Pálína Eyja Þórðardóttir fæddist á Akranesi 24. maí 1966. Hún lést á krabbameinsdeild LSH 21. maí 2023 eftir snarpa baráttu við krabbamein.

Foreldrar Pálínu Eyju eru Þórður Jónsson, f. 29. nóvember 1934, d. 29. október 2018, og Sigþóra Karlsdóttir, f. 25. september 1934.

Systkini Pálínu Eyju eru Þuríður, f. 3. febrúar 1954, d. 5. mars 2023; Karl, f. 31. maí 1955, maki Erna Haraldsdóttir, f. 8. mars 1957; Ragnheiður, f. 28. nóvember 1957, og Jón S., f. 28. nóvember 1963.

Pálína Eyja var gift Vagni Jóhannesi Jónssyni, f. 11. nóvember 1963. Foreldrar hans eru Jón Elías Vagnsson, f. 3. mars 1929, d. 26. janúar 2006, og Jóhanna Unnur Reimarsdóttir, f. 25. maí 1929, d. 25. mars 2016. Börn Pálínu Eyju og Jóhannesar eru: 1) Margrét Unnur, f. 18. nóvember 1995, maki Guðjón Dagur Diego Hjartarson, f. 19. júní 1994. Barn þeirra er Atlas Darri Diego Guðjónsson, f. 19. október 2022. 2) Jón Þór, f. 18. ágúst 1998. 3) Stella Þóra, f. 18. ágúst 1998.

Eftir grunnskóla stundaði Pálína nám við Fjölbrautaskólann á Akranesi í nokkrar annir en varð að hætta námi vegna endurtekinna læknisaðgerða á hné og endurhæfingar í kjölfar þeirra. Hún fluttist til Reykjavíkur árið 1988 og bjó þar síðan. Eftir að Pálína og Jóhannes hófu búskap árið 1991 starfaði hún innan heimilis og helgaði sig því og barnauppeldi eftir að börnin komu til. Dæturnar eru tvær og einn sonur sem er fatlaður, því gefur augaleið að starf Pálínu var ærið. Utan heimilisins fór mikill tími hennar og Jóhannesar í að berjast fyrir réttindum einhverfs sonar þeirra og var Pálína virk í starfi Umsjónarfélags einhverfra. Eftir að dæturnar fóru að æfa íþróttir hjá Fjölni varð hún stuðningsmaður númer eitt og hélt áfram óeigingjörnu sjálfboðastarfi hjá félaginu þó að dæturnar hættu að æfa. Hún gegndi trúnaðarstörfum hjá félaginu allt til dauðadags. Hún eignaðist marga góða vini í gegnum sjálfboðastarfið og var m.a. í svokölluðum tipp-hópi, sem hittist vikulega til að spá um úrslitin í ensku deildinni.

Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 2. júní 2023, klukkan 13.

Elsku hjartans litla systir mín verður jarðsungin í dag frá Grafarvogskirkju kl. 13.00.
Ég er búin að vera að bíða eftir að vakna, vakna af martröðinni. Martraðir hafa alltaf verið þannig að atburðarásin verður stöðugt áleitnari og ógnandi þangað til ég hrekk upp og vakna, lít svo í kringum mig og sé að allt er í sömu skorðum og var þegar ég lagðist til svefns. En í þetta skiptið bara vakna ég ekki, þetta er ekki martröð í þeim skilningi. Litla systir mín er líka farin í Sumarlandið, þangað sem stóra systir okkar fór 5. mars sl. Það er napur raunveruleiki. Palla mín fór líka um borð í skip sem hvarf sjónum okkar hér út við sjóndeildarhring, en um leið og það hvarf sjónum okkar, sáu aðrir skipið sigla í höfn hinum megin. Ég veit að Þura mín hefur tekið á móti henni þar. Það er nú meira hvað sjórinn togar í þessa fjölskyldu beggja heima megin! En ég er þess fullviss að það hafi nú verið fagnaðarfundir hjá elsku systrunum mínum báðum. Mögulega hefur verið skellt í skonsur með skinkusalati að beggja hætti.

Elsku Palla mín, þú varst yngst okkar systkina, litla systirin. Rétt tæpra 57 ára þegar þú ert kölluð burt. Það telst ekki hár aldur hér á jörðu. Ég man eftir þér sem smábarni með fallega dökka hárlokka. Það var alveg athöfn þegar var tekin ákvörðun um að klippa þig og eftir sat stuttklippt telpa sem varð allt í einu svo stór. Ég man að við sáum svo mikið eftir lokkunum fögru.
Ég man eftir að hafa verið að passa þig þegar þú dast niður af kommóðunni tveggja ára gömul og framtennurnar fóru í gegnum neðri vörina. Þá var farið til Torfa læknis og saumað saman. Ég skammaðist mín heilan helling að hafa ekki náð að grípa þig.
Þú skottaðist með mér út um allt og mundir það í raun betur en ég sjálf þegar við rifjuðum það upp. Þú komst með mér á fótboltaæfingarnar í gamla íþróttahúsinu við Laugarbraut, en þá þótti ekkert tiltökumál að taka yngri systkini með. Eftir æfingarnar var farið í Hallasjoppu á Skólabrautinni eða afasjoppu á Kirkjubrautinni og splæst í kók í gleri og lakkrísrör. Svo var rölt heim í rólegheitunum.
Ég man eftir okkur á Brekkubrautinni þar sem við krakkarnir í hverfinu lékum okkur mikið saman í útileikjum. Þá voru m.a. haldnir litlir Ólympíuleikar á róluvellinum milli Brekkubrautar og Heiðarbrautar, keppt í rólustökki, hlaupi o.fl. það að ég man.

Þú fórst í tónlistarskóla og lærðir á þverflautu. Það var mikið spilað og sungið heima í denn tid og hefði jafnvel verið bara betra að sjónvarpið kæmi ekki til sögunnar, því oft hættum við að spila og syngja þegar voru komnar fréttir.
Þú hafðir alla tíð mikinn áhuga á fótbolta, æfðir sjálf og spilaðir á yngri árum, en meiðsli komu í veg fyrir frekari iðkun. Þú varst virk í starfi knattspyrnudeildar Fjölnis í Grafarvogi þar sem þú naust þín vel í góðra vina hópi. Þú eignaðist góðar vinkonur í tipp-hópi hjá Fjölni og áttir traustar vinkonur til margra ára í saumaklúbbi.
Í gegnum tíðina hittumst við pörin oft og gerðum vel við okkur í mat og drykk, við spiluðum uppáhaldslögin okkar sem endaði yfirleitt á því að við tvær brustum í dans, sem enginn dansar eins og við og verður að segjast eins og er að þolinmæði nærstaddra var ómæld. Nú dansar þú frjáls um sali eilífðarinnar þar sem tónlistin er himnesk og tónarnir flæða um himinhvolfið; hljómburðurinn hlýtur að vera dásamlegur! Ég dansa áfram gamla dansinn okkar.
Við fórum saman til London og til uppáhalds Köben og ein ferðin sem við fórum í tvær saman, var eitt allsherjar hláturskast. Kvöld eitt var grenjandi rigning á okkur. Við gengum út af hótelinu, þú spenntir upp regnhlíf sem skaust upp eins og flugeldur og þú stóðst eftir með stöngina! Við hlógum að þessu allt kvöldið. Gátum ekki einu sinni hætt þó við færum að fá okkur að borða, því við geymdum leifarnar af regnhlífinni fyrir utan veitingastaðinn. Það sem var gaman!
Þú varst svo barngóð og mikil húsmóðir í þér. Hristir fram úr erminni bakkelsið eins og ekkert væri, sem fékk mig næstum til að fela kexpakkana eða snúðana úr bakaríinu sem ég keypti sjálf til að eiga með kaffinu. Ekki að það sé slæmt að eiga kexpakka. Alltaf varstu hugsunarsöm og hugsaðir um systkinabörnin þín eins og þín eigin. Hæfileikar þínir fengu aldeilis að njóta sín áfram þegar þú og Jói þinn eignuðust börnin ykkar þrjú og þið önnuðust af mikilli natni. Það er mér um megn að skilja að þú skulir ekki fá að vera hér lengur hjá þeim og litla Atlasi Darra, fyrsta ömmu- og afabarninu; lífið virtist allt vera að brosa við ykkur öllum. Missir þeirra er mikill.
Þú og mamma voruð alltaf tengdar og og töluðust við nær undantekningalaust á hverjum degi. Missir mömmu er stór að horfa á eftir frumburði sínum og yngsta barni á tveimur mánuðum. Eina sem hægt er að segja um það er að allt hefur sinn tíma undir himninum og öllu og öllum er afmörkuð stund. Við ráðum engu.
Við deildum sama áhuga á andlegum málum. Við pældum mikið í þeim í gegnum tíðina og þau voru ófá skiptin sem var kíkt í rúnirnar. Þú varst mjög næm alla tíð og sinntir þeim hæfileikum æ meira eftir því sem árin liðu. Þú og Nonni bróðir voruð mjög tengd og nutuð ykkar vel m.a. í að sinna þeim hugðarefnum saman.
Megnið af ævinni vorum við í miklum samskiptum þó að lífsins ólgusjór hafi truflað samskipti okkar um tíma. Þau voru þó komin í farveg aftur og fögnuðum við saman síðustu áramótum með okkar gamla lagi og á ég frá því dýrmætt myndbrot.
Hverjum hefði dottið það í hug að þú værir dauðvona sjálf þegar þú komst að dánarbeði Þuru systur? Enda er enginn að hugsa slíkt. Þvílíka höggið sem það var að frétta að þú væri undirlögð í krabbameini bara eins og hendi væri veifað og ekkert hægt að gera. Og svo varstu farin í ferðina stóru.
Hversu oft þurfum við að fá þessa áminningu, að lífið sé eitt augnablik sem við eigum að nýta og lifa af hjarta og sál, NÚNA? Horfa inn á við, þakka fyrir það sem við höfum og lifa eins og hjartað býður okkur að gera?
Elsku hjartans Palla mín. Takk fyrir alla okkar samveru í gegnum tíðina. Þú ert lögð af stað í næsta áfanga miklu fyrr en nokkurn óraði fyrir en þú varst svo þroskuð sál að þú þurftir líklega ekki að vera lengur hér. Megirðu ævinlega vera umvafin kærleika og ljósi á vegi þínum um eilífðina.
Þín systir,

Ragnheiður (Ranka).