c

Pistlar:

2. október 2011 kl. 14:52

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

5 mýtur um þjálfun - veist þú hið rétta?

running-on-treadmill

Vinsælt er að skiptast á skoðunum um hvernig best er að koma sér í gott form, komast í kjörþyngd og halda sér og margir sem hafa ýmislegt um það að segja.  Almennt er fólk orðið talsvert upplýst í þeim efnum.  Þó eru þvi miður alltaf gamlar mýtur sem lifa góðu lífi og löngu kominn tími til að koma þeim út úr heiminum.  

1. BESTA LEIÐIN TIL AÐ BRENNA FITU ER AÐ STUNDA ÞOLÞJÁLFUN
Jú það er rétt að þolþjálfun brennir meiri fitu en styrktarþjálfun á meðan á æfingunni stendur. En æfingar með lóðum eyða upp meiri fitu þegar til lengdar lætur. Rannsóknir sýna að klukkustundar styrtkarþjálfun með lóðum brennir 100 fleiri hitaeiningum á sólarhring en þjálfun án lóða. Því meiri vöðvamassi sem líkaminn hefur því meiri fitu brennir hann.

2. LÓÐALYFTINGAR GERA KONUR SVERARI
Vöðvar eru þéttari í sér en fita og ummálsminni. Því meiri vöðvamassi sem er til staðar því stinnari verður líkaminn og hæfari til að brenna hitaeiningum.  Slæmar matarvenjur og kyrrsetulíf eru vissulega mun líklegri til að gera þig sverari.

fat-vs-muscle
Myndin sýnir sömu þyngd af vöðva og fitu.  Fitan er mun ummálsfrekari.

3. ÓÞJÁLFAÐIR VÖÐVAR BREYTAST Í FITU
Líkaminn virkar ekki þannig.  Vöðvavefur og fituvefur eru tveir ólíkir vefir.  Ef þú hættir að styrkja vöðvana rýrna þeir og þéttleiki þeirra minnkar.  Hlutfallið á milli fituvefs og vöðvavefs breytist til hins verra.  Með óbreyttum neysluvenjum eru líkur á því að fitufrumurnar stækki því grunnbrennslan hefur minnkað með rýrnandi vöðvum.  

4. MIKIÐ PRÓTEIN ÞARF TIL AÐ VÖÐVAR STÆKKI
Prótein er uppbyggingarefni líkamans og stuðlar að stækkun vöðva.  En því má ekki gleyma að til þess að vöðvar stækki þarf einnig að neyta hæfilegs magns kolvetna og fitu.  Ef líkaminn fær ekki nóg af kolvetnum og fitu úr fæðunni mun hann nota próteinbirgðir líkamans sem orku.  Til að koma í veg fyrir að líkaminn gangi á vöðvamassa líkamans þarftu að gæta þess að hafa rétt jafnvægi í fæðunni þinni úr öllum orkuflokkum.

5. KVIÐÆFINGAR BRENNA FITU AF  KVIÐNUM
Þessi mýta er einna lífseigust af öllum: "Því meiri kviðvöðvaæfingar sem ég geri, því flatari verður maginn". Þetta er ekki svo einfalt.   Þú getur hamast við að gera 1000  endurtekningar af öllum kviðæfingum heimsins upp á hvern dag án þess að "magafitan" minnki nokkuð.  Fitan er eins og blóðið, tilheyrir öllum líkamanum en ekki einstökum svæðum.  Þú græðir ekkert á því að ofþjálfa ákveðin svæði nema auka líkurnar á meiðslum.   Þú losnar við fitu hvar sem hún er á líkamanum með fjölbreyttri reglulegri þjálfun og með því að vanda til við neysluvenjur og neyta hæfilega margra hitaeininga. 

Langar þig að komast í þitt besta form?  Ný árangursrík námskeið eru að hefjast í Hreyfingu.  Kíktu á www.hreyfing.is Þar geturðu einnig smellt á  "FRÍR PRUFUTÍMI".