c

Pistlar:

27. mars 2020 kl. 18:08

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Ofureinfaldar flatbökur - með kartöflum, spergilkáli og gráðaosti svo önnur með rauðlauk, spínati, döðlum og cashew hnetum og að lokum fjögurra osta með bláberjum í eftirrétt

 

 

Ég er varla sá eini sem dettur í hug að eldaflatbökur í lok vikunnar. Það er bæði fljótlegt og svo ef maður vandar valið á áleggjunum þá er getur það verið alveg einstaklega ljúffengt. 

 

Ofureinfaldar flatbökur - með kartöflum, spergilkáli og gráðaosti, svo önnur með rauðlauk, spínati, döðlum og cashewhnetum og í eftirrétt - fjögurra osta með bláberjum 

 

Fyrir flatbökubotnana

 

Ef maður er alveg að brenna út á tíma - er auðvitað hægt að kaupa tilbúið deig út í búð - en það er líka auðvelt að gera sitt eigið deig. 

 

Innihaldslýsing

700 gr hveiti

300 ml volgt vatn

2 msk jómfrúarolía

25 gr ger

25 gr sykur

2 tsk salt

Fyrst er það deigið. Setjið hveitið í skál. Svo saltið. Og á eftir því olíuna.Vekið gerið í volgu vatni ásamt sykrinum og þegar að það er búið að freyða í um 15 mínútur er hægt að byrja að hella því varlega saman við. Hnoðið vandlega í fimm til tíu mínútur. Setjið svo viskastykki yfir og setjið til hliðar til að hefast í um klukkustund.

Nýtni er dyggð - flatbaka með kartöflum, spergilkáli og rifnum gráðaosti

Hér nýtast afgangar vikunnar vel.

3-4 msk hvítlauksolía

2-3 soðnar kartöflur

1/2 haus spergilkál

handfylli af rifnum pizzaosti

4-5 msk af rifnum gráðaosti

salt og pipar

 

Penslið botninn með hvítlauksolíu, sáldrið rifnum pizzaosti yfir. Raðið svo soðnum kartöflum í sneiðum og á milli spergilkáli í litlum bitnum. Sáldrið svo nóg af gráðaosti á milli. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur.

Þrungin af bragði. Þessi er fyrir fullorðna fólkið - og er í uppáhaldi hjá mér.

Asískt ævintýri - flatbaka með rauðlauk, spínati, basil, döðlum og cashewhnetum. 

Þessi er dálítið ævintýraleg. Og hún er líka algert sælgæti.

3-4 msk hvítlauksolía

handfylli af rifnum pizzaosti

6-7 döðlur skornar í bita

1/4 rauðlaukur í þunnum sneiðam

handfylli spínant

3-4 basillauf

handfylli cashewhnetur

Penslið deigið með jómfrúarolíu og sáldrið ostinum jafnt yfir bökuna. Dreifið rauðlauk, spínati, rifnum basillaufum og döðlum ofan á. Skreytið með nokkrum cashewhnetum. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur.

Eftirréttabaka - með rifnum pizzaosti, gullosti, höfðinga, piparosti - skreytta ferskum bláberjum

 

Þessi er ótrúlega ljúffeng. Og sigrar eiginlega alltaf. 

 

3-4 msk hvítlauksolía

handfylli af rifnum pizzaosti

Nokkrar þunnar sneiðar af gullosti

Nokkrar þunnar sneiðar af höfðinga

handfylli rifinn piparostur

 

 

Penslið bökuna með hvítlauksolíu, svo er flatbökunni drekkt í ljúffengum ostum. Bakið í eins heitum ofni og mögulegt er á flatbökusteini. Það tryggir af botninn verði stökkur og ljúffengur. Þegar bakan kemur úr ofninum er hún skreytt með bláberjum eftir smekk. Það er líka gott að prófa að nota sultu - rifsberjasultu eða jafnvel chilisultu.

 

 

 Þvílík föstudagsveisla.

 

Auðvitað fengum við okkur rauðvínstár með bökunum. 19 Crimes the Uprising frá því 2018 frá Ástralíu. Þetta vín er blanda úr Shiraz/Syrah, Cabernet Sauvignon, Grenache. Þetta er ansi kraftmikið vín - enda fær það að þroskast að hluta í rommtunnum. Mikill ávöxtur og ljómandi gott jafnvægi á tungu. 

 

Verði ykkur að góðu. 

 

 

-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa