Edda Erlendsdóttir og hópurinn Le Grand Tango

Edda Erlendsdóttir og hópurinn Le Grand Tango

Kaupa Í körfu

Þótt undarlegt kunni að virðast dansa hjónin Edda Erlendsdóttir, píanóleikari, og Olivier Manoury, tónskáld og bandoneonleikari, ekki tangó. Undarlegra en ef önnur hjón ættu í hlut í ljósi þess að árið 1981 héldu þau tangótónleika fyrir troðfullu húsi þrjú kvöld í röð í Félagsstofnun stúdenta og Leikhúskjallaranum. Með í spilinu voru þau Richard Korn kontrabassaleikari, Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari og Helga Þórarinsdóttir víóluleikari. Þau hafa samt prófað. „Hann sagði að ég hoppaði alltof mikið og ég kvartaði yfir því að hann reyndi of mikið að stýra mér. Þannig var endirinn á stuttu danssamstarfi okkar hjóna fyrir mörgum árum á dansleik að loknum tangótónleikum sem við héldum í Svíþjóð,“ segir Edda kímin. Samstarfið er til allrar hamingju á allt öðrum og samstilltari nótum þegar þau spila saman á tónleikum, hvort með sitt hljóðfærið. Eins og þau ætla til dæmis að gera með tangóseptettinum Le Grand Tango kl. 16 á sunnudaginn í Norðurljósum í Hörpu í tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar. „Þegar við héldum okkar fyrstu tangótónleika tengdi fólk tangó yfirleitt bara við samkvæmisdans, og þótti skrýtið að halda tónleika kennda við tangó þar sem ekki væri dansað,“ rifjar Edda upp. Þau Olivier létu staðar numið í tangótónleikahaldi næstu árin, en hófu aftur leikinn árið 1994 og hafa síðan haldið allmarga tangótónleika hér heima og erlendis og þá með mismunandi og mismörgum hljóðfæraleikurum.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar