Borðtennis

Stefán Stefánsson

Borðtennis

Kaupa Í körfu

BORÐTENNIS er vaxandi íþróttagrein en unglingastarf er nú aðallega stundað í tveimur félögum á höfuðborgarsvæðinu, KR og Víkingi en vísir að deild hjá Stjörnunni í Garðabæ. Deildirnar eru öflugar og góðir þjálfarar sjá um að allir læri listina. Minna er um unglingastarf úti á landi en þó er lífleg deild rekin á Hvolsvelli undir nafni Dímons, í Reyholti og hjá Akri á Akureyri að ekki sé minnst á Flateyri. Auk þess hafa fatlaðir náð langt á mótum erlendis. Hjá KR æfa um 70 krakkar, sem er talsverð fjölgun frá í fyrra. Aðstaðan er góð í íþróttahúsi KR en samt þarf að skipta hópnum upp í 9 flokka til að geta sinnt krökkunum betur. Morgunblaðið brá sér í heimsókn og fylgdist með nokkrum af þessum hópum spreyta sig, ekki bara við keppni heldur alls kyns borðtennisleiki enda var fjörið mikið. Leiðin lá næst til Víkinga. Í fyrstu leit út fyrir að blaðamaður hefði villst af leið því í æfingasalnum var kökuát og kókdrykkja í hávegum höfð en við eftirgrennslan kom í ljós að tveir af drengjunum í félaginu áttu afmæli. Krakkarnir gerðu sér því glaðan dag og formaður deildarinnar mátti gjöra svo að borga fyrir herlegheitin en þau voru ekki án fórna því fyrst skyldi syngja - síðan kökur. Krakkarnir létu sig hafa það. MYNDATEXTI: Bergþór Frímann Sverrisson og Róbert Eyþórsson áttu báðir afmæli.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar