c

Pistlar:

27. maí 2011 kl. 16:29

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Vökvakílóin hvimleiðu - Bumba og baugar - Hvað er til ráða?

regluleg og góð vatnsdrykkja er lykill að góðum vatnsbúskap

Vökvasveiflurnar í líkamanum geta verið mikið leiðinda fyrirbæri. Þú vaknar einn daginn og lítur í spegil og sérð þitt fagra andlit slétt og fínt og allt eins og það á að vera.   Næsta morgun gæti hins vegar blasað við þér í speglinum, þér til mikillar armæðu, þrútið andlit, sokkin augu, baugar, kinnpokar og undirhaka. Þegar líður fram á morguninn þá smám saman sígur vökvinn niður úr andlitinu og niður á aðra staði s.s. framan á kvið, utan á læri,mjaðmir, rass og jafnvel kálfa. Gallabuxurnar eru þrengri, og þú kemst e.t.v. ekki með góðu móti í uppáhalds leðurstígvélin þín sökum þrota á kálfum.

Þetta ástand þekkja margar konur. Vökvakílóin koma og fara, oft að því er virðist án skýringa og geta safnast jafnvel allt upp í þrjú talsins. Það gerir enga konu glaða!

Vökvasöfnun tengist gjarnan hormónasveiflum í líkamanum. Mjög algengt er að nokkrum dögum fyrir blæðingar þá safnast vatn undir húðina í líkamanum, gjarnan 1-2 kg og í einstaka tilfellum meira (fer eftir líkamsþyngd). Um leið og blæðingar hefjast þá byrjar líkaminn smám saman að losa sig við þessa umfram vökvasöfnun og eftir að blæðingum lýkur er yfirleitt vökvabúskapurinn kominn í eðlilegt horf.

Fleiri ástæður en þetta mánaðarlega geta verið fyrir að líkaminn verður þrútinn og bólginn.

1. Of mikil saltneysla stuðlar að vökvasöfnun. Þegar þú borðar fullan poka af söltuðu poppi, snakki eða öðrum saltríkum mat þá er líklegt að þú sjáir það óskemmtilega í speglinum næsta morgun.

Lausn: Vertu meðvituð um saltnotkun þína og stilltu henni í hóf.

2. Of mikil neysla á einföldum kolvetnum kolvetnum ýtir gjarnan undir vökvasöfnun. Hvít grjón, hvítt brauð, kökur, ís og sætindi valda hækkun á blóðsykri sem veldur því að líkaminn heldur í saltbirgðir sínar og saltið bindur vökvann í líkamanum.

Lausn: Veldu heldur heilnæmari kolvetni s.s. ávexti, grænmeti sem er vitanlega í alla staði hollari kostur og ekki er verra að þú lítur betur út og líður betur!

3. Streita getur einnig verið valdur að því að líkaminn safnar umframvökva undir húðina. Of lítill svefn eða lélegur svefn hefur sömu áhrif.

Lausn: Tryggðu þér ávallt 7-8 tíma svefn. Ef það er streituástand í lífi þínu gefðu þér tíma til að stunda slökun eins oft og þú getur, fara reglulega í líkamsrækt og göngutúr og anda að þér súrefni.

4. Lyf geta verið vökvabindandi í líkamanum.

Lausn: Ef þú ert að taka lyf og finnur oft fyrir þrota í líkamanum skaltu ráðfæra þig við þinn lækni um hvort e.t.v. sé til annað lyf sem þú getur tekið sem hentar þér betur.

5. Ef þú átt við meltingavandamál að stríða og hægðir e.t.v. óreglulegar er mjög líklegt að þú finnir vökvasveiflur í líkamanum því tengdu.

Lausn: Prófaðu að taka inn trefjar (Husk) daglega m. vatni. Góð melting og daglegar hægðir eru undirstaða góðrar heilsu og vellíðunar.

Vatnsdrykkja er lykilþáttur í því að halda vatnsbúskapnum í góðu jafnvægi.  Eins mótsagnarkennt og það kann að hljóma þá er það fyrsta sem þú átt að gera þegar þú finnur fyrir aukinni vökvasöfnun í líkamanum er að fá þér vatn að drekka.  Vatnið skolar út úr líkamanum þeim söltum sem binda vatnið. Góð regla er að drekka 6-8 glös af vatni á dag.  Þetta veistu.  En gerir þú það?