c

Pistlar:

14. október 2013 kl. 16:50

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Mataræðisfrumskógurinn og Evrópumet í fitusöfnun.

donut.jpgFrá árinu 1980 hefur offita fólks í heiminum tvöfaldast.  Bandaríkjamenn eru feitasta þjóð í heimi.  Við Íslendingar erum feitasta þjóð í Evrópu. Um 20% landar okkar eru skilgreindir í offituflokk.  Offita er alvarlegur vandi. Lífsgæði fólks sem glímir við offitu eru oft lakari en annarra.  Kostnaður samfélagsins er mikill vegna ýmis konar aðgerða og þjónustu sem þeir sem glíma við offitu þurfa á að halda. og slíkt reynir á heilbrigðiskerfið.  Offita hefur aukið álag á hjarta- og æðakerfið og leiðir einnig til fleiri sjúkdóma sem geta leitt til ótímabærra dauðsfalla fyrir utan almenna þreytu og slitgigt o.fl. sem fylgir of mikilli þyngd.

Í hópi þeirra þjóða sem offituvandinn er minnstur má nefna t.d. Japan og Frakkland.

Japanir fitna ekki af kolvetnum.

Um 70% fæðu Japana eru kolvetni.  Meðal Japani er grennri og heilbrigðari en meðal Bandaríkjamaður sem einnig neytir fæðu sem er um 70% kolvetni.  Bandaríkjamenn eru feitasta þjóð í heimi en Japanir eru í hópi þeirra sem minnst hafa offituvanda.

rice.jpgLíklegasta skýringin eru munur á gæðum kolvetnanna.  Japanir eru taldir neyta mun minna af einföldum kolvetnum en Bandaríkjamenn.  Japanir borða mikið af hvítum hrísgrjónum og grænmeti en bandaríkjamenn gríðarmikið magn af sykri.  Kex, sælgæti, sætt morgunkorn, sætabrauð, gosdrykki o.fl.  Sykur, sætuefni s.s. High Fructose Corn Syrup og fleiri slík eru í mjög mörgum algengum fæðutegundum sem neytt er í BNA s.s. brauði, tómatsósu, ávaxtasafa o.fl. 

Magnið hefur allt að segja.
Allir sem hafa farið á veitingastað í Bandaríkjunum vita að matarskammtarnir eru iðulega risavaxnir. Bandaríkjamenn borða ekki aðeins of mikinn sykur heldur í heild of mikið magn af mat.  Japanir borða alla jafna mun minni skammta en Bandaríkjamenn.

bruschetta.jpgFrakkar og Ítalir eru þekktir fyrir að borða  sínar baguette, brúskettur og pasta og hafa gert síðan elstu menn muna. Offituvandinn hefur hingað til ekki verið stórt vandamál hjá þessum þjóðum þrátt fyrir það. Líklegasta skýringin er talin vera m.a. að þeir neyta þess í hæfilegum skömmtum, og sykurneysla þeirra er fremur lítil. 

Íslendingar innbyrða kíló af sykri á viku.
Um þessar mundir gengur yfir þjóðina mikið æði fyrir því að taka út úr fæðunni mest öll kolvetni.  Margir hreinsa mataræði sitt af öllu hvítu hveiti þ.m.t. pasta og brauði og hvítum hrísgrjónum og hvítum sykri. 

Við Íslendingar eigum norðurlandamet í sykurneyslu, borðum tæpt kíló af viðbættum sykri á viku pr. mann. Æskileg hámarksneysla eru 350g af sykri á viku.  Það er því deginum ljósara að við þurfum að minnka sykurneysluna.  Draga úr neyslu á einföldum kolvetnum s.s.neyslu á kexi, sælgæti, ís, sætabrauði og gosdrykkjum o.þ.h.

Við mikla sykurneyslu verður mikið ójafnvægi á blóðsykri sem gerir það að verkum að við finnum oftar fyrir svengd og erum því líklegri til að borða meira. Þegar blóðsykurinn er í góðu jafnvægi er líkaminn talinn nýta fitu betur sem orkugjafa.

Minni sykur og minni skammtar.
Í stóra samhengi hlutanna, má ekki leiða að því líkum að líklegasta skýringin á því að við erum í hópi feitustu þjóða heims að við borðum allt of mikinn sykur og of stóra skammta miðað við hver hitaeiningaþörf okkar er?  Brauð og pítsusneið með hollu áleggi, pasta og hrísgrjón eru ekki stóru sökudólgarnir ef neytt í hæfilegu magni.  Auðvitað er alltaf æskilegt að velja grófmeti og sem minnst unna fæðu til að fá sem besta næringu og trefjar.

Mataræðisleiðbeiningar eru orðnar svo margar og mismunandi og margir vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga.  Borða smjör eða sleppa því? Má eða má ekki borða brauð, kartöflur eða rjóma?  Fólk rýkur gjarnan af stað og eltir nýjustu tískubylgjuna í mataræði en gefst svo oft fljótt upp á öllu saman því það er ekki einfalt að gjörbylta skyndilega mataræði heimilisins.  Ef ekki er um fæðuóþol að ræða er í flestum tilfellum ekki þörf á, né æskilegt að sleppa heilu fæðuflokkunum úr fæðunni í því skyni að komast í kjörþyngd.

portion-control.jpgEinfalt og skynsamlegt markmið er að leggja höfuðáherslu á tvo þætti til að stuðla að betri þyngdarstjórn:
1. Minnka sykurneyslu
2. Gæta að skammtastærð

Einfaldlega borða hollt og fjölbreytt fæði í hæfilegu magni.  Svo má auðvitað ekki gleyma mikilvægi þess stunda kraftmikla hreyfingu allan ársins hring

agusta@hreyfing.is  www.hreyfing.is