 12. maí 1887, en varð bráðkvaddur á réttardag í Óskoti 21. september 1920. Svo að margt er líkt með skyldum. Jón Páll, sem er þriðji liður frá Stefáni Magnússyni "sterka" langafa sínum, verður nokkrum mánuðum yngri, en deyr á svipaðan hátt, verður bráðkvaddur. Móðir Stefáns Magnússonar hét Jörgína Kristjánsdóttir. Faðir hennar var danskur skipstjóri að nafni Jörgen Kristian Boye, en móðir hennar hét Helga Hálfdanardóttir. Jörgína var fædd í Ásbúð í Hafnarfirði árið 1849, en dó 1922.

Til skýringar skal það tekið fram, að Magnús, faðir Stefáns "sterka" í Lambhaga í Hraunum, var Gíslason; hann var bróðir Guðjóns Gíslasonar á Langeyri við Hafnarfjörð. Þeir voru því bræðrasynir Stefán Magnússon í Lambhaga og Magnús Guðjónsson bifreiðastjóri. Stefán afi okkar systkinanna í Mjósundi 16 í Hafnarfirði átti tvíburasystur, sem hét Guðlaug og líka átti hann systur, sem hét Margrét; hún var kona Bjarna heitins Erlendssonar á Víðistöðum. Þetta var mikið sóma og tryggðafólk og grandvart til orðs og æðis.

Svo kveðjum við ástkæran frænda og dótturson og biðjum þig, Drottinn vor og frelsari, Jesús Kristur, að blessa vora minningu um Jón Pál Sigmarsson. Friður Drottins Jesú sé yfir hans sál! Amen!

Dauðinn má svo með sanni

samlíkjast þykir mér,

slyngum þeim sláttumanni,

er slær allt hvað fyrir er.

Grösin og jurtir grænar,

glóandi blómstrið frítt,

reyrstör sem rósir vænar

reiknar hann jafn fánýtt.

(Hallgrímur Pétursson)

Fjölskyldan Mjósundi 16 og

Jón Pálsson afi, Hafnarfirði.