c

Pistlar:

22. ágúst 2012 kl. 15:45

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

5 bestu ráðin til að koma línunum í lag

anna_og_gurry.jpgEf þú ert í hópi þeirra sem tóku sér hlé frá ræktinni í sumar, þá er klárt að nú ættirðu að drífa þig af stað aftur.  Of langt hlé verður til þess að það verður sífellt erfiðara að koma sér í gang á ný.

Hér eru mín 5 bestu ráð til að koma línunum í lag eftir værðarlíf sumarsins.

Æfingaplan er nauðsyn
Sestu niður og útbúðu þína persónulegu æfingaáætlun.  Skrifaðu niður hvers kyns þjálfun þú hyggst stunda, hve oft í viku og á hvaða tíma.  Þegar áætlunin er komin á blað snýst verkefnið um að fara eftir henni.  Ekki vanmeta gagnsemi þess að skipuleggja líf þitt.

Æfingafélagi gerir gæfumuninn
Veldu þér þjálfun sem þér þykir skemmtileg og finndu þér æfingafélaga.  Það er margsannað að þeir sem æfa með félaga stunda æfingarnar betur og oftar og hafa meira gaman af en þeir sem æfa einir og út af fyrir sig.

Eftirbruninn gefur extra árangur
Stundaðu reglulega snöggálagsþjálfun.  Hreyfðu þig af  miklum krafti (t.d. hlauptu eins hratt og þú getur eða sippaðu með háum hnélyftum)  í 60-90 sekúndur til skiptis við minna álag í 2-3 mínútur.  Endurtaktu í samtals 30-40 mínútur.  Með þessum hætti myndast svokallaður „eftirbruni“ í líkamanum og áhrif æfinganna þinna geta margfaldast.

Hreinsaðu til í mataræðinu.
Taktu til í eldhússkápunum og ísskápnum.   Það er ósköp einfalt, ef freistingarnar eru til staðar er mjög líklegt að þær muni tefja fyrir því að þú náir settu marki.  Best er að grípa ruslapoka og láta allt fjúka í hann sem líklegt er að stuðli að auknu mittismáli og breiðari bossa.   Hugsaðu sem svo;  tilvist ruslfæðis og sætinda í hirslum heimilisins henta ekki lengur markmiðum mínum, svo út með þau! Fylltu svo ísskápinn af fjölbreyttri hollustu, grænmeti, ávöxtum, fisk, kjúkling, baunum o.þ.h.  Gættu hófs og fylgstu með stærð matarskammtanna.

Þitt er valið!
Þú átt aðeins þennan eina líkama og heilsa þín er dýrmæt.  Ekki vanmeta mikilvægi þess að rækta líkamann, hreyfa hann reglulega og velja vandlega næringuna þína.  Mundu að þitt er valið, það er ljóst að enginn annar en þú sjálf/ur velur hvað þú borðar og hvort og hve oft þú hreyfir þig.  Þitt val, þínar ákvarðanir, þinn árangur!

P.S. Ef þú ert að spá í að koma þér í flott form hvet ég þig til að kynna þér nýju námskeiðin hjá Hreyfingu - www.hreyfing.is   Bendi þér einnig á fría prufutíma í Club Fit, skráning á hreyfing.is