c

Pistlar:

29. nóvember 2011 kl. 16:01

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

"Just do it" viðhorfið.

1086238_show_defaultErtu að hugsa um að fara í ræktina? Ekki gefa heilabúinu þínu ráðrúm fyrir frekara humm og ha. Hættu að hugsa og drífðu þig af stað.

Fólk sem hefur gert reglulega þjálfun af sínum fasta lífsstíl segist ekki lengur hugsa um hvort það eigi að skella sér á æfingu.   Það bara fer.   Gefir þú þér færi á að hugsa um það mun þér líklega reynast auðvelt að tala þig ofan af því.  En ef þú útilokar þær vangaveltur í kollinum á þér gerir þú auðveldlega ræktina að föstum og óumsemjanlegum þætti í lífi þínu.

Kunnuglegar afsakanir

Við þekkjum öll afsakanirnar. Of mikið að gera, er þreytt/ur, hef ekki orku, leiðinlegt, ég kann ekki, of erfitt, sé engan árangur,vont veður, hundurinn át íþróttaskóna (jú þessi hefur líka verið notuð!) o.s.frv. Þær verða alltaf til staðar.  Okkar er valið hvort við grípum til þeirra eða ekki.

Hvað velur þú?

Það er gott að hafa val.  Flest veljum við hvernig við kjósum að eyða tímanum okkar, a.m.k. frítímanum, og alla daga stöndum við frammi fyrir ýmsum valkostum sem hafa áhrif á okkar heilsu.   Tekurðu lyftuna eða stigana? Velurðu æfingu eða sófann?   Hve mikið langar þig til að vera í góðu líkamlegu standi?   Skiptir það þig máli að geta skokkað upp Esjuna eða leikið þér í fótbolta með börnunum eða barnabörnunum?  

Hver og einn ber ábyrgð á eigin heilsu 
Betri svefn, lægra kólesteról, meiri orka, lægri blóðþrýstingur, betra sjálfstraust, aukinn styrkur, meira þol, aukinn liðleiki, betra kynlíf, sterkari bein, betra jafnvægi, betra kynlíf er aðeins brot af því jákvæða sem hlýst af því að rækta líkamann.  Það er engu að tapa, allt að vinna.  Skelltu þér á æfingu!