c

Pistlar:

5. september 2023 kl. 13:27

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

9 leiðir til að blómstra eftir fertugt

Ertu komin yfir fertugt og finnst líkamsástandið vera á niðurleið?  Ekki örvænta!  Þú getur verið upp á þitt besta einmitt á árunum eftir fertugt.  Konur sem komnar eru yfir fertugt búa yfir þroska og ró sem eykur á innri og ytri fegurð þeirra og útgeislun.

Hér eru nokkur góð ráð  hvernig hægt er að verða flottust eftir fertugt.

Aðlögunar er þörf
Aðlagaðu þig að stöðugum áskorunum og streitu sem lífið hefur í för með sér.  Eftir fertugt eiga sér stað ýmsar breytingar á líkama þínum og hugarástandi.  Sumar konur fyllast vonleysi og þeim finnst þær missa tökin þegar spegilmyndin fer að taka breytingum og þær hættar að muna hvar þær lögðu frá sér símann.  Láttu slíkt ekki henda þig. Spyrntu við fótum, endurhugsaðu hlutina og settu stefnuna á að hámarka andlega og líkamlega heilsu þína - stjórnaðu því sjálf hverjar breytingarnar verða á heilsu þinni og útliti. 

Ábyrgð á eigin líðan

Þú berð ábyrgð á þinni heilsu og vellíðan, andlegri og líkamlegri. Það er alveg ljóst að það mun enginn sjá um að bóka tíma fyrir þig í sjálfsrækt. Vertu einbeitt og láttu ekkert trufla þínar stundir sem þú hefur tekið frá til að fara á æfingu, nudd, heitt bað, fegurðarblund eða annað sem bætir heilsu þína.  Vertu tilbúin að segja “Nei, því miður, ég er upptekin”. Slíkur heilsu tími á að vera daglegur þáttur í þínum lífsstíl og mikilvægt að þú áttir þig á nauðsyn þess að forgangsraða tíma þínum með það í huga.

Æfðu markvisst og reglulega allt árið

Stundaðu alhliða þjálfun fyrir allan líkamann í hverri viku.  Of margar konur æfa lítið, óreglulega og gera gjarnan sömu gömlu æfingarnar ár eftir ár og skilja ekki hvers vegna þær eru löngu hættar að upplifa árangur æfinganna. Ekki hika við að leita eftir aðstoð fagfólks til að hrista upp í æfingakerfinu svo þú fáir heildræna þjálfun, hámarkir mögulegan árangur þinn af æfingunum og komist út úr stöðnun. Lykilatriði er að stokka reglulega upp æfingarnar og gefa líkamanum nýjar áskoranir með reglulegu millibili. Slíkt mun bæta efnaskipti líkamans, þú ferð að sjá og finna árangur sem þú hefur e.t.v. ekki upplifað í langan tíma. Ótal margt skemmtilegt er í boði til að styrkjast, liðkast og auka orkuna, fjölbreyttir hóptímar fyrir byrjendur og lengra komna, fjölmargar æfingar bæði innan- og utandyra, valið er þitt.  Þú finnur án efa eitthvað sem þér líst vel á. Kýldu á þetta og þinn fertugi plús kroppur blómstrar sem aldrei fyrr,  verður fullur af lífi og orku.

Fæðuvenjur skipta sköpum

Settu þér markmið að minnka sykurneyslu til muna.  Sneiða hjá sætindum, skyndibitafæði og unnum matvælum að mestu leyti og gættu þess að fá nægilegt magn af próteini úr fæðunni. Rannsóknir hafa sýnt að við þurfum meira magn af próteini með aldrinum. Gott er að miða við að fá sem svarar ca 1,5 grömm af próteini f. hvert kg. af líkamsþyngd. Hugaðu að því að neyta fjölbreyttra tegunda grænmetis daglega og hafðu auga á heildarmagni matar sem þú neytir.  Gott er að miða almennt við að viðhalda góðum aga á fæðuvenjum 80% af tímanum og hafa smá svigrúm annað slagið fyrir annað sem e.t.v. fellur ekki inn í hollustu rammann.

Kvöldsnarl skaðar heilsuna

Eftir fertugt þarftu ekki sama hitaeiningafjölda líkt og áður þegar þú varst e.t.v. líkamlega virkari og efnaskipti líkamans hraðari.  Margar konur gera sér ekki grein fyrir að þær borða of margar hitaeiningar yfir daginn og er kvöldnasl vandamál hjá mjög mörgum sem henda sér gjarnan í sófann strax eftir kvöldmat og líta á kvöldin sem tíma til að launa sér amstur dagsins með góðgæti". Þetta þýðir oft á tíðum nart í sætindi og óhollustu fram að háttatíma.  Slíkt er afskaplega slæmt fyrir heilsuna. Líkur eru á lélegri svefngæðum, lakari efnaskiptum með blóðsykurssveiflum inn í nóttina og ávísun á uppsöfnun aukakílóa.  Miðaðu við að snæða kvöldverð í fyrra falli og „loka“ eldhúsinu eftir það og hefja næturföstu. 

Endurmetum “eðlilegt”
Þú ert ekki tvítug lengur.  Líkami þinn er að ganga í gegnum breytingar, sjónin er ekki eins góð og áður og mittið ekki eins mjótt. Hættu að líta í baksýnisspegilinn og svekkja þig  á því sem ekki er eins og áður. Taktu frekar ákvörðun um að vakna á hverjum degi með gleði og þakklæti í hjarta yfir því sem er jákvætt. Þú ert hér í fullu fjöri og ekkert annað að gera í stöðunni en að vera glöð og þakklát fyrir líkamann sem kemur þér í gegnum daginn.  Það er eina vitið að aðlaga sig að breyttum aðstæðum með jákvæðu viðhorfi.

Hættu að stíga á vigtina

Líttu í spegilinn og sjáðu sjálfa þig blómstra, fulla af eldmóði, orku og jákvæðni með skýr markmið alla daga að hlúa að sjálfri þér og heilsu þinni, andlegri og líkamlegri.  Að stíga á vigt í tíma og ótíma getur haft vond áhrif á andlegu hliðina, enda veit vigtin ekki muninn á vöðvavef og fituvef og því ekki góður mælikvarði á líkamsástand. 

Skipuleggðu og gerðu áætlun um sjálfsræktina þína

Ef þú gerir ekki áætlun eru líkur á því að tíminn þinn fari í annað en þig sjálfa.  Áætlaðu tíma fyrir það sem nærir þig og gefur þér orku.  E.t.v. þarftu á slökun og streitulosun að halda eða tíma til að setjast niður og spjalla við góðar vinkonur. Allir þessir þættir skipta máli og hafa áhrif á líðan þína og sjálfsmynd. Áætlunin þín þarf að snúast um þínar þarfir.  Ef þú vilt setja þér markmið í líkamsþjálfun hafðu þá samband við fagfólk og leitaðu ráðlegginga.

Finndu tíma til að njóta þín, bara vera til  

Hvernig væri að gefa sjálfri þér reglulegar stundir fyrir streitulosun og slökun?  Finndu þér rólegan stað til að lesa, hlusta á góða tónlist og loka augunum, fara í göngu og njóta þess sem fyrir augu ber eða gera slakandi jóga teygjuæfingar.  Þú þarft á reglulegum kyrrðarstundum að halda.  Konur hafa tilhneigingu til að vera stöðugt að gera eitthvað.  Að reka heimili og hugsa um fjölskylduna, börnin, e.t.v. aldraða foreldra, veika ættingja, heimilishundinn o.s.frv.  Verkefnin eru endalaus og það er innbyggt í konur að vera ávallt með eitthvað fyrir stafni.  Sjáðu fyrir þér stöðvunarskilti. Farðu á kyrrlátan stað og njóttu þess að vera og gera ekkert.  Þú átt skilið gleði, hamingju og lífsfyllingu.  Hleyptu ást, gleði og hlátri inn í líf þitt daglega.  Finndu kraftinn í sjálfri þér á hverjum degi og láttu ekkert stöðva þig í að ná þínum markmiðum, því þetta er jú allt undir þér sjálfri komið. 

www.hreyfing.is agusta@hreyfing.is