c

Pistlar:

21. ágúst 2011 kl. 22:24

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Mittismálið í lag - Gullnu ráðin fimm

collage-aramot_net.jpgSumarfríið er búið hjá mörgum, skólarnir að byrja og tími til kominn að drífa sig aftur reglulega í ræktina. Grillveislur, hvítvínsgutl og letilíf geta haft ergileg áhrif á mittismálið. Það var gott á meðan á því stóð en nú er kominn tími til að koma sér aftur í fína formið. Hér eru 5 góð ráð, marg prófuð og reynd og snar virka.

1. Það er aldrei of oft sagt!   Settu þér raunhæf markmið. Þú ert margfalt líklegri til að ná árangri ef þú ert með markmið til að keppa að. Settu þér lítil markmið sem þú veist að þú getur náð innan 2-4 vikna. Verðlaunaðu þig þegar markinu er náð (ekki matarkyns verðlaun!) og settu þér strax ný markmið.

2. Taktu frá 3-5 klukkustundir á viku sem eru fráteknar eins og mikilvægir fundir og láttu ekkert trufla þá tíma. Skráðu þá í dagbókina þína og láttu þá vera í forgangi.  Þetta er ÞINN tími til að bæta heilsu þína og líðan.  

3. Vertu fullkomlega hreinskilin/n við sjálfa/n þig um þitt eigið líkamsástand.  Veldu þér tegund þjálfunar sem hentar þér og gættu þess að fara ekki af stað með of miklum látum.  Margir eru aðeins of metnaðargjarnir þegar farið er að æfa eftir langt kyrrsetutímabil og hreinlega ofbjóða skrokknum, geta hvorki sest né gengið í marga daga eftir fyrstu æfinguna og gefast þá fljótt upp og hætta.   Einbeittu þér að því að taka þjálfunina skref fyrir skref og taktu stöðuna reglulega og vertu ánægð/ur með þann árangur sem þú hefur náð hverju sinni.

4. Myndaðu þitt eigið stuðningsnet.   Fólk sem æfir með félaga eða í hóp er mun líklegra til að hafa gaman af því að æfa og gera þjálfun að reglulegum þætti í lífi sínu.   Fáðu jákvæðu, hvetjandi týpuna í vinahópnum með þér sem smitar með sér jákvæða "við förum létt með þetta" andanum.  

5. Taktu mataræðið föstum tökum.  Það er ekki nóg að hamast í ræktinni ef sjoppufæðið er reglulega á matseðlinum þínum.  Ferskir ávextir, grænmeti, magurt kjöt og fiskur og holl fita ætti að vera uppistaðan í fæðunni þinni ásamt því að drekka vel af vatni daglega.

Gullnu ráðin fimm eru ósköp einföld og virka vel.  Það eina sem þarf með þeim er ÞÍN ákvörðun um að taka skrefið í átt að heilbrigðari lífsstíl.

Ef þú ert að leita að árangursríkri þjálfunarleið fyrir þig, hvet ég þig til að kíkja á www.hreyfing.is.  Úrval vandaðra og spennandi námskeiða fyrir konur og karla hefjast 29. ágúst.   Einnig eru þjálfarar boðnir og búnir að veita þér ráðgjöf.