Tölvur Sex starfsmenn hjá Nýherja hætta störfum Störfuðu áður hjá IBM og hafa nú stofnað tvö ný fyrirtæki NÝLEGA hafa 6 starfsmenn tölvufyrirtækisins Nýherja sagt upp störfum.

Tölvur Sex starfsmenn hjá Nýherja hætta störfum Störfuðu áður hjá IBM og hafa nú stofnað tvö ný fyrirtæki

NÝLEGA hafa 6 starfsmenn tölvufyrirtækisins Nýherja sagt upp störfum. Þrír þeirra hafa stofnað fyrirtæki á sviði verkfræðiráðgjafar og kerfisþjónustu. Aðrir tveir hafa ákveðið að stofna nýtt fyrirtæki sem mun starfa almennt á upplýsingasviði í sambandi við tölvur.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðisins er þetta fólk með mikla reynslu í tölvuheiminum, þ.á.m. verkfræðingur og kerfisfræðingar.

Að öðru fyrirtækinu, Tákni hf., standa Dagný Halldórsdóttir, Ársæll Hreiðarsson og Bergsveinn Þórarinsson. Að sögn Ársæls mun fyrirtækið hefja starfsemi í næsta mánuði og verður það til húsa að Skipholti 50b. "Við ætlum að veita óháða þjónustu, þ.e. ekki binda okkur neinum einum vélbúnaðarframleiðanda. Tákn verður stórt nafn í framtíðinni. Hvert okkar er með a.m.k. 10 ára reynslu af tölvumálum og þekkingu á mjög breiðum grundvelli." Aðspurður um hvers vegna þau hefðu sagt upp störfum hjá Nýherja sagði Ársæll að tími hefði verið kominn til að gera eitthvað nýtt.

Að hinu fyrirtækinu standa Ólafur Daðason og Hörður Olavson.

Einn viðmælandi Morgunblaðsins sagði að ástæður fyrir uppsögnunum væru m.a. þær að mikið starfsöryggi hefði verið að starfa hjá IBM. Eftir samrunann og tilurð Nýherja hefði það hins vegar breyst.

Erfitt að missa reynt starfsfólk

Gunnar Hansson forstjóri Nýherja sagði uppsagnirnar fyrst og fremst vera vegna þess að stafsmennirnir vildu fara að takast á við ný verkefni. "Það er ekkert óeðlilegt við það þegar fólk er lengi búið að vera í svipuðum störfum að það vilji breyta til. Þau hafa unnið mislengi hjá fyrirtækinu, flest störfuðu þau hjá IBM áður og einn var verktaki hjá fyrirtækinu áður en Nýherji var stofnaður."

Aðspurður um hvort ekki væri slæmt fyrir Nýherja að missa svo marga reynda starfsmenn á sama tíma sagði Gunnar það hlyti að vera erfitt fyrir öll fyrirtæki þegar reynt starfsfólk færi. "Það er verkefni okkar að lagfæra það og byggja upp þekkinguna. Við erum auðvitað með mikið af hæfu fólki í fyrirtækinu nú þó að þetta fólk fari," sagði Gunnar Hansson forstjóri Nýherja.