Ofnbakaður fiskur með rjómaosti og eplum

Ljúffengur ofnbakaður fiskur með rjómaosti og eplum.
Ljúffengur ofnbakaður fiskur með rjómaosti og eplum. Ljósmynd/Eva Laufey Kjaran

Hér er á ferðinni uppskrift að ofnbökuðum fisk með rjómaosti og eplum sem er afar ljúffengur réttur. Fátt er betra en góður fiskréttur og sérstaklega ef mikið hefur verið um steikur og saðsamar kræsingar um hátíðirnar. Þessi uppskrift kemur úr smiðju Evu Laufeyjar Kjaran sælkera og markaðs- og upplifunarstjóra Hagkaups. 

Ofnbakaður fiskur með rjómaosti og eplum

  • Smjör til steikingar
  • 800 g fiskur, t.d. ýsa eða þorskur
  • 1 stk. grænt epli
  • 1 stk. rauðlaukur
  • 1 stk. rauð paprika
  • 1 stk. græn paprika
  • 4 stk. gulrætur
  • 150 g  rjómaostur frá Gott í matinn
  • 1 msk. karríduft (1-2 msk.)
  • salt og pipar eftir smekk
  • 100 g rifinn ostur, t.d. Gratín ostur

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 190°C.
  2. Hitið smjör á pönnu við vægan hita, skerið grænmetið smátt og steikið í 2-3 mínútur. Bætið rjómaostinum við og kryddið með karríi, salti og pipar. Blandið öllu vel saman og leyfið þessu að malla við vægan hita í fimm mínútur.
  3. Skolið fiskinn vel og raðið honum í eldfast mót.
  4. Hellið grænmetisblöndunni yfir og sáldrið að endingu rifnum osti út á réttinn.
  5. Bakið við 190°C í um 25-30 mínútur.
  6. Berið fiskréttinn fram með hrísgrjónum og fersku salati. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert