Guðdómlega góðir þorskhnakkar með ostasósu

Guðdómlega ljúffengur fiskréttur sem þið eigið eftir að njóta þess …
Guðdómlega ljúffengur fiskréttur sem þið eigið eftir að njóta þess að snæða. Ljósmynd/Gott í matinn

Hér er á ferðinni einfaldur, mjög bragðgóður og fallegur fiskréttur með fáum hráefnum sem oftast eru til heima, þorskhnakkar í rauðum hafrahjúp með tómat- og rjómaostasósu.

Heiðurinn af þessari uppskrift á Theodóra J. Sigurðardóttir Blöndal hjá Gott í matinn og hún er á því að við getum leikið okkur með uppskrift sem þessa og þurfum ekki að fara 100% eftir því sem stendur, það má vera lausnamiðaður og velja það sem er til að hverju sinni. Ef ekkert tandoori krydd laumast í skápnum er minnsta mál að nota aðeins paprikuna með t.d. nokkrum chili flögum bættum saman við, það dugar vel. Einnig segir hún að það sé kemmtilegt er að búa til sitt eigið rasp og nota til að mynda haframjöl eins og í þessari uppskrift til að steikja fiskinn upp úr. Það má á margan hátt búa til sitt eigið rasp. Spennandi kostir eru  kókos, kornflakes, Ritzkex, Special K og múslí afganga, svo fátt sé nefnt og blanda þeim saman við kryddum eftir smekk. 

Veljið meðlæti eftir smekk, til að mynda er gott að bera réttinn fram með fersku salati og steiktu eða ristuðu smælki.

Þorskhnakkar í rauðum hafrahjúp með tómat- og rjómaostasósu

Fyrir 4

  • 800 g þorskhnakkar (um 6 stk.)
  • Smjör eða olía eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið smjör eða olíu (eða bæði) á pönnu.
  2. Veltið fiskbitunum upp úr eggi og síðan upp úr raspinu (sjá uppskrift fyrir neðan).
  3. Setjið fiskbitana á heita pönnu og steikið þá nokkrar mínútur á hvorri hlið.
  4. Lækkið hitann aðeins.
  5. Gott er að geyma bitana sem búið er að steikja í heitum ofni á meðan allir fiskbitar eru steiktir. Þannig að allt helst heitt.

Rasp

  • 3 dl haframjöl (3-4 dl)
  • ½ tsk. salt
  • ½ tsk. svartur pipar
  • 2 tsk.paprika, mulin
  • 2 tsk.tandoori, indversk blanda
  • 1 egg til að velta fisknum upp úr 

Aðferð:

  1. Setjið haframjölið í blandara og myljið það rétt aðeins til þess að fá það fínmalað í bland við grófmalað.
  2. Blandið kryddi saman við.

Tómat- og rjómaostasósa

  • 3 laukar
  • 3 dl tómatsósa
  • ½  dl vatn, má vera meira ef vill
  • 100 g smjör, má vera meira ef vill
  • 3 msk.rjómaostur frá Gott í matinn, eða meira eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið laukinn, ýmist í sneiðar eða í litla bita. Allt eftir hentisemi.
  2. Bræðið smjörið og setjið laukinn saman við.
  3. Lækkið hitann og látið laukinn malla í smjörinu, t.d. á meðan verið er að búa til raspið.
  4. Látið laukinn mýkjast vel í smjörinu (8 - 12 mínútur).
  5. Setjið tómatsósuna og vatnið saman við lauksmjörið og hrærið.
  6. Það má alveg setja ögn af pipar saman við þessa sósu ef þannig liggur á manni.
  7. Setjið rjómaostinn saman við, látið hann bráðna í sósunni og smakkið til.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert