c

Pistlar:

11. mars 2015 kl. 13:35

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Minningar sem hvetja þig í ræktina

hammer-to-the-alarm-clock.jpgVekjarinn hrekkur í gang fyrir allar aldir og þú rankar við þér í myrkrinu. "Ohh ég nenni ekki á æfingu í dag" er það fyrsta sem kemur í hugann. Ítrekað snoozar þú vekjaraklukkuna gegn góðum áformum frá kvöldinu áður. Samningaviðræður við sjálfan þig eiga sér stað undir hlýrri sænginni.  "Ég sef lengur núna og æfi í hádeginu í staðinn, eða skrepp eftir vinnu", vitandi full vel að um leið og þú hefur tekið ákvörðun um frestun er næsta víst að æfingadótið þitt verður áfram ósnert í töskunni þegar þú ferð að sofa í kvöld.
Í raun er öllum sama hvort þú heldur áfram að sofa eða hvort þú rífur þig fram úr og drífur þig á æfingu.  Öllum nema þér.  Í hvert sinn sem þú ákveður að sleppa æfingu aukast líkurnar á því að fetir áfram letislóðina sem liggur beint niður á við, þ.e. leiðir til enn meira letilífs.

Líkaminn þráir að puða

Það er til leið út úr þessu mynstri. Jákvæðar minningar frá fyrri æfingum stuðla að aukinni hvatingu til að æfa meira! 
Nýleg rannsókn frá sálfræðideild háskólans í New Hampshire staðfesti þetta. Það er manninum eðlislægt að hreyfa sig, svitna og takast á við krefjandi líkamleg átök. Það má segja að hver vöðvafruma í líkamanum njóti þess að takast á við hraða sprettr og erfiðar lóðalyftur. Vöðvarnir vilja áreynslu, húðin vill svitna, hjartað vill hamast.  En eftir höfðinu dansa limirnir. Vandinn á sér stað á milli eyrnanna okkar, það er hugurinn sem stoppar okkur. Neikvæða spjallið sem á sér stað í kollinum á okkur, mögulega daglega og jafnvel oft á dag, hindrar okkur í að ná lengra, ná þeim markmiðum í líkamsræktinni sem okkur dreymir um.

photos_demandstudios_com_getty_article_211_142_159361204_xs.jpg

Minningarnar hvetja

Lausnin felst í að varðveita minninguna um hve æfingin endurnærir þig og fyllir þig orku fyrir daginn.  Fáðu tilfinninguna upp í hugann, af þér eftir góða æfingu þegar þér finnst þú geta allt.  Búin/n að svitna og reyna á þig, ert í endorfínvímu og til í að takast á við hvað sem er.  Ef þú átt ekki enn slíkar minningar til, hugsaðu þá um hvað þú ert heppin/n að GETA hreyft þig, geta hamast, vera heilbrigð/ur, já yfirhöfuð heppin/n að vera til og skelltu þér sem fyrst í það að búa til jákvæðar minningar.

Hefurðu upplifað að henda þér út í svala sundlaug á sólríkum degi? Kalt rétt fyrst en svo frábær upplifun. Og allir þekkja tilfinninguna að gæða sér á góðu súkkulaði!  Minningin um ljúft bragðið í munninum kallar á meira súkkulaði. (N.B. Gott dæmi um minningu og hvatningu en ekki hvatning til að háma í sig súkkulaði!)

Þín ákvörðun leggur drög að þínum árangri.

Næst þegar þú ert komin/n með fingurna á snoozetakkann með kollinn fullan af afsökunum og sjálfsvorkunn, staldraðu við og hlustaðu í staðinn á allar ástæðurnar fyrir því að þú ættir að drífa þig á fætur og ALLS EKKI missa af æfingunni þinni.

Enginn annar en ÞÚ ert við stjórnvölinn í þínu lífi. Þitt er valið, þín er ákvörðunin og þinn er árangurinn.

Leggðu á minnið allar góðu tilfinningarnar sem verða til á góðri æfingu og eftir æfinguna og láttu þær verða þér hvatning og eldmóður inn á veginn upp á við í átt að aukinni orku, betri heilsu og bættra lífsgæða.

agusta@hreyfing.is  www.hreyfing.is