c

Pistlar:

4. febrúar 2018 kl. 22:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Merk iðnfyrirtæki hverfa

Að margra dómi voru ein helstu tíðindi liðinnar viku uppsögn 86 starfsmann hjá prentsmiðjunni Odda. Þeir sem tóku að sér að rifja upp tíðindi vikunnar í fjölmiðlum helgarinnar virtust reyndar að mestu búnir að gleyma uppsögnunum en þarna hafa sannarlega orðið tíðindi. Sársaukafyllst er auðvitað fyrir alla þessa starfsmenn að missa vinnuna enda er þetta með fjölmennari uppsögnum sem við höfum orðið vitni að í alllangan tíma. Það bætir úr, að atvinnuástandið er þokkalegt um þessar mundir en hætt er við að margir þeir sem þarna misstu vinnuna eigi erfitt með að fá aðra á sínu sérsviði. Það lítur að öðrum þætti málsins. Þeirri staðreynd að þarna er verið að leggja niður mikilsverða iðnaðarstarfsemi og þekking að hverfa frá okkur. Því miður er það svo að prentiðnaðurinn íslenski hefur ekki reynst vera samkeppnisfær undanfarin ár, hvort sem það er sterk króna, innlendar launahækkanir eða aðrar breytingar á samkeppnisstöðu. Það bætir síðan ekki úr skák að fyrirtækin hafa sum hver ekki verið fær um að fjárfesta sem skyldi í rekstrinum og tæki því orðin gömul.

Úr framleiðslu í innflutning

Í tilkynningu Odda sagði að uppsagnirnar væru vegna breyttra áherslna við umbúðaframleiðslu fyrirtækisins. Innlendri framleiðslu plast- og bylgjuumbúða verður hætt og áhersla lögð á innflutning umbúða og eflingu prentverks og öskjuframleiðslu. Þetta er sannarlega grundvallarbreyting á starfsemi Odda en eftir að uppsagnirnar taka gildi verða starfsmenn fyrirtækisins 110 talsins.

Starfsemin sem nú hættir er í verksmiðjunum Plastprent og Kassagerðarinnar. Bæði þessi fyrirtæki færðust undir hatt prentsmiðjunnar Odda í kringum bankahrunið 2008. Segja má að Oddi hafi orðið alhliða fyrirtæki í prent- og umbúðaþjónustu þegar prentsmiðjureksturinn var sameinaður starfsemi Gutenbergs og umbúðavinnslu Kassagerðarinnar þann 1. október 2008. Og síðustu skrefin í sömu átt voru stigin um áramótin 2012-2013 þegar Plastprent – sem stofnað var árið 1957 og hafði lengi verið leiðandi á sviði plastumbúða – var sameinað Odda. Miklar afskriftir voru í kringum þessi viðskipti en nýir eigendur komu þá að Odda. Með þessari sameiningu varð til stórt fyrirtæki á íslenskum umbúðamarkaði með mikla reynslu og ríflega 300 starfsmanna eins og lesa má á vef fyrirtækisins.

Oddi ehf. var frá 1. janúar 2006 rekin undir eignarhalds- og fjárfestingarfélaginu Kvos ásamt framleiðsluhluta fyrirtækisins sem þá var rekinn undir nafninu Opm (Oddi prentun og miðlun) auk fjárfestinga erlendis. Þann 1. júní 2015 sameinast svo fyrirtækin þrjú aftur í eitt, þá Oddi prentun og umbúðir.kassa

Kassagerðin stofnuð 1932

Kassagerð Reykjavíkur var stofnuð árið 1932 af Kristjáni Jóhanni Kristjánssyni og Vilhjálmi Bjarnasyni og var félagið í eigu afkomenda Kristjáns til ársins 2000 og var lengi í áberandi byggingum fyrir ofan Sundahöfn. Fyrirtækið var stofnað um framleiðslu á trékössum, aðallega undir fisk, smjörlíki og niðursoðna mjólk. Síðar var hafin framleiðsla á bylgjupappa, pappakössum, öskjum undir hraðfrystan fisk og fleira. Kassagerðin fékkst lengst af við hönnun og framleiðslu umbúða auk þess að veita viðskiptavinum alhliða umbúðaráðgjöf. Um þrír fjórðu hlutar framleiðslunnar voru þá matvælaumbúðir og af þeim eru þrír fjórðu umbúðir fyrir fiskafurðir. Hjá Kassagerðinni störfuðu um 150 manns þegar best lét. Árið 2000 voru Umbúðamiðstöðin hf. og Kassagerð Reykjavíkur hf. sameinuð en það var Fjárfestingabanki atvinnulífsins sem hafði milligöngu um það. Fjórum árum áður hafði Umbúðamiðstöðin færst í hendur Odda sem var þá öflugt fyrirtæki undir stjórn Þorgeirs Baldurssonar. Hjá sameinuðu fyrirtæki störfuðu um 185 manns en það rak einnig söluskrifstofur í Ameríku og Afríku. Voru talsverðar væntingar um að auka útflutning fyrirtækisins á þeim tíma.

Umbúðamiðstöðin var stofnuð af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og fyrirtækjum innan SH árið 1964 en Prentsmiðjan Oddi keypti Umbúðamiðstöðina árið 1996 eins og áður sagði. Umbúðamiðstöðin hefur starfað við umbúðaframleiðslu úr pappír og almenna prentun en framleiðsla fyrir sjávarafurðir hefur ávallt verið stór hluti í rekstrinum. Þá starfrækir Umbúðamiðstöðin vöruhótel.plast

Öflug framleiðsla Plastprents

Plastprent var stofnað 1957 og var var lengi áberandi og sterkt fyrirtæki í íslenskum iðnaði. Fyrirtækið starfaði á sviði umbúðalausna og framleiddi plastumbúðir á Íslandi. Félagið framleiddi og seldi umbúðir úr plasti, svo sem mjúkar plastumbúðir, filmur og plastpoka fyrir matvælaiðnað, sjávarútveg, landbúnað, verslanir og stórfyrirtæki. Einnig bauð fyrirtækið skyldar vörur til reksturs og endursölu um tíma. Félagið er einnig í tengdri starfsemi í Bretlandi, Færeyjum og Litháen í gegnum dótturfyrirtæki sín Gerove, Fispak, Virenda, og Plastprent Foröyar.

Plastprent hafi lent í verulegum rekstrarvandræðum í kjölfar niðursveiflunnar í íslensku efnahagslífi sem hófst á síðari hluta ársins 2008. En félagið var þá með um 40 til 45% markaðshlutdeild. Starfsmenn Plastprents innanlands voru þá um 100 og erlendis voru þeir um 120 talsins.Framtakssjóður Íslands slhf. (FSÍ) var eigandi Plastprents í kjölfar bankahrunsins og seldi félagið til Kvosar 2012 að undangenginni athugun Samkeppniseftirlitsins.  

En nú er komið að endalokum þessarar sögu og ómögulegt að segja hvernig framleiðslu og sölu þessara fjölbreyttu vara sem þessi fyrirtæki framleiddu verður háttað í framtíðinni. Íslenskur iðnaður verður fátækari og það er eftirsjá að þessari starfsemi.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.