c

Pistlar:

11. nóvember 2012 kl. 14:29

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Út með öfgar, inn með einfaldleikann

246441_529784613705539_544022115_n.jpgÞað eru margar leiðir færar til að létta sig og losna við óvelkomna líkamsfitu.  En að breyta um lífsstíl til betri heilsu og viðhalda árangrinum til lengdar reynist því miður mörgum þrautin þyngri.  Að einhverju leyti er það vegna þess að margir fara gjarnan öfgafullar leiðir til að létta sig.  Snarfækka skyndilega hitaeiningum niður undir 1200 á dag,  teyga megrunardrykki daginn út og inn þar til þeir fá fullkomlega nóg af þeim, eða sleppa úr fæðunni heilu fæðuflokkunum.  Slíkar aðferðir eru dæmdar til að mistakast.

skammtastaer.jpgVið vitum að vandinn er enn til staðar,  stór hluti íslendinga hreyfir sig ekki nægilega mikið, borðar of stóra matarskammta og óhóflega mikinn sykur.  Óheyrilegt magn af sælgæti, sætabrauði, kexi, gosdrykkjum ásamt dísætum mjólkurmat og próteinstöngum fer ofan í íslensku þjóðina.  Við sjálf höfum það í hendi okkar að breyta ástandinu til betri vegar.

Lausnin felst í hófsemi

Einfalda leiðin er EKKI að sleppa hinu og þessu eða útiloka fæðutegundir heldur einfaldlega að gæta hófs.  Minnkaðu skammtana og borðaðu sjaldnar sætar matvörur og innantómar hitaeiningar í formi sætinda og gosdrykkja. Takmarkaðu t.d. gosdrykkjaneyslu við eina litla dós á dag og skiptu svo yfir í sódavatn.   Þegar þig langar í sætindi, veldu minnstu gerðina af uppáhalds namminu þínu og borðaðu helminginn af því og geymdu restina þar til síðar.  

Leiðin að heilbrigðri þyngd alla ævi er að finna jafnvægið.

Líkaminn þarf kjarngóða fæðu til að þú hafir góða einbeitingu og orku til að komast í gegnum daginn.  Einfalda leiðin er að kaupa 80% af því sem þú verslar í matvörubúðinni í jaðrinum eða upp við útveggina.  Þar finnur þú ferskvöruna, ávexti, grænmeti, kjöt og fisk og mjólkurvörur.  Inni í miðjunni eru hillur hlaðnar unninni matvöru s.s. dósa- og pakkamat ásamt snakki, kexi, sælgæti o.fl.  Sneiddu hjá "óhollustu göngunum" en finndu heilsuhillurnar með hollum kornvörum,s.s. hýðishrísgrjónum, höfrum og þar er einnig að finna úrval af baunum sem matreiða má á ýmsan hátt o.fl. 

balanced-way-of-lifestyle.jpgEinfalt og gott ráð: Borðaðu einn ávöxt og a.m.k. eina tegund grænmetis sem millimál daglega

Jafnvægi í mataræði og líkamsrækt

Fæðuvenjur þínar eru hluti af jafnvæginu.  Hinn hlutinn er dagleg hreyfing.  Vertu viss um að það ríki jafnvægi á milli þeirrar orku sem þú neytir og sem þú eyðir.  Ef þú vilt léttast þarftu vitanlega að bæta við orkuna sem þú eyðir og takmarka orkuna í formi neyslu.

Bættu meiri hreyfingu í líf þitt til að ná heilbrigðu jafnvægi.  30-60 mínútur á dag af kraftmikilli hreyfingu.  Reyndu vel á þig, styrktu vöðvana, bættu þolið og auktu liðleikann.  Stefndu að því að áreynslan sé næg til að þú hitnir vel og svitnir.   Fyrir utan skipulagða æfingu ættirðu að reyna að hreyfa þig sem mest, t.d. ganga um gólf þegar þú talar í síma, láttu sem lyftur séu ekki til, gakktu ávallt stigana.  Þegar þú tekur innkaupapokana út bílnum, farðu nokkrar ferðir í stað þess að reyna að ná öllu í einni ferð.  Safnaðu skrefum yfir daginn.  Sniðugt er að festa á sig skrefamæli og miða við að ná 10.000 skrefum á dag.

Lokaorð
Besta ráðið til að bæta heilsuna er einfalt.  Að gæta hófs, minnka matarskammta, takmarka sykurneyslu og stunda fjölbreytta hreyfingu flesta daga vikunnar.

www.hreyfing.is