c

Pistlar:

10. apríl 2018 kl. 18:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvað bætir Reykjavík?

Sveitarstjórnarkosningar árið 2018 verða haldnar þann 26. maí næstkomandi. Eðlilega er athyglin mest á höfuðborginni en borgarfulltrúum í Reykjavík verður fjölgað úr 15 í 23. En um hvað er kosið í Reykjavík? Ef litið er til helstu málaflokka þá er eðlilegt að nefna til fjármál, skipulagsmál og síðan auðvitað mál er lúta að velferð borgarbúa, svo sem skólamál, málefni fatlaðra og þjónustu við eldri borgara, svo fátt eitt sé talið.

Engin vafi er á því að skipulagsmál verða ofarlega á baugi og þá samgöngumál þeim tengd. Í pistlum hér hefur oft verið vikið að skipulagsmálum. Vert er að rifja upp að skrifað var undir nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík í febrúar 2014 og í framhaldi þess skrifaði undirritaður nokkuð ítarlegan pistil. Um vorið voru síðan sveitastjórnarkosningar þar sem skipulagsmál tóku sitt pláss en flugvöllurinn var fyrirferðamikill í þeirri umræðu. Nýtt aðalskipulag kom í kjölfar þess að Borgarstjórn Reykjavíkur hafði samþykkt hálfu ári áður tillögu að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, ásamt umhverfisskýrslu. Það kom í aftur kjölfar endurskoðunar á aðalskipulaginu 2001-2024 sem hafði staðið yfir árin á undan og fólst í margvíslegri greiningarvinnu, mati valkosta og samráði við íbúa og hagsmunaaðila. Skipulagið hafði því verið í vinnslu frá árinu 2006 eða í heil átta ár.

Rammi um skipulagið

En þótt ferlið hafi verið langt og ítarlegt má velta fyrir sér hve mikið íbúar borgarinnar höfðu um málið að segja þegar upp var staðið. Stundum finnst manni eins og meiri orku sé varið í að kynna ýmis smærri mál sem litlu skipta eins og maður sér í tilfallandi íbúakosningum. En það dylst engum að núverandi meirihluti setti mark sitt á skipulagið þó að vissulega hafi ríkt ágæt sátt um ýmsa þætti.

Með staðfestingu aðalskipulagsins fékkst sá rammi utan um skipulagsmál borgarinnar sem unnið hefur verið eftir síðan. Á sínum tíma benti undirritaður á að skipulagið gæti birst borgarbúum með tvennum hætti. Annars vegar með því að sveigja skipulagið að þörfum borgarbúa eða hinsvegar, sveigja hegðun borgarbúa að þörfum skipulagsins. Því miður hefur það síðarnefnda orðið ofaná. Skulu fyrir því nefnd nokkur dæmi en hér fylgir mynd með frá Grensásveginum - sem er gata sem sýnir flest það sem er að í ólífrænu skipulagi borgarinnar. grensás

Borg fyrir fólk - varla

„Borg fyrir fólk" var leiðarstefið í aðalskipulaginu en þar var ætlunin að leggja áherslu á hverfin og einstaka borgarhluta. Markmiðið var að einstök hverfi borgarinnar yrðu sjálfbærari, mannvænni og fjölbreyttari þar sem allir félagshópar fengju tækifæri til búsetu. Hvert hverfi átti að hafa sinn kjarna svo dagleg verslun og þjónusta verði í sem mestri nálægð við íbúa. Getum við sagt að þetta hafi gerst? Ef íbúar höfuðborgarsvæðisins ættu að nefna eitt atvik sem skiptir mestu í þróun verslunar undanfarinna ár væri það væntanlega opnun Costco. Og þangað fer engin nema á bíl.

Ráðamenn borgarinnar sögðu við undirritun að nýtt aðalskipulag fæli í sér að borgin yrði þróuð í meiri mæli inn á við en áður, hún þétt og samgöngukerfið gert liprara. Af þeim sökum mætti búast við meiri uppbyggingu á svæðum sem eru nálægt vinnustöðu. Það átti að stytta vegalengdir frá heimili til vinnu. Aukin áhersla var lögð á almenningssamgöngur og að fólk kæmist leiðar sinnar á hjóli eða gangandi. Vissulega hefur verið unnið að þéttingu borgarinnar og ekkert athugavert við þá stefnu. Það er hins vegar framkvæmdin sem er umdeilanleg. Þéttingin hefur í fæstum tilvikum gert neitt til að styðja við þá borgarmynd sem fyrir er. Þéttingareitirnir eru orðnir svo dýrir að verktakar yfirbyggja svæðið. Þegar sagt er yfirbyggja, þá er átt við að of mikið byggingamagn verður á svæðinu. Og það í mörgum tilvikum húsnæði sem hentar ekki þörfum borgarbúa. Framkvæmd þéttingarstefnunnar hlýtur að vera gerð ábyrg fyrir þeim skorti á ódýru og hentugu húsnæði sem liggur eins og mara yfir Reykjavík. Hér verður ekki farið út í málefni flugvallarins en það eru auðvitað vonbrigði hve fullkomlega meirihlutinn getur horft framhjá þeim tækifærum sem í rekstri hans geta falist. Og það hverfi sem nú er tekið að rísa á flugvallarsvæðinu er ekki glæsilegur vitnisburður um það sem koma skal.

Þéttingastefnan varð að trúarbrögðum

Aðalskipulagið gerir ráð fyrir að 90% allra nýrra íbúða á tímabilinu rísi innan núverandi marka borgarinnar. Markmiðið var að skapa heildstæðari og þéttari borgarbyggð og nýta þar með betur land og fjárfestingar í gatna- og veitukerfum og þjónustustofnunum. Rökin fyrir því voru að með þéttari byggð myndu vegalengdir styttast, samgöngukostnaður dragast saman og um leið draga úr umhverfisáhrifum samgangna. Verkefni næstu áratuga var sagt vera að fullbyggja „Borgina við Sundin" og var er uppbyggingu nýrra hverfa í útjaðri slegið á frest. Þetta voru talsverð tíðindi fyrir fólk sem hafði verið að kaupa lóðir og byggja í úthverfum borgarinnar, svo sem í Úlfarsárdal. Þróun á þessum hverfum var slegið á frest með nýju skipulagi með alvarlegum afleiðingum. Þéttingastefnan varð þannig að trúarbrögðum.

Græna stefnan gleymdist

Græna borgin var eitt af þemum nýs aðalskipulags en samkvæmt því er gert ráð fyrir að 40% lands verði opin svæði innan þéttbýlis Reykjavíkur ætluð til útivistar, afþreyingar og leikja. Í tilkynningu borgarinnar í kjölfar undirritunarinnar sagði að Reykjavíkurborg hafi mikinn metnað til að verða grænni og vistvænni og þar gegna samgöngur mikilvægu hlutverki. Stefnt er að því samkvæmt aðalskipulaginu að hlutdeild almenningssamgangna í ferðum til og frá vinnu vaxi úr 4% í 12% og hlutdeild gangandi og hjólandi vaxi úr 21% í 30%. Sá hluti grænu stefnunnar sem laut að útivistarsvæðum og gróðuraukningu gleymdist. Undirritaður hefur áður bent á að það er frekar að gróður sé á undanhaldi í borginni, í það minnsta sá gróður sem borgaryfirvöld bera ábyrgð á. Þetta er þvert á stefnu borgaryfirvalda víða um heim sem leggja nú ofuráherslu á að efla gróður innan borgarmarka, jafnvel svo að umferðarmannvirki eru skrýdd gróðri. Þá er ljóst að umfang svifryks í Reykjavík er mikið áfall fyrir stefnu meirihlutans og í raun óásættanlegt að mál hafi þróast með þeim hætti að Reykjavík sé einna verst sett borga að því leyti. Að ekki sé talað um ruslið eins og þessi mynd úr Gnoðavoginum dregur fram. rusl

Treyst á risalausnir í samgöngumálum

Lausnir í almenningssamgöngum kosta útsvarsgreiðendur háar fjárhæðir. Það er því vandasamt að finna það samspil kostnaðar og nýtingar sem gagnast borgarbúum best. Veðurfar hér á landi er með þeim hætti að ákveðin hluti borgarbúa verður að treysta á einkabíl. Sumir eru beinlínis háðir honum. Það er mikilvægt að það sama gildi þar og í íbúðamálum, að sem fjölbreytilegastir valkostir séu í boði. Það má til sanns vegar færa að áður fyrr hafi menn horft of stíft til einkabílsins. Það er dýrt og erfitt að leysa allt út frá honum en menn meiga heldur ekki sveiflast of langt frá honum, borgin verður að halda áfram að bjóða upp á vegi og bílastæði þó einnig sé horft til annarra samgöngumáta. Því miður hefur þessi stefna leitt til þess að nú eru menn farnir að treysta um of á risavaxnar lausnir eins og borgarlínu sem engin leið er að segja til um hvernig til tekst með. Sú niðurstaða verður að teljast áfall fyrir þá sem ætluðu að byggja upp sjálfbært samfélag í Reykjavík.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.