c

Pistlar:

30. maí 2020 kl. 12:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Eftirlitið og samkeppnin

Að stunda samkeppnisrekstur getur verið gríðarlega flókið verk en stundum finnst manni að stöðugt færri hafi innsýn í það. Að ætla sér að stýra samkeppni með valdboði er sjálfsagt enn vandasamara verkefni en þó virðast furðu margir áhugasamir um slíkt. Getur þetta haft eitthvað með samsetningu vinnumarkaðar að gera? Er ekki líklegt að eftir því sem fleiri starfa hjá hinu opinbera, því færri hafi skilning eða áhuga á samkeppnisrekstri? Er það þróun sem við erum sátt við og er hún líkleg til að vera farsæl fyrir hagkerfi okkar?

Öðru hvoru erum við minnt á aðkomu stjórnvalda að markaðinum í gegnum ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins. Ein slík ákvörðun birtist nú í vikunni og vakti nokkra athygli. Þá var upplýst að Síminn hefði verið sektaður fyrir að bjóða Heimilispakka og áskrift að Enska boltanum með miklum verðmun eftir því hvort áskriftin og umrædd þjónusta var seld saman eða sitt í hvoru lagi. Með þessu telur stofnunin að fyrirtækið hafi brotið skilyrði sáttar sem það gerði við Samkeppniseftirlitið þegar það keypti Skjáinn árið 2015. Sekt stofnunarinnar fyrir þetta sáttarbrot hljóðar upp á hálfan milljarð króna.eftirlitið

Þegar þessi niðurstaða var lesin var það fyrsta sem kom upp í hugann að það mái Samkeppniseftirlitið eiga að það er fyrst til að finna peninga í fjölmiðlarekstri! Ef ríkið ætlar að setja 400 milljónir eftir áralanga umhugsun inn í fjölmiðla þá er Samkeppniseftirlitið skjótari en skugginn að taka það aftur út úr greininni! Það sem Síminn er sektaður fyrir er nokkurnveginn fyrirkomulag sem alltaf hefur verið stundað, til að umbuna traustum viðskiptavinum. Í ljósi þess að íþróttafréttamenn hafa þurft að taka pokann sinn umvörpum vegna hallæris í íþróttafréttum þá verður þessi risasekt enn skrítnari. Er Samkeppniseftirlitið að vinna í sérstöku hagkerfi, svona til hliðar við það sem við hin lifum í?

Braska og bralla

Hér verða efnisatriði ákvörðunarinnar sem slíkrar ekki rædd en eins og vakið var athygli á í Staksteinum Morgunblaðsins í dag þá er erfitt að sjá hver sé glæpurinn? Að lækka verð á enska boltanum til þeirra sem hafa áhuga á að horfa? Að bjóða eina vöru með annarri sem viðbótarþjónustu? Eru ekki allir að reyna að láta viðskiptavinum sínum eitthvað í té svo þeir dragist inn í viðskipti? Er eftirlitið búið að gleyma grunni kaupmennskunnar sem gengur út á að kaupa og selja, braska og bralla. Þannig hefur það verið frá örófi alda þangað til eftirlitið varð til. Vissulega má fylgjast með og greina samkeppnisþætti á markaði og grípa inní ef augljós merki um markaðsmisnotkun birtast en svona sparðatíningur vekur bara furðu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hægt er að undrast aðkomu Samkeppniseftirlitsins að viðskiptalífinu. Oft sést að eftirlitið hefur aðkomu að samrunum og yfirtökum og kemur svo með niðurstöður sínar eftir dúk og disk. Skiptir engu að fyrirtækin sem eru að sameinast eru augljóslega komin að fótum fram og hafa enga valkosti, eftirlitið tekur sinn tíma. Þannig er eftirlitið stöðugt að reyna að sveigja tíma og rúm að þeim stjórnsýsluleikjum sem lög þess og reglur segja til um. En má ekki segja að við höfum fengið áþreifanlega áminningu um það í faraldrinum núna að allt er breytingum undirorpið. Í verslun og viðskiptum verður stöðugt að aðlaga sig nýjum veruleika. Ætlar ríkisvaldið að stýra því hvernig kaupin gerast á eyrinni?