c

Pistlar:

18. nóvember 2022 kl. 17:29

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Er COP27 algert flopp?

Loftslagsráðstefnunni COP27 átti að ljúka í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi í dag en framlengist til morguns í von um að ná einhverri niðurstöðu. Ráðstefnan telst heldur misheppnuð segja loftslagssinnar en staðsetningin hafði það meðal annars í för með sér að mótmælendur áttu ekki greiðan aðgang að fundargestum. Undanfarnar loftslagsráðstefnur hafa einkennst af miklum fjölda mótmælenda sem hafa reynt að vekja athygli á baráttu sinni og hafa þannig áhrif á ákvarðanatökuna. Hugsanlega hefur það haft áhrif á staðarvalið núna en þeir 40 þúsund þátttakendur sem lögðu leið sína Sharm El-Sheikh fengu vinnufrið þó mörgum finnist störfin takmörkuð. Næsta ár verður COP28 haldið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og ekki mun það auðvelda mótmælendum að setja mark sitt á störf ráðstefnunnar.cop

Verður aukinn aktivismi svarið?

En svo virðist sem þolinmæði loftslagssinna og þá sérstaklega hamfarasinna í þeirra hópi sé að minnka. Árleg losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu hefur næstum tvöfaldast, úr um 20 gígatonnum í næstum 40 gígatonn á ári síðan alþjóðlegar loftslagsviðræður hófust og helmingur allrar uppsafnaðrar losunar frá upphafi jarðefnaeldsneytistímabilsins hefur fallið til á aðeins síðustu 30 árum. Og þau sjö ár sem liðin eru frá því að Parísarsamkomulagið var undirritað árið 2015 hafa verið þau heitustu frá sögu jarðar. Hamfaraspárnar taka mið af því og þolinmæði hörðustu loftslagssinnanna er að minnka. Þeir telja að ferli Sameinuðu þjóðanna hafi misst trúverðugleika sinn og sumir heitustu loftslagssinnarnir telja að átakameiri tímar séu framundan og aukinn kraftur verði settur í því að þrýsta á stjórnvöld að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eins hratt og mögulegt er á heimsvísu. Sumir sjá þetta sem áskoranir til aktívista og gera má ráð fyrir fleiri árekstrum, auknum og öfgafyllri mótmælum eins og við erum að sjá af því unga fólki sem fremur skemmdaverk á helstu listadýrgripum mannkynsins.

Hverju lofaði Svandís?

Hugsanlega er sú ákvörðun að setja upp einhverskonar norður - suður-sjóð eða uppgjörssjóð iðnbyltingarinnar til að friðþægja einhverjum. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra lofaði fyrir hönd Íslands framlagi í þennan sjóð án þess að tilgreint sé hve mikið eigi að fara í hann eða hvort fjármunir hafi verið teknir frá til þess. Þessi sjóður er kynntur með til þessa að gera litlum fyrirvara af hálfu ESB með vísun í að hann eigi að greiða fyrir töp og tjón (loss and damage) og efla þannig skilning ríkari þjóða á ábyrgð sinni.

Erfitt er að sjá hvaða rök segja að Íslendingar eigi að taka ábyrgð undir þessum formerkjum. Iðnbyltingin var framandi Íslendingum og það er ekki fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld sem einhver iðnaðaruppbygging hefst hér, þá var varla til vegakerfi á Íslandi. Það er því umhugsunarefni að Íslendingum sé skipað í hóp með kolabrennsluþjóðum heims.

Eftir því sem komist verður næst hefur engin umræða farið fram um þennan lið innan ríkisstjórnar eða innan stjórnarflokka eða á vegum Alþingis sem fer jú með fjárveitingavaldið. Því er spurning hvort Svandís hafi einhverja heimild til að tala svona nema hún eigi einhverja skúffupeninga. Hún útskýrir kannski málið þegar hún kemur frá Sharm El-Sheikh.