c

Pistlar:

25. febrúar 2012 kl. 13:57

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Lætur þú blekkjast?

istock_rf_photo_of_high_protein_salad-1.jpgPrótín eru líkamanum nauðsyn.  Ekki aðeins sem byggingarefni eða orka fyrir frumurnar heldur gegna þau fleiri mikilvægum hlutverkum, t.d. mynda mótefni í líkamanum sem óvirkja bakteríur,  flytja efni um líkamann t.d. blóðrauða og mynda nauðsynleg hormón og ensím (hvata).

Ýmsar misvísandi upplýsingar og skilaboð eru uppi um prótín.  Auglýsingar gefa til kynna að mikilvægt, jafnvel nauðsynlegt, sé að neyta prótíndrykkja til að komast í betra form.   Hér eru 5 staðreyndir um prótínneyslu sem gagnlegt er að vita.

1.  Íþróttafólk getur fengið næg prótín úr fæðunni

Prótín í fæðu íslendinga eru talin almennt mjög rífleg eða um 18% orkunnar sem við neytum en mælt er með daglegri neyslu sem svarar um 0,8g af prótínum á hvert kg líkamsþyngdar.  70kg manneskja ætti því að neyta 56g af prótínum daglega en algengt er að neyslan sé u.þ.b. helmingi meiri.  Íþróttafólk þarf meira eða allt að 1,6g á hvert kg líkamsþyngdar eftir ákefð og tíðni æfinga.  Flestir geta mætt prótínþörfinni með fjölbreyttri fæðu.   T.d. þyrfti íþróttamanneskja sem vegur 70kg ekki meira en 112g af prótínum á dag og gæti náð því t.d. með því að borða tvær kjúklingabringur, innihaldið úr einni túnfisksdós og eitt egg.

2. Prótíndrykkir geta haft alvarleg áhrif á heilsuna
Ef marka má rannsóknir sem sagt er frá í skýrslu Consumer Reports í Bandaríkjunum, geta ýmis efni verið í prótíndrykkjum sem geta reynst skaðleg ef neytt reglulega.  Allir drykkir sem rannsakaðir voru innihéldu skaðlega þungmálma sem geta haft eitrunaráhrif á líffæri.  Skilaboð skýrslunnar eru skýr; slepptu prótíndrykkjum og fáðu helst prótín úr fæðunni.

3. Mikil prótínneysla getur valdið miklu vökvatapi.
Þegar þú eykur prótín í fæðunni þarftu að drekka meira vatn.  Prótín hafa ákveðna efnasamsetningu í för með sér sem kolvetni og fita hafa ekki.   Þegar líkaminn vinnur að niðurbroti prótíns verður auka álag á líkamann við að koma umræddri efnasamsetningu í það form sem nýrun ráða við að vinna úr.  Sú vinna krefst vökva og mikilvægt er að bæta upp vatnstapið.  Þorsti er oft á tíðum ekki nægilega góð vísbending um hvort líkaminn er nægilega vel vökvaður.  Drekktu því meira vatn ef þú eykur prótín í fæðunni.

4. Prótín getur endað í fitugeymslunum.
Vð þekkum það að líkaminn umbreytir kolvetnum auðveldlega í form fitu til geymslu en prótín umbreytast ekki eins auðveldlega.  En ef þú neytir þeirra í miklum mæli munu þau líka fara til geymslu í fitufrumunum.  Það er ólíklegra að þau endi þar en ef þú neytir fleiri hitaeininga en líkaminn nýtir geta prótín endað í formi skvaps á einhverjum líkamshluta. 
Próteinrík fæða getur hjálpað í baráttunni við aukakílóin, í réttum skömmtum, með því að "stilla af" insúlín framleiðslu og hún er auk þess saðsöm og getur því stuðlað að því að þú neytir færri hitaeininga.

5. Kolvetni eru jafn mikilvæg og prótín til að viðhalda vöðvamassa.
Sumir reyna að losa sig við aukakíló með því að snarfækka hitaeiningum og kolvetnum og dvelja löngum stundum við erfiðar æfingar.  Þó að þú fáir næg prótín úr fæðunni getur farið svo að líkaminn gangi á vöðvamassa séu stundaðar langar og erfiðar þolæfingar og ekki borðað nægilegt magn kolvetna.   Þegar glykogen birgðir líkamans eru af skornum skammti þá mun líkaminn brjóta niður vöðvavef til að mynda orku.  Slíkt gerist þegar æfingar eru mjög krefjandi og hiteininganeysla ekki næg til að mæta krefjandi þörfinni.

Niðurstaðan er þessi:  Þú þarft ekki að kaupa prótín í pökkum, dollum, fernum og stykkjum.  Þú getur fengið öll prótín sem þú þarft úr heilnæmri, fjölbreyttri og bragðgóðri fæðu. 
Láttu ekki blekkja þig.