c

Pistlar:

3. apríl 2017 kl. 9:09

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Fantagóður fylltur sjóurriði með heilum basmati grjónum og chilisýrðrjómasósu

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem ég er að elda sjóurriða. Í fyrra skiptið, sjá hér, varð það kveikja að talsverðum umræðum á netinu varðandi nafngift fisksins. Um er að ræða sjóalinn eldisfisk frá Vestfjörðum sem ber latneska heitið, Onchorhynchus mykiss, sem framleiðendur hafa gefið markaðsheitið - sjóurriði. Margur veiðimaðurinn vildi kalla þetta regnbogasilung og var ósáttur við að ég væri að láta plata mig og neytendur á sama tíma. Ég hafði því samband við framleiðendur og lagði fyrir þá fyrirspurn. Þeir sögðu að í Noregi gengi þessi sami fiskur undir nafninu fjarðarurriði (fjordtrout) en það væri eins og sjóurriði markaðsheiti fisksins. Alveg eins og fjallableikja og Klaustursbleikja. Það dugar fyrir mig!

En þó að það megi deila um nafnið er erfitt að deila um gæðin því að þessi fiskur, sjóurriðinn, er einkar ljúffengur matfiskur. Ég sótti hann í fiskbúðina mína, hjá Högna og Arnari í fiskbúðinni á Sundlaugaveginum. Við ræddum þessi mál fram og tilbaka - meira að segja við aðra viðskiptavini.

Fantagóður fylltur sjóurriði með heilum basmati grjónum og chilisýrðrjómasósu

Að auki hvet ég fólk til að prófa að elda heil basmati grjón - þau voru sérstaklega bragðgóð.

1,2 kg sjóurriði

250 g rjómaostur

1/2 rauður chili

2 hvítlauksrif

2 cm engifer

2 tsk chilisósa

1 tsk hunang

1 tsk ferskur graslaukur

1 tsk fersk steinselja

1 tsk ferskt basil

salt og pipar

1 dós sýrður rjómi

1 msk chilisósa

1 tsk hunang

salt og pipar

300 g heil hrísgrjón

2 msk smjör

2 msk ferskur graslaukur

Einhver sstaðar verður að byrja. Og það er meira en lógískt að byrja á fyllingunni. Ég notaði tvær svona dósir af hreinum rjómaosti ...

 

... sem ég bragðbætti síðan með chili, engifer og hvítlauk. 

 

Chilisósu - það má að sjálfsögðu nota sæta chilisósu. En þá er vit í því að sleppa næsta skrefi. 

 

Þar sem chilisósan sem ég notaði hefur ekki mikla sætu bætti ég smáræði af fljótandi hunangi saman við. Svo setti ég fersku kryddjurtirnar saman við. 

 

 Næsta skref var að blanda þessu vandlega saman.

Svo var það að huga að sjóurriðanum.

Ég prófaði að skera hann í sneiðar fyrst.

Sem ég síðan opnaði með flugbeittum hníf.

Svo prófaði ég einnig að vera með stærri bita sem ég síðan fyllti með rjómaostsblöndunni.

Þetta var svo bundið saman með þræði og smá graslauk; ég ætlaði að binda með graslauknum en hann hélt ekki nógu vel.

Setti síðan í eldfast mót og penslaði með japanskri soyasósu.

 

Hrísgrjónin voru soðin skv. leiðbeiningum, velt upp úr smjöri, smá salti og toppuð með graslauk.

 

Sjóurriðin heppnaðist dásamlega. Vatt mér síðan í sósugerðina; blandaði sýrðum rjóma saman við chilisósu, hunang og smakkaði til með salti og pipar. 

 

 

Með matnum drukkum við þetta fyrirtaks franska hvítvín. Mér þykir alltaf vænt um vín frá Chablis enda hugsa ég ávallt til dásamlegs sumarleyfis sem við fjölskyldan áttum 2010 þegar við ferðuðumst um héruð Frakklands; Champagne, Djion, Jura og Alsace. Þetta vín er einkar ljúft, enda er það framleitt úr Chardonnay þrúgum, er fallega gult á litin, smjörkennt og ávaxtaríkt á bragðið með ágætu eikuðu og feitu eftirbragði sem lifir um stund á tungunni. 

Þetta var sannkölluð veislumáltíð.

Bon appetit!