„Besta meðlæti fyrr og síðar“

Brakandi ferskur og tilbúinn.
Brakandi ferskur og tilbúinn. mbl.is/Eva Laufey

Máltíð er lítils virði ef meðlætið stendur ekki undir væntingum. Við erum stöðugt á höttunum eftir skemmtilegum útfærslum og greinilegt er að fleiri eru á sömu buxunum því Eva Laufey á heiðurinn að þessum dásemdarmaís sem hún segir að sé guðdómlega góður og bætti svo við að þetta væri besta meðlæti fyrr og síðar.

Grillaður maís í hvítlaukssmjöri

Það stytti upp í kortér í vikunni og þá var tilefni til þess að grilla, mig langar að skrifa langloku um veðrið og röfla en ég er að reyna að halda röflinu í lágmarki. Ég er samt orðin svo súr á þessu, en jæja, ég ætla að tala um góðan mat sem gleður! Ég grillaði maís í fyrsta sinn og ég skil raunverulega ekkert í sjálfri mér að hafa ekki prófað það fyrr, þetta var guðdómlega gott. Stökkur maís í hvítlaukssmjöri með fetaosti, radísum, ferskum kryddjurtum og límónusafa, namm!! Þið verðið hreinlega að prófa, ég lofa að þið eigið eftir að gera þetta aftur og aftur.

  • 2 ferskir maísstönglar í hýðinu
  • Salt og pipar
  • Chipotle parmesan-krydd
  • 50 g smjör
  • 1 hvítlauksrif
  • Basilíka eða kóríander
  • Radísur
  • Fetaostur
  • 1 límóna

Aðferð:

  1. Flettið hýðinu á maísnum niður og látið stönglana liggja í köldu vatni í um það bil 15 mínútur.
  2. Þerrið maísinn og kryddið með salti, pipar og Chipotle Parmesan-kryddinu.
  3. Setjið smávegis af olíu í pott, saxið niður hvítlauksrif og létt steikið. Bætið smjörinu út í pottinn og bræðið. Hellið smjörinu yfir maísinn og veltið stönglunum vel upp úr smjörinu.
  4. Grillið í 15-20 mínútur.
  5. Berið fram með fetaosti, enn meira smjöri, smátt skornum radísum og ferskum kryddjurtum til dæmis basilíku eða kóríander. Kreistið einnig límónusafa yfir rétt áður en þið berið fram!
Vel kryddaður og tilbúinn í stuðið.
Vel kryddaður og tilbúinn í stuðið. mbl.is/Eva Laufey
Maísinn lúrir glaður á grillinu.
Maísinn lúrir glaður á grillinu. mbl.is/Eva Laufey
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert