c

Pistlar:

17. maí 2011 kl. 11:30

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Enginn tími fyrir æfingu? 6 góð ráð við því.

Lóðalyftur losa þig við aukakílóin

1. Taktu frá 2 hádegi í viku fyrir æfingu. Ef þú nærð ekki að skjótast í líkamsræktarstöðina þá kemur skokk eða röskur göngutúr í nágrenni við vinnustaðinn að góðu gagni. Það mun koma þér á óvart hve þú munt fyllast af orku og koma endurnærð/ur að verkefnum dagsins eftir hádegisæfinguna.

2. Hjólaðu til og frá vinnu 1x í viku. Ef það er sturta á vinnustaðinum geturðu skellt vinnufatnaðinum í bakpoka hjólað eins og vindurinn og verður hressasti starfsmaðurinn í vinnunni þann daginn. Mundu eftir að taka auka bol til að þú þurfir ekki að fara í sveitta bolinn þegar þú hjólar aftur heim.

3. Merktu æfingatímana í dagatalið þitt.   Ef þú tekur frá tíma fyrir þjálfunina þína eins og hverja aðra mikilvæga  fundi þá er tíminn frátekinn og ekkert sem stoppar þig.   Þú forgangsraðar í þínu lífi og æfingatíminn er tími fyrir ÞIG til að rækta heilsu þína og hlaða þig orku og vellíðan.

4. Vinatrixið bregst ekki.   Það er aldrei nægur tími til að hitta vinina og rækta vinskapinn.  Æfingar með vini eða vinum er frábær leið til að sameina skemmtilega samverustund og heilsuræktina og skemmtileg tilbreyting frá kaffihúsahitting.  Um leið myndast líka ákveðið aðhald að mæta.

5. Styttri æfingar virka líka.  Ekki detta í allt eða ekkert hugsunina.  20 mínútna æfing getur skilað þér mjög góðum árangri ef þú nýtir tímann vel.  Stuttu æfingarnar snúast um að taka hressilega vel á í snörpum stuttum lotum.  Dæmi:  Skokkaðu í 3-4 mín til að hita þig upp.  Hlauptu svo hratt í 1 mín. og enn hraðar í 1 mín. í viðbót og gakktu í 1- 1 1/2  mínútu.  Endurtaktu þetta í samtals 16 mín.

Hlaup og ganga til skiptis er góð leið til að komast í gott form

6. Farðu fyrr í háttinn.   Ef þú stendur sjálfa/n þig að því að eyða kvöldunum gjarnan í innihlaldslítið sjónvarpsgláp eða Facebook hangs gæti verið góð hugmynd að breyta til, fara fyrr í háttinn og vakna fyrr og hefja daginn á góðri líkamsrækt.  Fólk sem byrjar daginn á hreyfingu lofar það í hástert og kveður það bestu leiðina til að fara út í daginn hlaðið orku og eldmóði.