Bragðgóður og seðjandi lax

Uppskriftin að ofnbakaða laxinum hennar Júlíu Magnúsdóttur heilsumarkþjálfa er afar …
Uppskriftin að ofnbakaða laxinum hennar Júlíu Magnúsdóttur heilsumarkþjálfa er afar einföld. Samsett mynd

Ef þú ert að leita að hollum, fljótlegum og einföldum kvöldverði sem tekur litla fyrirhöfn þá er heppnin með þér. Hér er frábær uppskrift að laxi með ristuðum kókosflögum sem borinn er fram með kartöflum og aspas sem kemur úr smiðju Júlíu Magnúsdóttur heilsumarkþjálfa sem heldur úti lífsstílssíðunni Lifðu til fulls. Lax getur verið alveg ofboðslega bragðgóður og seðjandi. Lax inniheldur holla fitu sem styður við hormón, heilastarfsemi og húðina svo þetta er meinholl máltíð

Ofnbakaður lax með kókosflögum, kartöflum og aspas.
Ofnbakaður lax með kókosflögum, kartöflum og aspas. Ljósmynd/Júlía Magnúsdóttir

Lax með ristuðum kókosflögum, kartöflum og aspas

Fyrir 2

Lax

  • 2 laxaflök með roði
  • ½ bolli trönuber
  • ½ bolli kókosflögur
  • Salt og pipar eftir smekk


Meðlæti

  • Íslenskar kartöflur, litlar (u.þ.b. 130 g á mann)
  • Búnt af aspas 

Aðferð:

  1. Hitið ofninn við 180°C hita.
  2. Skolið af kartöflum og skerið í hæfilega munnbita. Leggið bökunarpappír á ofnplötu og dreifið kartöflunum á hann, bætið olíu yfir ásamt salti og pipar. Dreifið aðeins úr með höndunum og setjið inn í ofn í 25-30 mínútur.
  3. Á meðan kartöflurnar eru í ofni, sjóðið vatn í potti. Skerið endana af aspasinum, u.þ.b. 1-2 cm, og hendið/endurvinnið.
  4. Setjið aspasinn í sjóðandi vatn í 2-3 mínútur eða þar til liturinn á honum er orðinn fagurgrænn.
  5. Fjarlægið aspasinn úr vatninu og leggið á ofnplötuna hjá kartöflum, bætið aðeins við olíu, salti og pipar og bakið saman í ofninum.
  6. Fínt að miða við að elda aspasinn í 15 mínútur eða þar til hann er stökkur en ekki brenndur.
  7. Setjið næst laxaflökin í eldfast mót.
  8. Kryddið með salti og pipar, bætið við trönuberjum og kókosflögum og eldið þar til fiskurinn er tilbúin eftir um það bil 15 mínútur.
  9. Berið fram eitt og sér eða með vegan majónesi eða fersku salati með fetaosti eða geitar fetaosti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert