c

Pistlar:

15. maí 2019 kl. 16:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Af flugviskubiti og öðru samviskubiti

Nútímamaðurinn lifir í talsverðri angist. Hann situr á meiri upplýsingum en nokkru sinni áður í sögunni, býr við meiri efnahagslegri velsæld en áður hefur þekkst og hefur víðtækara tækifæri en áður til að tjá tilfinningar sínar og langanir. Þetta hefur sem vonlegt er áhrif á líðan hans enda getum við nútímafólk nánast frá mínútu til mínútu borið okkur saman í þeim efnum. Þannig getum við fært á milli okkar tilfinningar eins og reiði og öfund um leið og við reynum okkar besta til að láta aðra líka við okkur, kannski ekki alveg alla en nógu marga til að fá hæfilega mörg „like“ til að kynda vellíðunarstöðvarnar þennan daginn.

Stærsta samviskubit mannkyns í dag beinist að umhverfis- og loftslagsmálum. - Vel að merkja, þess hluta mannkyns sem býr við efnahagslega velsæld. Sagt er að veikur maður eigi aðeins eina ósk, að fá heilsuna á ný. Líf nútímamannsins er hins vegar flóknara. Hann getur gert margt af því sem áður var nánast ómögulegt og það fyrir ásættanlegan hluta af tekjum sínum. Ferðalög eru ofarlega á lista flestra þegar kemur að lífsgæðum og það eru fleiri en fegurðardrottningar sem hafa þau sem áhugamál. Heyrst hefur af fólki sem ekki getur fest svefn nema það hafi í það minnsta þrjá farseðla í náttborðsskúffunni. Sjálfur er ég ekki alveg saklaus af þessum löngunum þó ferðalög mín takmarkist við það sem mætti kallast nærsveitir í dag. Heimskur er sá er heima situr og nútímamaðurinn ferðast til aðskiljanlegustu heimshluta til að drekka í sig fróðleik, ánægju og einhverskonar upplifun. Það dugar ekki að skoða myndir af Kínamúrnum, Machu Picchu eða píramídunum. Þú verður að komast á staðinn til að taka sjálfu, birta myndir og segja frá. Að ferðast í kringum hnöttinn á 80 dögum er á færi menntaskólakrakka á Íslandi í dag, það þarf ekki lata yfirstéttarmenn frá Englandi til þess.loftsl

Hið góða, sem ég vil

En samfara auknum ferðalögum hafa sumir náð að kalla fram það sem kallað er flugviskubit, nýjasta orðið í loftslagsumræðunni. Í bréf Páls til Rómverja er þetta orðað með þessum hætti: „Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.“ Þannig hljóta til dæmis starfsmenn Umhverfisstofnunar að hugsa sem nánast nauðugir viljugir eru kallaðir til útlanda oftar en þeim líkar. Þeim fjölgar líka ár frá ári sem auðvitað eykur líka þörfina fyrir ferðalög. Staðreyndin er sú að í kringum umhverfis- og loftslagsmál er auðvitað mikil samræmingarstjórnsýsla sem kallar á ferðalög og fundi, annars gerist jú ekkert.

En þó að orð og efndir fari ekki alltaf saman þá er ljóst að heimurinn er að reyna að beita þeim meðölum sem virka til að forða okkur öllum frá voða. Nú er það svo að sumir hafa uppi efasemdir og vitna til jarðsögunnar sem er full af dæmum um stórkostlegar loftslagsbreytingar og þarf ekki að fara lengra aftur en um sem svarar 10 þúsund árum til að sjá eitthvað sem mætti kalla ísöld. Inn á milli hafa komið hlý og köld tímabil sem höfðu gríðarleg áhrif á líf þeirra manna sem þá lifðu. Af því eru litlar frásagnir sem gefur að skilja.

Tilkynningarnar koma og fara

Heimurinn stendur frammi fyrir áður óþekktum ógnum, sem eru bæði nær okkur í tíma og umfangsmeiri en áður hafa þekkst og tengjast breytingum á loftslagi og hnignun umhverfis, segir í nýrri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum sem kom út í dag. Þar segir líka að líkurnar á því að eitt hörmungarástand leiði til annarra fari vaxandi.

Nú er það svo að á fyrri tímum var engin til þess að senda út tilkynningar, yfirvofandi ógn kom bara. En nú fáum við semsagt allar tilkynningar beint í æð og fáum að fylgjast með endalokum heimsins, nánast eins og í hægri endursýningu á meðan allir eru með pínulítið flugviskubit!