c

Pistlar:

19. apríl 2007 kl. 15:28

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (unnurvalborg.blog.is)

Umpottun sjálfsins

Einhverra hluta vegna er mér mjög minnistætt úr æsku á vorin þegar mamma tók pottaplöntur heimilisins og umpottaði þeim sem sem þess þurfti og bætti á eða skipti um mold á hinum. Ég man sérstaklega eftir hvað mér þótti skrítið þegar rætur plantanna höfðu stækkað svo mikið að þær fylltu nánast út í pottinn svo að plantan gat nærri staðið á rótunum einum saman þó potturinn hefði verið fjarlægður. Ég skildi að þegar svo væri komið gæti plantan sú ekki vaxið meir og því þyrfti að setja hana í stærri pott og bæta á hana mold til að hún gæti haldið áfram að vaxa og dafna. Viti menn – nokkrum dögum og vikum síðar hafði viðkomandi planta tekið vaxtarkipp – rétt úr sér – orðið grænni og ræktarlegri en áður.

Þegar ég hugsa um þessi vorverk þá leitar á mig sú hugsun að í raun erum við mannfólkið um margt lík plöntunum. Með árunum verður okkar blómapottur til í formi okkar nánasta umhverfis, fjölskyldu, vina, áhugamála og starfs. Við vöxum og döfnum og rætur okkar stækka og styrkjast. Við bókstaflega skjótum rótum. Við fáum næringu frá umhverfinu eins og plantan. Í flestum tilfellum náum við árangri í því sem við erum að gera, lífið gengur sinn vanagang og hlutirnir verða þægilegir og auðveldir. Þá má með raun segja að rætur okkar séu farnar að fylla út í pottinn. Rýmið til að vaxa meir verður takmarkaðra. Hvað er þá til ráða? Því miður held ég að alltof margir taki því ástandi sem sjálfsögðum hlut. Hér er ég komin á minn stað og hér mun ég vera. Potturinn minn er passlegur, mér líður vel í honum og hér mun ég vera. Og af hverju ekki?

Jú því það sama gerist hjá okkur og hjá plöntunni þegar potturinn er farinn að þrengja að. Við hættum að vaxa og dafna. Við náum ákveðinni stærð – oft alveg ásættanlegri stærð og ákveðum meðvitað eða ómeðvitað að stækka ekki meira. Eftir umpottunina tekur plantan sýnilegan og oft ótrúlegan vaxtarkipp á stuttum tíma. Er mögulegt að það sama eigi við um okkur mannfólkið?

Hvað gerist til dæmis þegar við tökumst á við áskoranir sem reyna á okkur? Sækjum krefjandi námskeið, ákveðum að skipta um starf, lendum í óvæntum erfiðleikum, t.d. veikindum eða skilnaði, förum í nám o.s.frv. Vera má að við uplifum óþægindi á meðan á því stendur en eftir á getum við alla jafna litið til baka og séð að með því að ganga í gegnum þessar áskoranir stöndum við eftir sterkari en áður. Við höfum með því að takast á við viðkomandi áskoranir vaxið og dafnað. Við eigum auðveldara með að takast á við annars konar áskoranir sem við mætum, nýjungar, breytingar og áföll. Við höfum tekið vaxtarkipp eftir okkar eigin umpottun. Stundum þarf ekki einu sinni að skipta um pottinn - oft  dugar að bæta við örlítilli mold og losa um ræturnar.

Hefur þú hugsað um hvort þínar rætur eru orðnar aðþrengdar í pottinum? Þarf að hrista aðeins upp í þeim og skipta um mold til að þú getir tekið næsta vaxtarkipp eða þarf kannski að skipta yfir í stærri pott til að þú getir vaxið enn meira, blöðin grænki og stilkurinn styrkist?

Alveg eins og ég varð oft hissa á hversu annars falleg blóm gátu orðið enn fallegri með eins einfaldri aðgerð og umpottun hef ég í mínu starfi orðið vitni af því hvernig annars sterkir einstaklingar hafa orðið enn sterkari með því að fagna áskorunum og sumir hverjir jafnvel leita þær uppi. Ég tek mér slíka einstaklinga til fyrirmyndar því aðeins með því að vera stöðugt að skora á okkur sjálf og umpotta okkar sjálfi reglulega færumst við nær því að ná þeim árangri sem við getum og viljum ná. Og þótt ótrúlegt megi virðast þá er sá árangur nær alltaf meiri en við teljum okkur fær um að ná.

Þarft þú umpottun? Ég skora á þig að skoða hvort þú þurfir á umpottun að halda eða a.m.k. að hrista upp í rótunum reglulega og þú munt ná meiri árangri en þú þorðir nokkurn tíma að láta þig dreyma um!

Að umpottun lokinni í Vínarborg, 19. apríl 2007

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Hofundur er stjórnendaþjálfari, eigandi www.lead1st.com, adstodarmadur.is og annar þjálfara á www.kvennahelgi.is

 

Meira