c

Pistlar:

31. maí 2019 kl. 9:02

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Naustavík og Hveravellir - Lambið og miðin - Uppskriftir úr þætti tvö: Kolagrillaður þorskur og kjötsúpa með ólöglegu efni

 

Þáttur númer tvö af Lambið og miðin var í opinni dagskrá í kvöld á sjónvarpi Símans. Vona að sem flest ykkar hafi séð þáttinn. Og kannski ennþá mikilvægara að þið sem sáuð hann hafið haft gaman af. Og ef svo er þá væri ég óskaplega þakklátur að fá að heyra frá ykkur. Hvað ykkur fannst? 

 

Ég, og Kristján Kristjánsson leikstjóri, erum alltént óskaplega stoltir af þessum sjónvarpsþáttum. Við höfðum ansi háleit markmið þegar við settumst niður og ákváðum að fara í þetta ferðalag. Markmiðið var að gera fallegasta matreiðsluþátt sem gerður hefur verið á Íslandi. En það er ekki mitt að dæma hvort að það hafi tekist. Það er auðvitað ykkar sem á horfið. 

 

En við reyndum samt að gera þetta "auðvelt" fyrir okkur. Það var með því að láta ótrúlega náttúru Íslands, í sumarlitunum sínum, fá alveg sérstakt pláss í þáttunum okkar. Og ég vona einlæglega að það hafi tekist. 

 

Naustavík og Hveravellir - Lambið og miðin - Uppskriftir úr þætti tvö: Kolagrillaður þorskur og kjötsúpa með ólöglegu efni

 

Þessar uppskriftir eru til viðmiðunar. Þeir sem fylgdust með þættinum tóku líklega eftir því að nákvæm mál voru aldrei notuð – heldur var farið meira eftir tilfinningu – og svo giskað á hversu mikið var notað.

 

Hér koma svo uppskriftirnar; 

 

Kolagrillaður þorskur fylltur með íslenskum tómötum, rauðlauk, glás af kryddjurtum borinn fram með brenndu timjan-bættu lauksmjöri og fylltum papríkum

 


Þessar uppskriftir eru til viðmiðunar. Þeir sem fylgdust með þættinum tóku líklega eftir því að nákvæm mál voru aldrei notuð – heldur var farið meira eftir tilfinningu – og svo giskað á hversu mikið var notað.

Fyrir sex

1 nýveiddur þorskur

1 sítróna

1 rauðlaukur

1 tómatur

handfylli af ferskum kryddjurtum

smjör

jómfrúarolía

salt og pipar

4 gulir laukar

200 g smjör

20 timjan-greinar

3 papríkur

1 dós rjómaostur

1 dós rjómaostur með pipar

handfylli ferskar kryddjurtir

salt og pipar

jómfrúarolía

Ætli fyrsta skrefið sé ekki að veiða þorskinn, já, eða panta hann í fiskbúðinni ykkar. Fiskbúðin á Sundlaugaveginum er ekki í neinum vandræðum með að útvega ykkur heilan þorsk. Kosturinn við að elda fiskinn í heilu lagi er að það tryggir að hann verði einstaklega meir og beinin viðhalda rakanum í kjötinu. Þegar hann er eldaður í gegn rennur kjötið svo auðveldlega af beinunum sem verða eftir á beinagrindinni.

Troðið kviðarholið með sneiðum af sítrónum, rauðlauk, tómati, smjöri og svo eins mikið af ferskum íslenskum kryddjurtum og hægt er. Pakkið fisknum svo vandlega inn í álpappír og komið fyrir á grillinu. Snúið einu sinni. Fiskurinn er til á um 40 mínútum.

Skellið lauknum beint í kolin. Þegar ytra byrðið er brunnið - setjið laukinn til hliðar og leyfið honum að kólna. Það er þess virði að bíða - þar sem hann er brennandi heitur. Skerið brunna lagið utan af og leggið í álbakka. Bætið smjöri ofan á og svo timjan. Setjið svo á kolin og eldið í 20 mínútur eða svo.

Skerið papríkurnar í helminga og kjarnhreinsið. Blandið rjómaostinum vandlega saman og hrærið smátt saxaðar kryddjurtir saman við. Saltið og pipið. Fyllið svo papríkurnar með blöndunni og leggið í bakka. Bakið í um 30 mínútur.

Það er ekki hægt að segja annað en að elda í Naustavík var ógleymanleg lífsreynsla! 

 

 

Auðvitað þakkar maður svo fyrir sig með því að gefa góðu fólki, Elísabetu leiðsögumanni og Hlyni skipstjóra gott í gogginn! 

 

Ný al-íslensk kjötsúpa með ólöglegu efni frá Hveravöllum

 

Fyrir sex til átta (og jafnvel fleiri)

 

1,5 kg súpukjöt frá Norðurlandi

nokkrar radísur

2 púrrulaukar

1 gulur laukur

2 hvítlauksrif

marglitar papríkur

5 tómatar

8 heilar flysjaðar gulrætur

6-8 kartöflur, flysjaðar

nokkur grænkálslauf í grófum strimlum

handfylli perlubygg frá Vallanesi

vatn til að hylja hráefnið

timjan, rósmarín, steinselja í kryddvöndul

salt og pipar

jómfrúarolía og smjör til steikingar

 

Fyrir gremolata

 

1 hvítlauksrif

börkur af hálfri sítrónu, fínt saxaður

1 rauður chili

 

 

Byrjið á því að saxa laukinn, púrruna, radísurnar og hvítlaukinn niður og steikið í nokkrar mínútur. Saltið og piprið. Þegar grænmetið er orðið mjúkt setjið það til hliðar. 

 

Saltið og piprið kjötið og brúnið það svo upp úr smjöri og jómfrúarolíu. Þegar það er fallega brúnað bætið svo grænmetinu, sem þið steiktuð, saman við. Hellið nóg af vatni til að hylja kjötið. 

 

Bindið kryddjurtirnar upp í kryddvöndul og látið krauma með. Látið krauma í 60-90 mínútur á lágum hita þar til kjötið er lungamjúkt. 

 

 

Undirbúið svo gulræturnar, tómatana, papríkurnar, grænkálið og byggið og bætið saman við kjötsúpuna og sjóðið áfram í 30 mínútur.

 

Veltið fyrir ykkur hversu vel þetta á eftir að smakkast. 

 

 

Útbúið gremolata með því að mauka hvítlaukinn smáttt og blanda við fínt skorin sítrónubörk og chili. Saltið og piprið. 

 

 

Bjóðið gestunum út að borða við fallegan hver - eða bara heima í stofu.

Ég sá ekki betur en að Páll og Heiðbjört gerðu kjötsúpunni minni góð skil!

Verði ykkur að góðu!

Sérstakar þakkir við gerð þessa þáttar fá:

Hlynur skipstjóri á Kjóa

Elísabet Ýr Guðjónsdóttir, leiðsögumaður

Páll Ólafsson, garðyrkjubóndi

Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir, garðyrkjubóndi

Kokka

Egill Sigurðsson

Land Rover á Íslandi

Sölufélag garðyrkjubænda

Sláturfélag Suðurlands

Norðursigling

Þið eigið allar okkar þakkir skyldar! 

mbk,

Ragnar