c

Pistlar:

16. september 2022 kl. 9:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Auðsæld í Sorrento og Positanio

Ef ég væri frá Sorrento þá væri ég ekki í þessari vinnu, sagði ungur barþjónn í Leynigarðinum, vinsælum bar inn af aðalgötu Sorrento, Corso Italia. Staðurinn minnir dálítið á íslenskt gróðurhús en Sorrento ber ríkidæmið með sér enda heldur letilegur lúxusbær við sunnanverðan Napólí-flóann. Sorrento á sér langa sögu en síðustu 200 árin eða svo hefur hann haft það sem aðalhlutverk að þjóna hinum ríku. Þangað streymir starfsfólk annar staðar frá Ítalíu, meðal okkar ungi barþjónn sem segir í hálfkæringi að enginn Sorrento-búi þurfi að vinna, slík sé velsældin þar. Það er ekki rétt segir Fulvio Esposito, leiðsögumaður okkar þegar ég ber undir hann þessa yfirlýsingu. En bætir við að þeir sem búi í Positano á Amalfi-ströndinni þurfi sko alls ekki að vinna. Þar sé meira að segja eigandi bílastæðanna stórauðugur maður! Já, lögmál auðsældar geta birst með mismunandi hætti.sorrento1

Fasteignaverð og frægðarmenni

Í Sorrento búa innan við 20 þúsund manns og byggðin er komin að ákveðnum þolmörkum því bannað er að byggja á því svæði sem nær einn kílómeter frá ströndinni. Sem gefur að skilja er verðmætasta landið upp af hárreistri strönd Sorrento. Það er því ljóst að fleiri byggingar rísa ekki þó menn geti breytt og bætt það sem fyrir er. Þetta hefur vitanlega áhrif á verð þeirra fasteigna sem fyrir eru. Fasteignaverð í Sorrento er því gríðarhátt á ítalskan mælikvarða eða ríflega 5000 evrur fermetrinn. Það er þó ekki nema fjórðungur þess sem það er í Kaprí en um það verður fjallað síðar.

Sorrento hefur löngum verið vinsæll dvalastaður ferðalanga eða allt frá tímum Rómverja. Breska yfirstéttin vildi gjarnan dvelja þarna yfir vetrartímann til að losna við saggasamt húsnæði og meðal frægra einstaklinga sem hafa dvalið í Sorrento um lengri og skemmri tíma eru Byron lávarður, ljóðskáldið John Keats, Johann Wolfgang von Goethe, Charles Dickens, Richard Wagner, Henrik Ibsen og Friedrich Nietzsche. Heimspekingurinn kom til Sorrento þegar hann var 32 ára eða árið 1876 og fannst eins og hann hefði vaknað til lífsins þar en þá þegar var hann eiginlega útbrunninn sem háskólamaður. Um veru Nietzsche í Sorrento hefur verið fjallað talsvert en í sólinni og hitanum þar taldi hann sig hafa náð að koma ró á hugsanir sínar og leggja drög að riti sínu Human, All Too Human, sem því miður hefur ekki komið út á íslensku.sorrento3

Ibsen og Gorky

Á öðrum áratug síðustu aldar bjó sovéski rithöfundurinn Maxim Gorky í Sorrento en hann dvaldi líka á Kaprí. Gorky var hirðskáld rússnesku byltingarinnar og fékk því að ferðast eins og hann lysti og dvaldi langdvölum í kapítalískum sumarbæjum eins og Sorrento og Kaprí. Í Sorrento má finna garð með styttu af leikskáldinu Henrik Ibsen stutt frá aðalgötunni sem hér birtist til hliðar. Ibsen var eitthvað ósáttur í Noregi og fór með fjölskyldu sína í sjálfskipaða útlegð árið 1864 og settist að í Sorrento og dvaldist þarna langdvölum, sjálfsagt á norskum skáldalaunum. Leikrit hans, Brandur, frá 1865, færði honum þá viðurkenningu sem hann leitaði eftir, ásamt fjárhagslegri umbun. Næsta leikrit hans, Pétur Gautur, er einnig skrifað í Sorrento og gefið út árið 1867. Það varð hans frægasta verk og sló í gegn og Edvard Grieg samdi tilfallandi tónlist og lög við það, sem eru enn flutt í dag.

Sorrento er fæðingarstaður skáldsins Torquato Tasso og Piazza Tasso er aðaltorg Sorrento og staðurinn þar sem þeir sem eru hipp og cool að fá sér fordrykk og sitja og horfa á fólk labba framhjá sem er skemmtilegur siður þarna suður frá. Torgið er skýrt eftir Torquato Tasso, sem var afkastamikið skáld á 16. öld og sem fæddist í borginni. Mælt er með að fá útiborð á Bar Fauno til að fá besta útsýnið yfir gang mála á torginu. Aperol spritz er vinsæll kostur á sumrin en nú einnig Limoncello Spritz!

Sítrónur í öll mál

Það er nefnilega svo að Sorrento er þekkt fyrir sítrusávexti og þar er sannarlega nóg af sítrónum. Þegar ráfað er um bæinn er hægt að sjá litla sítrónulundi og tré sem eru falin meðal bygginganna. Heimamenn halda áfram að rækta ávextina sem hluta af menningu sinni og auðvitað til að búa til frægustu útflutningsvöru Sorrento – limoncello líkjör, sem maður dreypir ansi oft á í Sorrento, nánast ósjálfrátt! Limoncello, er meltingarhvetjandi (held ég) og gerður úr sítrónuberki, áfengi, vatni og sykri og margar verslanir falbjóða ótrúlega mörg afbrigði af limoncello í skrautlegum umbúðum eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Þökk sé notkun á staðbundnu hráefni og innbyggðri ástríðu fyrir mat og víni er Sorrento einfaldlega frábær staður til að borða á. Í fyrri ferðum fannst ég ekki hafa borðað vondan mat þarna en það breyttist aðeins núna, ofurfjöldi ferðamanna hefur spillt stærri stöðunum. Nálægð borgarinnar við Napólí þýðir að þeir taka pizzu gerð alvarlega.ströndin

Auðvitað er ferskur fiskur vinsæll við Miðjarðarhafið og þá sérstaklega við höfnina - Marina Grande er staðurinn til að fá staðbundið sjávarfang með þorpsstemningu en einnig eru frábærir veitingastaði í gamla bænum og á betri hótelum Sorrento. Það tilheyrir á Ítalíu að drekka vín héraðsins og heimamenn hafa væntingar til þess og jafnvel að þú hrósir því. Því er því eðlilegt að horfa á heimavínin. Vín frá Kampaníu eru ekki eins fræg og sum af norðlægum vínunum en fólk finnur fljótt að þau passa fullkomlega við rétti svæðisins. Verndardýrlingur Sorrento er Antoninus frá Sorrento (dó 625) sem var ítalskur ábóti, einsetumaður og dýrlingur - hvað annað!